13.05.1929
Neðri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (2407)

89. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Eins og menn muna, var frv. þetta borið fram í hv. Ed., en breytt allmikið í þessari hv. deild, er það kom til hennar. Nú hefir hv. Ed. fært frv. „upp á punkt og kommu“ til þess horfs, sem það var afgreitt þaðan, og þannig haft að engu till. þessarar hv. deildar. Síðan hefir ekki gefist tækifæri til að athuga málið í n., enda óþarfi, þar sem frv. er nú óbreytt frá því, sem það var, er það fyrst kom frá hv. Ed. En meiri hl. fjhn. hefir þó borið sig saman um frv. utan fundar, og sjer ekki ástæðu til að hverfa frá afstöðu sinni, nje heldur vill meiri hl. kannast við, að rjett sje að láta Ed. neyða sínum till. upp á þessa hv. deild. Leggur meiri hl. fjhn. því til, að gerðar verði sömu breytingar á frv. nú og áður, en þar sem þær hafa verið ræddar hjer ýtarlega áður, sje jeg ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri.