08.04.1929
Efri deild: 39. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í C-deild Alþingistíðinda. (2617)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Jónas Kristjánsson:

Frv. á þskj. 44, um raforkuveitur til almenningsþarfa utan kaupstaða, verður að teljast eitt af þeim stærstu málum, er fyrir þinginu liggja.

Er það algerð nýjung, að hjer á landi sje ráðist í svo stór fyrirtæki sem það, er frv. fer fram á, og orðin eru til alls fyrst. Þó hafa ýmsir framsýnir menn sjeð það í hillingum, enda er því svo farið um flest stór framtíðarmál, að þau fæðast fyrst í hugsun framsýnna hugsjónamanna, áður en þau koma til framkvæmda. Þetta er ekkert draumóramál. Slík fyrirtæki sem þetta, hafa verið framkvæmd í öðrum löndum. Vjer Íslendingar erum þar á eftir tímanum, eins og víða annarsstaðar, en betra er seint en aldrei, og nú á með frv. þessu að hefjast handa og leiða þannig í veruleikann drauma hugsjónamannsins.

Ýms fyrirtæki, sem framkvæmd hafa verið hjer á landi, hafa þótt gapaleg í byrjun, eins og t. d. að leggja símakerfi yfir landið. Þótti þá í mikið ráðist, en það fyrirtæki hefir komist í framkvæmd, og mun nú enginn sjá eftir því, að í það var ráðist, og munu allir viðurkenna, að það var framsýnn og stórhuga andi, er hratt því máli fyrst af stað. Hjer er ekki um fyrsta sporið að ræða, til þess að taka öfl náttúrunnar í þarfir framleiðslu og menningar, en það er þó svo stórt spor, að til þess að koma því áleiðis, verðum vjer að sameina krafta vora. Sannast þar hið fornkveðna, að sameinaðir sigrumst vjer á hverri þraut, en sundraðir bíðum vjer ósigur. Það, sem bagar okkur mest, er það, hve tvískiftir við erum, og það er mikið mein, þegar dægurmálin skifta svo kröftunum, að þau standa fyrir þeim málum, er nauðsynleg eru til að vinna að heill framtíðarinnar og komandi kynslóða. Ísland hefir engin steinkol eða olíu í jörðu, eins og svo mörg önnur lönd, en við erum þó ekki gersneyddir þeim kröftum, sem í steinkolunum felast. Við vitum, að kolin eru samansafnað í ljós sólar, sem náttúran hefir varðveitt. Við höfum önnur gæði, er komið geta að sama gagni, ef við þorum að ráðast í að beisla þau til notfæringar menningunni. Við höfum hvítu kolin, árnar, fossana, fallvötnin. Þau auðæfi getum við notfært okkur, ef við sameinum krafta vora og höfum dug og dáð til þess að byrja á þessum framkvæmdum. Því er líkt farið með okkur og kóngssynina og dæturnar í æfintýrunum, er þau lentu í trölla höndum. Tröllin bundu þau við stóla og settu krásadisk á knje þeim, en fjötrar tröllanna meinuðu þeim að neyta rjettanna. Við höfum verið bundin af viðjum fáfræði og fátæktar. Í æfintýrunum kom altaf einhver frelsandi engill, til þess að leysa fjötra þeirra konungsbarna. — Þannig þarf vaxandi menning og vaxandi velmegun að leysa af okkur fjötrana, til þess að við getum notið krásanna í knjám vorum, fært okkur í nyt krafta náttúrunnar, sem annars renna til hafsins og verða engum að notum.

Sumstaðar á landinu eru menn þó farnir að notfæra sjer þessi öfl, en það er víðast í smáum stíl, nema í Reykjavík. Augu bænda eru að opnast smám saman fyrir þörfinni, sumir þeirra hafa látið virkja lækinn, sem rennur við bæjarvegginn, og þetta rekur á eftir öðrum um að notfæra sjer þetta heimafengna afl.

En það er með þetta eins og flest annað. Einstaklingurinn fær litlu áorkað, en þegar margir sameina krafta sína til þess að hrinda þessu máli áleiðis, hverfa stærstu erfiðleikarnir úr sögunni. Síður er hætt við áföllum, slysum og skaða, ef rekstur slíkra fyrirtækja er falin kunnáttumönnum, og ef stór vötn eru virkjuð.

Því er svo varið, að þekking á þessum málum er yfirleitt lítil meðal almennings. Hinsvegar er tilkostnaður mikill við að koma þessum smástöðvum upp. Oft geta lítilfjörleg slys orðið til þess, að eyðileggja þessi litlu en dýru mannvirki. Þetta væri mikið óhapp fyrir bónda, sem búinn væri að koma upp raflýsingu á heimili sínu, og með ærnum kostnaði. Því er það betra og áhættuminna, að menn sameini kraftana um eitt stórfyrirtæki, þar sem fjöldinn gæti góðs af notið, en kunnáttumönnum væri falin forsjá þess. Það yrði líka án efa ódýrara með því móti, en yrði þó of dýrt öllum þorra manna, nema ríkið rjetti hjálpandi hönd, og það fer frv. fram á. Það yrðu ekki lítil viðbrigði í sveitunum, ef hægt væri að lýsa og hita upp hvern bæ með raforku. Þetta mundi valda feikna breytingum til menningarbóta og gera höll úr hreysi. Það eru ekki holl nje góð áhrifin, sem dimmu og köldu húsakynnin hafa haft á kynslóðir íslensku þjóðarinnar á liðnum öldum og árum. Ekkert lyftir huganum eins til flugs og hendinni til starfa sem hlýindi og birta, en kuldinn og myrkrið dregur dáð úr öllum mönnum.

