26.03.1929
Neðri deild: 32. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (2256)

62. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki tefja hv. deild lengi í þessu máli. Þegar fyrri hluti þessarar umræðu fór fram á dögunum, hafði jeg skrifað ýmsa punkta hjá mjer, en hefi nú týnt þeim. Jeg hafði hugsað mjer að vísa á bug ýmsum ómaklegum ákúrum í ræðu hv. þingm. Mýr. (BÁ). Háttv. þm. líkti Reykjavík við magra kú. Þetta eru mjög ómakleg ummæli og algerlega óviðeigandi. Hvað sem annars má um höfuðstaðinn okkar segja, þá er það víst, að hann hefir ekki reynst nein mögur kýr í þjóðarbúinu, heldur þvert á móti.

Hitt geri jeg ráð fyrir, að hafi meira verið sagt í gamni, að Reykjavík væri eins og hin verstu kvikindi, sem ætu sín afkvæmi; og síðar í ræðu sinni líkti hann henni svo við sjálfan skrattann, sem tekur fyrst litlafingurinn.

Jeg er alveg hissa á því, hvernig hv. þm. tekur í þetta mál. Það var dálítið annað hljóð í honum á þinginu í fyrra, í samskonar máli, sem þá var hjer til umræðu, um að heimila Ísafjarðarkaupstað að fá keypta jörðina Tungu í Eyrarhreppi. Að vísu greiddi hann þá atkvæði á móti því, af því að það væri ekki nógu vel undirbúið, en hann fór mjög hlýlegum orðum um það, eins og jeg skal nú minna hann á, með leyfi hæstv. forseta:

„Jeg skal geta þess, út af máli því, sem nú liggur fyrir, að mjer finst eins og komið er, þegar Ísafjörður er búinn að eignast jörðina og farinn að nytja hana, þá sje það sjálfsagt að leggja hana undir lögsagnarumdæmi Ísafjarðar“.

Hjer dæmir hv. þm. með sanngirni um samskonar kröfu og hjer er gerð í því frv., sem fyrir liggur; hann greiðir að vísu atkv. á móti málinu þá, en talar um að það sje sanngjarnt, að hreppurinn láti af hendi land, sem kaupstaðinn langaði til að fá undir sín umráð, sjer til hagsmuna. En nú veit hann varla, hvaða ókvæðaorð hann á að nota um Reykjavík í alveg samskonar máli. Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta.

En út af orðasveim, sem jeg hefi heyrt um það, að í ráði væri, að þetta frv. eigi ekki að fá að komast til nefndar, vil jeg spyrja, hvort hv. þdm. finst það vera sómasamleg afgreiðsla á þessu mikla áhugamáli Reykjavíkurbæjar, að neita um, að það fái athugun í nefnd. Jeg hefi áður bent á það, að þó að jeg væri ekki að öllu leyti ánægður með þetta frv., þá mætti lagfæra það í nefnd. Nefndin hefði það þá í sinni hendi að fara ekki fram á annað en það, sem öll sanngirni mælir með og samkomulag næðist um við hlutaðeigandi sýslufjelag. Mjer finst það alveg ósæmilegt, ef hv. þdm. neita um, að málið fái að komast til nefndar. Það eru ekki svo mikil útlát í því.