04.04.1929
Neðri deild: 36. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (2471)

51. mál, yfirsetukvennalög

Einar Jónsson:

Jeg er nú búinn að hlusta lengi á þessar umr. og skil, satt að segja, ekkert í því, hvernig hv. þm, Dal. getur haldið eins fast í sinn óþarfa málstað og hann gerir. Þó að hv. þm. segi, að yfirsetukonur vanti í 30 umdæmi, þá nær það vitanlega engri átt. Það er órjett og ekki satt.

En þó svo væri um fleiri, þá vitum við, að ef þessi leið er farin, að því er yfirsetukonurnar snertir, þá grípur það yfir meira svið en að eins þeirra laun. Það er og sannanlegt um yfirsetukonu í sveit, að mörg önnur búandi kona hefir ekki betri kjör, þar sem sanna má, að yfirsetukonur í sveit tefjast oft ekki nema 3–6 daga á ári frá sínum störfum, en fá 2–3 hundruð kr. í laun.

Jeg vil nú lýsa yfir því, að jeg er algerlega mótfallinn því, að farið verði að hækka laun þessarar stjettar, þegar vitanlegt er, að á eftir hljóta að koma margfalt sanngjarnari umsóknir, sem ekki er hægt að neita. — Ef hv. þm. Dal. endilega vill bæta svo laun yfirsetukvenna, sem hjer er farið fram á, þá er jeg viss um að hv. þm. hefir ráð til að borga þeim þær 500 krónur, sem Spegillinn var að tala um hjer á dögunum, úr eigin vasa.

Jeg vil blátt áfram óska þess, að hv. deild fari sömu leið í þessu máli og hún hefir gert áður og láti yfirsetukonurnar vera þar, sem þær eru staddar, því að jeg vona, að þeim líði sæmilega vel, hvort sem hv. þm. Dal. ætlar að skifta mikið við þær á eftir eða ekki; jeg skifti mjer ekki af því. — Jeg vil sem sagt ekki heyra það hjer á þingi, að jafnsanngjarn og góður maður sem hv. þm. Dal. geri sig sekan um slíkar öfgar og hann hefir hjer haldið fram, — jeg vil ekki þurfa að hlusta á slíkt.