03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (2387)

89. mál, almennur ellistyrkur

Hannes Jónsson:

Jeg sje ekki ástæðu til að fara mikið fleiri orðum um þetta mál. Jeg hefi sýnt fram á, að málið er alt í lausu lofti og mjög óaðgengilegt, eins og það liggur nú fyrir. Það er meira en eitt atriði, sem fjárhagsnefndirnar greinir á um, eins og jeg hefi þegar sýnt fram á, enda þótt gjaldstofnarnir sjeu vitanlega aðalágreiningsatriðið.

Jeg skal ekki deila um þær mismunandi tölur, sem jeg og hv. frsm. meiri hl. höfum fengið út. Jeg skil varla í að Landsreikningurinn sje vitlaus, nje heldur, að menn hafi goldið meira en þeim bar. (HStef: Gjaldið er misjafnt fyrir karla og konur). Ríkissjóðstillagið er 1 króna, bæði fyrir karl og konu. En jeg skal ekki þrátta um þetta meira.

Það má ekki skilja afstöðu mína svo, að jeg sje andvígur öllum breytingum í þessu efni. Jeg geri ráð fyrir, að jeg verði fylgjandi þeim breytingum, sem gerðar eru á heilbrigðum grundvelli, en jeg vil ekki að verið sje að káka við þessa löggjöf á 2–3 ára fresti. Ef frv. yrði að lögum með þeim breytingum, sem meiri hl. fjhn. leggur til, mundu útgjöld ríkissjóðs aukast um 29 þús. krónur frá því sem hv. Ed. ætlast til.