21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (2531)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

Páll Hermannsson:

Það fjell nú að vísu botninn úr því, sem jeg hafði ætlað mjer að tala um, þar sem hv. 3. landsk. tók brtt. sína aftur, en það var líka annað atriði, sem jeg hafði ætlað mjer að minnast á, og því kvaddi jeg mjer hljóðs. Hv. frsm. allshn. tók það fram, að þegar um sölu slíkra jarða sem þessarar væri að ræða, yrðu allir hlutaðeigendur að vera sammála um kaupbeiðnina, og jeg er honum þar samdóma. En mjer þykir bresta á, að allar þær upplýsingar sjeu komnar fram, sem þurftu að liggja fyrir hendi. Það er upplýst, að Neskaupstaður vill kaupa landið, og álit yfirmanns kirkna í landinu liggur fyrir hendi, þótt ekki mæli það með sölunni, en jeg veit ekki til, að umboðsmaðurinn fyrir Múlasýsluumboði hafi nokkuð látið til sín heyra, eða að álit hans sje fengið. Úr þessu mætti þó fljótlega bæta, því það vill nú svo til, að hann á sæti hjer á þingi. Ennfremur er til samþykt, sem kölluð er Nessamþykt, er snertir þessa eign. Gerðu eigendur samþykt þessa sín á milli, en eins og menn vita, eru eigendurnir margir. Hvað samþ. þessi felur í sjer, er ennþá ekki upplýst, en það gæti verið eitthvað, er þýðingu hefði fyrir málið. Jeg vil ekki bregða fæti fyrir frv. nú, og mun því greiða því samþykki mitt til 3. umr., en þá munu þessar upplýsingar fengnar. En þessa skýringu vildi jeg gefa ef svo kynni að fara, að jeg greiddi öðruvísi atkv. við 3. umr.