11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2303)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Sigurður Eggerz:

Það flaug út um bæinn um það leyti, sem sanmingar tókust í kaupdeilunni, að sáttum hefði verið komið á með eftirgjöf á tekjuskatti. Þessu hefir síðan verið haldið fram í blöðunum og loks verið slegið föstu hjer.

Mjer finst ákaflega æskilegt, að hið rjetta komi fram. Jeg veit ekki, hvort skilja átti ummæli hæstv. forsrh. (TrÞ) svo, að eina ástæðan til þess, að innheimta skattaukans var afturkölluð, hafi verið sú, að hagur ríkissjóðs hafi reynst betri en búist var við, er ákveðið var að heimta hann inn. Jeg fyrir mitt leyti gleðst yfir því, að skatturinn var ekki innheimtur. En úr því að þetta mál er dregið inn í umr., þá vil jeg fá að vita, hvort eftirgjöfin stendur í nokkru sambandi við lausn kaupdeilunnar. Jeg tel sjálfsagt, að þingið fái vitneskju um það. Jeg hefi gengið út frá því í ræðum hjer á Alþingi, að eftirgjöfin hafi staðið í sambandi við verkfallið. Það gerði jeg eftir bestu vitund. Þau ummæli hefði jeg ekki við haft, ef jeg hefði vitað, að annað var rjettara. Því vil jeg vita vissu mína, og ef hæstv. stjórn lýsir yfir því, að það hafi ekki verið gert, þá verður að taka tillit til þeirrar yfirlýsingar.