16.04.1929
Efri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (2287)

78. mál, einkasala á nauðsynjavörum

Frsm. minni hl. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg hefi á þskj. 339 leyft mjer að setja fram í stuttu máli álit mitt á frv. Jeg hefi leyft mjer að benda á það, að með lögum nr. 45 1913, um Bjargráðasjóð Íslands, var stofnaður allsherjarsjóður fyrir landsmenn, og jafnframt sjereignarsjóðir fyrir hverja sýslu og hvern kaupstað, í því skyni að vera til hjálpar í hallæri, og þá jafnframt sett á stofn sjerstök bjargráðastjórn fyrir alt landið, sem á að vera ríkisstjórninni til stuðnings við allar framkvæmdir, sem miða til þess að afstýra hallæri, og á að hafa vakandi auga á öllum hallærishættum, hvar sem er á landinu. Eftir 11. gr. laganna á auk þess að gera í hverjum kaupstað og hverri sýslu bjargráðasamþyktir, og má í þeim skipa fyrir um alt, sem ríkisstjórnin eftir tillögum bjargráðastjórnar telur nauðsynlegt til tryggingar því, að sjereignarsjóður sýslunnar eða kaupstaðarins komi að rjettum notum, og í 12. gr. laganna er svo ákveðið, að ef hallæri beri að höndum, eigi hvert hjerað tilkall til sjereignar sinnar í bjargráðasjóðnum, og ef hans birgðir reynast svo litlar í einhverju hjeraði, að hætt sje við bjargarskorti fyrir menn eða skepnur, ef illa vetrar, þá má hjeraðið með leyfi bjargráðastjórnar neyta sjereignar sinnar til að kaupa eða tryggja sjer vöruforða, og ef það fje brekkur ekki, má ríkisstjórnin veita hjeraðinu vaxtalaust lán af sameignarsjóði.

Verði svo mikil óáran um land alt, að bjargráðasjóðurinn komist í fjárþröng, má ríkisstjórnin lána honum fje úr ríkissjóði, eða útvega honum lán annarsstaðar.

Bjargráðasjóðurinn var í árslok 1927 alls kr. 843919,92. Þar af voru sjereignarsjóðirnir kr. 419463,43, en sameignarsjóðurinn kr. 424456,49. Mestalt þetta fje stendur á hlaupareikningi hjá Landsbanka Íslands, og er því handbært hvenær sem vera skal. Það er aðeins lánað út af því eitthvað um 60 þús. kr.

Auk þessara laga, sem eru beinlínis sett til að afstýra hverskonar hallæri, sem er í landinu, má einnig benda á lögin um gjafasjóð Jóns Sigurðssonar handa fátækum í Eyjafjarðarsýslu og á Akureyri, nr. 29 1913. Eftir þeim má verja megini af árstekjum hans til kornforðatryggingar í Eyjafjarðarsýslu og á Akureyri, til þess að koma í veg fyrir bjargarskort þar í harðæri. Jeg hefi heyrt, að þessi sjóður eigi nú þegar að taka til starfa í þessu skyni og að samið hafi verið við Kaupfjelag Eyfirðinga um að hafa nægilegan kornforða fyrir hjeraðið, að minsta kosti fyrir næsta vetur; jeg held að það hafi ekki verið samið nema til eins árs í senn.

Ennfremur eru lögin nr. 73 frá 1917, um kornforðabúr til skepnufóðurs, og lög nr. 42 1919, um samþyktir um stofnun eftirlits- og fóðurbirgðafjelaga, en öll þessi lög hafa að geyma ráðstafanir til að afstýra hallæri. Jeg get þess vegna ekki sjeð, að það beri brýna nauðsyn til að fara að fitja upp á nýrri löggjöf í þessu efni.

En þótt svo væri og eitthvað kynni að vera ábótavant við þessa löggjöf, sem fyrir er, finst mjer lægi nær að endurskoða hana og lagfæra, ef með þyrfti, heldur en að koma með nýja einokun og gera fyrirkomulagið sem líkast eins og á einokunartímanum, þegar mestar hörmungar gengu yfir landið.

Þá virðist það og mjög hæpið ráð til að afstýra hallæri, að banna frjálsan innflutning á nauðsynjavörum í landið.

Jeg leyfi mjer þess vegna, þar sem ekki er þörf á löggjöf um þetta efni og þar sem jeg er algerlega mótfallinn ákvæðum frv., sem myndi verða rothögg á alla frjálsa verslun í landinu, ef að lögum yrði, að leggja til, að það verði felt.