10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3467 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

37. mál, verkamannabústaðir

Pjetur Ottesen:

Það er ljóst, að ef þetta mál á að fá afgreiðslu á þessu þingi, þá er ekki um nema tvær leiðir að velja. önnur er sú, að afgreiða það á þeim grundvelli, er hv. 1. þm. N.-M. leggur til, að gert verði. Hin er sú, að vísa því til stj. til frekari undirbúnings. Jeg er þess fullviss, að aðstaðan til þessa máls er sú, að afgreiða það ekki með kaupstaðina eina fyrir augum, enda væri slíkt með öllu ósamboðið Alþingi.

Jeg benti á það við 2. umr. þessa máls, að það væru heppilegri vinnubrögð, að till. hv. 1. þm. N.-M. kæmu þá strax til atkvæða, en svo fór nú samt, að þeim var vísað frá og málið afgr. á þeim grundvelli, sem hæstv. forsrh. lagði til, þannig að kaupstaðirnir einir njóti góðs af þessu. Sá tími, sem liðið hefir frá 2. umr. til þriðju, hefir lítið eða ekkert verið notaður til þess að athuga þetta mál á grundvelli till. hv. 1. þm. N.-M. Hann hefir nú borið fram till. sínar óbreyttar frá því, sem þær voru við 2. umr., en það mun öllum vera ljóst, að ef þær verða samþ. og þetta færist þannig út yfir kauptúnin líka, mundi þurfa að taka ýmislegt fram í 1., sem till. hans grípa ekki út yfir. Hv. allshn. hefir ekki lagt neina rækt við að athuga þetta mál á þeim grundvelli, sem hv. 1. þm. N.-M. leggur til, að hafður verði, og athugun hennar á frv. í núv. mynd þess hefir ekki borið neinn sjáanlegan árangur. Það liggur aðeins fyrir ein brtt. frá n., sem skiftir engu máli. Till. hv. 3. þm. Reykv. eru til bóta, en n. á engan hlut í þeim. Það er enganveginn svo, að ekki sje ýmislegt við frv. að athuga eins og það er nú, sjerstaklega fyrir þá, sem vilja, að það nái fram að ganga. Jeg benti á eitt atriði við fyrri umr. þessa máls, sem hæstv. forsrh. tók vel í að athuga frekar, en ekkert orðið úr, enda hefir hann nú fatlast frá þingstörfum. Þetta atriði er það, að hjer á að lána út á fasteignir 85%, en það er meira en lánað er út á aðrar fasteignir í landinu og gerir því áhættuna af þessum lánum meiri.

Annað atriði, sem líka var vel tekið í að athuga, var það, að með ákvæðum frv. um það, hverjir eigi að útbúa þessar byggingar, eru líkur til, að fátækir menn verði útilokaðir frá þessum stuðningi. En þetta hefir ekki heldur verið tekið til athugunar. Jeg sje sem sagt ekki, að nein tilraun hafi verið gerð til þess að laga neitt af þeim misfellum, sem bent var á við 1. umr. að væru í frv. Þar hjakkar alt í sama farinu. Það eina, sem n. hefir gert, er að lagfæra eina einustu prentvillu.

Svo að jeg víki að till. hv. 1. þm. N.-M., þá er það augljóst mál, að þeim er að ýmsu leyti áfátt. Annars á það bæði við frv. í núv. mynd og þessar till. hv. 1. þm. N.-M., að það hefði verið miklu rjettara að leita umsagnar bæjarstj. og hreppsn. og sýslun. um það, hvort þær álitu ástæðu til að gera þessar ráðstafanir, áður en farið væri að samþ. slíkt frv., þar sem þessir aðiljar eiga að leggja fram fje til bráðabirgða til þessara bygginga.

