11.04.1929
Efri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (2374)

89. mál, almennur ellistyrkur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þegar frv. þetta var til 1. umr. hjer í hv. deild, andmælti jeg því að nokkru í þeirri mynd, sem það er flutt. Mjer þótti ekki heppilegt að hækka persónugjöldin, eins og þar var ráð fyrir gert. Jeg benti þá á nýja aðilja til aukningar á ellistyrktarsjóðunum. Og í samræmi við það get jeg verið ánægður með till. hv. n. Jeg álít, að eftir brtt. n. verði tilganginum betur náð heldur en var eftir frv., og með því er mikið fengið. Jeg álít það eðlilegt, að hreppa- og bæjarfjelög leggi fram upphæð til þessa, því að í framkvæmdinni verða þessir sjóðir til þess að ljetta gjöldum af þessum aðiljum. Svo er það þar, sem jeg þekki til. Þar er ellistyrkurinn veittur gamalmennum, sem ella yrðu að þiggja af sveit. Foreldrar, sem eru hjá efnuðum börnum sínum, sækja sjaldnast um þennan styrk. Þeir vita, að um lítið fje er að ræða, og að af því veitir ekki til styrktar einstæðings gamalmennum. Sjóðir þessir hafa gert þó nokkuð gagn, sem nú eykst um helming með þessu breytta fyrirkomulagi. Og fyrst tilgangurinn næst sæmilega, þá sje jeg ekki ástæðu til þess að styrkur ríkissjóðsins sje hækkaður. Enda eru takmörk fyrir því, hvað á hann má hlaða. Og þótt segja megi, að hjer sje ekki um háa upphæð að ræða, þá safnast þegar saman kemur. Mjer finst því rjett að hlífa ríkissjóði við auknum fjárframlögum til þessa enn um stund.