Ein ástæðan, og ekki sú veigaminsta, til þess, að fólk flykkist úr sveitunum til kaupstaðanna, er sú, að þar eru þessi skilyrði betri. Harðast hefir þó kuldinn komið niður á húsfreyjum í sveitum þessa lands. Þær eru bundnar við inniverkin, oft í dimmum og köldum húsakynnum. Svo er það víða til sveita, og er ekki ólíklegt, að slík aðstaða hafi haft veiklandi áhrif á íslensku þjóðina, og hún hafi ekki orðið eins bjartsýn, framtakssöm og áræðin, og ef hún hefði alist upp í hlýjum og björtum húsakynnum.

Þetta er því fyrst og fremst mál húsfreyjanna og hins uppvaxandi æskulýðs, enda mun það sannast, að þær munu best kunna að meta það, að mál þetta er nú komið hjer á dagskrá. Þess er því meiri þörf, sem vinnukraftur er nú svo dýr orðinn, að húsfreyjur verða að neita sjer um nauðsynlega aðstoð í bæjunum við hin mörgu og erfiðu heimilisstörf.

Nú hagar víða svo til í sveitum, að rekinn er einyrkjabúskapur. Þar verður húsmóðirin ein að gæta bús og barna, án allrar aðstoðar. Við slíkt er ekki unandi; það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að sveitirnar tæmist og fólkið flykkist í kaupstaðina. Æskan hemst ekki í sveitunum. En verði frv. þetta að lögum, þá mundi bregða öðruvísi við, æskan yndi kyr í sveitunum, þær bygðust að nýju, ræktunin tæki stórstigum framförum. Notkun rafaflsins sparar vinnu að stórum mun; húsfreyjunni yrði ljettara að komast af án hjálpar, ef hún fengi raforku til ljóss og suðu.

Það virðist svo, sem hv. meiri hl. n. hafi ekki reiknað dæmið nema til hálfs. Þeir hafa ekkert tillit tekið til þess, hvað vinst við að taka rafaflið til notkunar. Þeir hafa reiknað það út í tölum, hvað það kosti, en ekki á það minst einu orði, hvað það færi í aðra hönd í sparnaði, vinnu, þægindum og aukinni ræktun. Fyrir þetta er mikið gefandi. Og jeg býst við og vonast eftir, að ekki líði á löngu, þar til svo fari með þetta mál sem fór með símann, að þó menn verði að gefa mikið fyrir það, þá verði þeir þó færri, sem vilja vera án þess. — Yfirleitt finst mjer hv. meiri hl. gera of mikla grýlu úr kostnaðinum, en taka of lítið tillit til hinna auknu þæginda, sparnaðar og heilbrigði, sem fæst í aðra hönd. Hv. meiri hl. heldur því fram, að allur vandinn væri leystur, ef ríkið tæki að sjer forgönguna og ræki öll orkuverin sjálft. Þessu er jeg ekki sammála. Jeg vil láta einstaklingsframtakið njóta sín á þessu sviði sem öðrum. En það er líka dálítið undarlegt, að hv. meiri hl. hefir valið sósíalista fyrir frsm. þessa máls. Jeg get vel skilið hans afstöðu til þessa máls, að hann er því mótfallinn. Hann er ekki að hugsa um sveitirnar, heldur sína liðsmenn í bæjunum. Mig undrar því, að sjá bændur fylgja sósíalistum í þessu máli, undrar á því, að þeir skuli ekki rjetta höndina í eigin barm og sjá nauðsyn þessara framkvæmda. Jeg verð því að segja, að þegar hv. 6. landsk. (JónJ) tók í sama streng, þá rak mig í rogastans. Jeg gerði ráð fyrir, að fáir yrðu þeir bændurnir í sveitum landsins, er ekki gleddust yfir þessu frv. Jeg get ekki nægilega lýst undrun minni yfir því, að bændur skuli gera sósíalistann að forystumanni sínum og fylgja slóð hans svo trúlega. Þeir verða að gæta þess, að með þessu frv., ef fram nær að ganga, verður tilraun gerð til að koma í veg fyrir það, að húsfreyjur þeirra slíti sjer út fyrir tímann með of miklu erfiði og innisetum, og skorti ljóss og hita. Sigur þessa máls er að mínu áliti sigur menningarinnar, sigur velmegunar og áframhaldandi ræktunar landsins. Þetta er mál æskulýðsins að því leyti, að þá verður hann alinn upp til meiri þroska en áður.

Hv. meiri hl. vill vísa máli þessu til stjórnarinnar. Jeg verð að segja, að í hann ber meira traust til stjórnarinnar nú en hann gerði fyrir skömmu, er rætt var um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Þá var ekki nærri því komandi, að vísa því til stjórnarinnar, þó sýnt væri með rökum fram á, að þess væri full þörf, þar sem málið var mjög ófullkomlega undirbúið samkv. játningu forsætisráðherrans sjálfs. Það kemur úr hörðustu átt, þegar bændur vilja tefja mál þetta og í leggja það svo í mjúka gröf.

Jeg verð því að segja, að jeg er í hæsta máta óánægður með þessa framkomu bænda gagnvart frv. þessu, og jeg get trúað, að þeir fái ekki þýðar þakkir hjá húsfreyjunum, þegar þeir koma heim. Jeg vona, að þeir kvenskörungar lifi enn í sveitum þessa lands, að þær gjaldi þeim mönnum, er leggjast móti þessu máli, þurra þökk. Væri nær, að þær afhentu bændum sínum búrlyklana, eins og sagt var um systur Þórðar kakala, og byðu sig fram til þings við næstu kosningar í stað bænda sinna, er leyfa sjer að

leggja á móti þessu máli, sem mikla þýðingu hefir fyrir alla, en mesta fyrir þær.