Svo er eitt atriði, sem jeg vildi benda á. Samkv. brtt. hv. 1. þm. N.-M. er gert ráð fyrir, að ákvæði þessa frv. nái einnig til kauptúnanna, og verða því viðkomandi hreppar að taka lán og láta í tje ábyrgð í því sambandi. En eins og kunnugt er, hefir sveitarstj. samkv. ákvæðum sveitarstj.laganna ekki heimild til að taka lán og ganga í ábyrgð án samþ. sýslun., og í þessu frv. eru engin undantekningarákvæði frá gildandi ákvæðum sveitarstjórnarlaganna fyrir kauptúnin. Þess vegna býst jeg við, að þetta geti valdið nokkrum ágreiningi, sem vert væri að fyrirbyggja þegar í upphafi.

Þetta eru alt atriði, sem vitanlega hefði verið nauðsynlegt að taka til athugunar, en þess vinst nú enginn kostur hjer, þar sem þetta mál er nú til 3. umr. Mjer er þess vegna mikið til efs, hvort heppilegt mundi frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja setja lög um þetta efni, að afgr. nú þetta mál með þessum og ýmsum öðrum sýnilegum ágöllum, sem eru á formshlið þess. Jeg hygg, að hitt mundi reynast miklu skynsamlegar ráðið, að vísa málinu til stj. til frekari undirbúnings. Þetta mál á eftir að ganga gegnum aðra deildina, en ef miðað er við, að þingi verði slitið um næstu helgi, þá er alveg sýnt, að hv. Ed. vinst enginn tími til að færa til leiðrjettingar ýmislegt það, sem nauðsynlegt er að leiðrjetta í frv.

Það er búið að ræða mikið þetta mál, og allmikið af þeim umr. hefir snúist um aðstöðu sveitanna og kaupstaðanna til þess að koma upp byggingum og nauðsynlegum endurbótum hjá sjer. Jeg býst nú við, að e. t. v. hafi komið fram í þeim umr. nokkrar öfgar frá beggja hálfu. En þær mestu öfgar, sem jeg hefi heyrt í sambandi við þetta mál, komu þó frá hv. þm. Mýr., þar sem hann fór að tala um það, að þessar ráðstafanir væru e. t. v. nauðsynlegar til þess að fólkið flytti ekki blátt áfram af landi burt.

Hv. 2. þm. Skagf. upplýsti það hjer, að meginið af því fje, sem lánsstofnanir hjer á landi hafa miðlað til manna, hafi verið í umferð í kaupstöðunum, og nálega alt fje þeirrar stofnunar, sem sjerstaklega hefir verið komið upp til þess að veita lán út á byggingar — sem er veðdeildin —, hefir farið í kaupstaði og kauptún. Hann sagði, að 20 milj. kr. væri búið að lána út úr veðdeildinni, og auk þess hefði hún heimild til að lána enn 10 milj. kr. í þessu skyni. Og eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. atvmrh. hefir gefið hjer á þingi áður, er hvorki meira nje minna en 95% af öllu þessu fje bundið í byggingum og fyrirtækjum í kaupstöðum. Mjer þykir þess vegna dálítið undarlegt, þegar loks er svo komið, að nokkru fjármagni hefir verið veitt til sveitanna á síðustu árum til byggingar og ræktunar, þá er reynt að nota sem ástæðu fyrir því, að nú þurfi að fara að gera sjerstakar ráðstafanir um fjárveitingar handa kaupstöðunum til húsabygginga þar. Og jeg verð að segja, að mjer þótti það harla ógeðfelt að hlusta á það að vera að tala um þetta sem nauðsynlegt bjargráð til þess að fyrirbyggja fólksflutning úr landinu. Jeg bjóst ekki við slíku hjali af hálfu þeirra manna, sem mikið hafa talað um það á undanförnum árum að veita fje inn í sveitirnar, til þess að auðið verði að leysa úr læðingi þá miklu möguleika, sem áreiðanlega eru fólgnir í okkar íslensku gróðurmold. Það er engu líkara en að þessir menn hafi alt í einu mist trúna á sveitunum og þýðingu þess að veita fjármagni til aukins starfs og athafna þar. Jeg verð að segja það, að mjer virðist þarna koma fram miklu meiri vantrú á framtíð landbúnaðarins heldur en jeg álít ástæðu til og skynsamlegt sje að komi fram á Alþingi eða neinstaðar annarsstaðar á þessu landi.