14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2326)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Það getur verið, að hæstv. forsrh. hafi svarað spurningu þeirri, sem að honum var beint, oftar en einu sinni, en ekki hefi jeg þá verið viðstaddur.

Það er misskilningur, ef hv. þm. V.-Ísf. heldur, að jeg hafi einhverja löngun til að rífast um þetta mál. Jeg vil sýna honum það með því að fara ekki að hans dæmi, því að hann er sá eini, sem um það hefir rifist. Jeg bar fram spurningu í góðu, og hæstv. forsrh. svaraði henni líka mjög stillilega. En það er hv. þm. V.-Ísf., sem virðist langa í rifrildi. Jeg býst ekki við að verða við þeirri ósk. — Hitt er annað mál, að mjer finst ekki óeðlilegt, þótt menn vilji fá svör landsstjórnarinnar um mál eins og þetta og láti sjer ekki lynda, að forsrh. kalli það bara leyndarmál. Hv. þm. V.-Ísf. hefir verið einn af þeim mönnum, sem barist hafa á móti allri launung og baktjaldamakki í opinberum málum.

Það, sem mjer finst hneyksli, er ekki það, að verkfallinu lauk, og ekki heldur að tekjuskattur var feldur niður, heldur hitt, að hæstv. forsrh. landsins skuli vera að gera það, sem hefir jafnmiklar afleiðingar og þetta, og segja svo á eftir, að hann megi ekkert segja frá. Hann á að vera svo opinber maður, enda þótt það kunni að vera nauðsynlegt að þegja rjett í bili. En það er bara reginhneyksli og ekkert annað, að forsætisráðherra geri nokkurn hlut þannig, að hann megi ekki orð frá því segja á eftir. Þá er eitthvað óhreint við slíka samninga.

Jeg hefi fyr heyrt þessa ástæðu hæstv. forsrh., að hann hafi ekki vitað í jan. s. l., að árið sem leið var góðæri. Það má hver trúa því, sem vill, hvort stjórn landsins er eini aðilinn í landinu, sem hefir svo aftur augun, að hún vissi ekki, að það var framúrskarandi góðæri árið sem leið. Þó að hæstv. forsrh, hafi ekki vitað um afkomuna upp á krónu, var ekki ástæða til að gera ráð fyrir henni rýrari en raun varð á.

En við skulum nú taka það gott og gilt, að hann hafi verið eini maðurinn, sem ekki vissi um þetta fyr en tveimur mánuðum síðar, þegar hann fór að gera upp fjárhag ársins. Það dregur þó ögn úr sök hans í þessu máli, en það hleður á hann annari langt um verri sök: skeytingarleysi og grunnhygni um hag landsins, svo að hann má teljast alóhæfur til þess að gegna þeirri ábyrgðarstöðu, sem hann hefir.

Þá var hin ástæðan, að verkfallinu hafði í millitíð verið ljett af. Þessa ástæðu hefi jeg nú ekki heyrt áður. En mjer finst hún ákaflega ljettvæg; því að hjer lá alls ekki fyrir að hætta við að innkalla tekjuskattinn af tekjum þess árs, sem verkfallið snerti, heldur næsta árs á undan, og afkomu eða tekjum þess árs breytti það í engu þótt verkfallinu sje afljett. Þetta er algerlega tylliástæða út í loftið. En svo bætti hæstv. forsrh. því við, sem vitanlega er mergur málsins, að þessar tvær gildu ástæður hafi ekki verið nægar, það hafi verið meira. Það var þetta „dálítið meira“, þessi þremill milli þils og veggjar, sem ekki má koma í dagsins ljós. Það er hann, sem hneykslinu veldur.

Annars hefi jeg nú algerlega náð því, sem jeg ætlaði mjer með því að standa upp, — að vita, hvort hæstv. forsrh. vildi ekki gefa svar. Hann er nú búinn að innleiða nýja reglu í Alþingi Íslendinga, því að jeg hygg, að þetta sje í fyrsta skifti, að forsætisráðherra stendur upp og neitar að segja þinginu, hvað hann hefir gert fyrir landsins hönd.

Hann talaði um þakklætisskyldu Reykjavíkur við sig, sem hann vildi ekki ganga eftir. En jeg fyrir mitt leyti færði honum mitt þakklæti fyrir þetta. Jeg gef keisaranum það, sem keisarans er.

Hv. þm. V.-Ísf. skal jeg ekki svara neinu sjer á parti. Jeg veit ekki, hvað knúði hann til þess að standa upp yfirleitt í þessu máli. Veit hann nokkuð um þetta mál? Er hann kannske sá eini, sem er kunnugt um leyndarmálið? Honum fórust orð á þá leið, að einu hneykslinu, verkfallinu, hefði verið ljett af, og öðru hneykslinu, tekjuskattsviðaukanum, sömuleiðis. Og þriðja hneykslið í mínum augum væri það, ef þessi tvö mál stæðu hvort í sambandi við annað. 2/3 af þessu er ósatt, 1/3 er sannur. Jeg hefi hvorki sagt, að lausn verkfallsins nje niðurfelling tekjuskattsviðaukans væru hneyksli. En það var hneyksli að setja þetta í samband hvað við annað. Það er einmitt þetta, að það, sem var svo gott í sjálfu sjer, missir mikið af gildi sínu við það, að vera sett í samband hvort við annað. Það væri gleðilegt, ef hæstv. forsrh. hefði verið svo fínn samningamaður, að hann hefði getað sett niður deiluna. En það er bara ekkert varið í það, þegar upplýst er, að hann borgaði nógu mikið á milli, til þess að leysa málið. Sáttasemjarinn hefði líka getað leyst deiluna á þremur dögum, hefði hann haft nóg peningaráð. Og jeg verð að segja, að þakklætisskuldin minkar töluvert við það, að hæstv. stjórn kallaði aftur tekjuskattsaukann með svipuna yfir höfði sjer, en ekki af því að hún sá, að þetta var rjett og óhætt að gera.

Nei, hv. þm. V.-Ísf. fann ekkert annað hneyksli en það, að nokkur maður skyldi minnast á þetta, og sýndist verða alveg hissa. Svona væri þá óbilgirnin alstaðar! Hann átti bara að bæta við: Það var eitthvað annað í tíð fyrv. stj., þá var ekki andstaðan uppi við hvert tækifæri.

Jeg skal svo ekki orðlengja um þetta. Jeg er búinn að tala í þessi tvö skifti, sem jeg hefi leyfi til við þessa umr., og jeg hefi fengið það fram, sem jeg vildi. Hæstv. forsrh. vill ekki svara, en hefir þó óbeinlínis gert það. Og hafi eitthvað skort á svarið, þá hefir hv. þm. V.-Ísf. alveg bætt úr því, svo að það er nokkurn veginn augljóst orðið, að þetta samband er á milli þessara tveggja mála, sem menn hafa alment talið að væri.