11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (2548)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Magnús Jónsson:

Jeg vildi aðeins spyrja um það, hvort ekki hefði verið venja að vísa samskonar málum og þessu til allshn. Jeg skal ekki fjölyrða um þetta frv. nú. En ekki get jeg stilt mig um að vekja athygli á því, að hjer um bil einu afskiftin, sem Alþingi hefir haft af kirkjumálum til margra ára, eru í því fólgin, að selja lönd undan prestssetrum og reita þannig af eignum kirkjunnar smám saman. Jeg skal samt ekki hafa neitt á móti frv. að svo stöddu. En af því að jeg heyrði að hv. flm. sagðist hafa talað við biskup um þetta mál, vildi jeg benda hv. nefnd á það, að hún ætti líka að leita álits hans, áður en hún tekur nokkra ákvörðun um málið. Og helst ætti æfinlega að liggja fyrir skrifleg umsögn hans áður en svona frv. eru afgreidd. Jeg sje ekki að þetta frv. snerti landbúnaðinn, því að hjer er aðallega um hagsmuni kauptúns að ræða. Ætti það því heima í allshn., en ekki geri jeg það að neinu kappsmáli.