09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Páll Hermannsson:

Hv. 3. landsk. sagði í ræðu sinni í gær, að jeg hefði sagt, þá er þetta mál var hjer fyrst til 2. umr., að af ást á málinu vildi jeg stöðva það. Honum þótti þetta skrítið og vildi gera sjálfum sjer og öðrum gaman úr þessu. Það má vel vera, að jeg hafi komist þarna nokkuð klaufalega að orði, og það hefði máske verið betra að segja, að jeg vildi fara gætilega af umhyggju fyrir málefninu, eða eitthvað því líkt, en mjer virðist; nú raunar, að margt fleira broslegt hafi borið hjer á góma. T. d. þetta mikla skraf um þann mun, er menn hafa viljað gera milli þessara tveggja nefndarhluta. Hv. 3. landsk. (JÞ) telur þau atriði frv., er að rannsókn lúta, aðalatriðin. Meiri hl. fjhn. vill rannsókn og býðst til að ljá aðstoð sína til fjárframlags úr ríkissjóði, er verja megi til slíkrar rannsóknar, en þó er okkur brugðið um óvild til málsins og að við viljum bregða fyrir það fæti. Það er einnig annað atriði í þessu í máli, sem mjer virðist töluvert broslegt. Að því er jeg hygg kom það fyrst fram í ræðu hv. 5. landsk. (JKr). Það er hið mikla veður, sem gert er út af því, hver framsögu hafði á hendi fyrir meiri hl. nefndarinnar. Jeg fyrir mitt leyti get ekki sjeð, hvað er við það að athuga. Hjer flytja 3 landskjörnir þm. frv. Hinn 4. hefir framsögu fyrir hönd nefndar. Þarna sje jeg ekkert athugavert. Allir þm. eru þó — eða eiga að minsta kosti að vera — þingmenn þjóðarinnar, og þá ekki síst landskjörnir þingmenn. Hv. 4. landsk. (JBald) hefir líka oft sýnt það, að hann hefir litið á málefni sveitanna með engu minni sanngirni en hver annar þingmaður. Af því að hv. þm. mintist á þetta vildi jeg nefna annað atriði í þessu sambandi. Hv. 3. landsk. hefir í blaði sínu „Verði“, 16. tbl., gert þetta að umtalsefni og viljað sýna fram á, hvað það væri óviðeigandi, að láta hv. 4. landsk. fara með framsögu í máli þessu. (JÞ: Þvert á móti, jeg sagði einmitt, að þetta ætti svo vel við Framsóknarflokkinn). Já, en maður tekur það nú eins og það er talað. Að því leyti, er þetta snertir mig, veit hv. þm. að jeg átti dálitla sjerstöðu í fjhn., þar eð hún hafði þegar fjallað um málið, er jeg tók sæti í henni. Á þremur fyrstu fundunum hafði hún aðallega athugað það, og þá hafði rafmagnsstjóri verið kallaður þangað til þess að gefa allar nauðsynlegar upplýsingar. Á fyrsta fundi, er jeg sat, var málið rætt, og á 5. fundi var rætt um það með öðrum málum. Óskaði jeg eftir að fá málinu frestað til 6. fundar, en þá var ekkert gert í málinu annað en að kljúfa nefndina. Á þessu sjá hv. þdm., að þess var ekki að vænta, að jeg hefði á hendi framsögu fyrir hönd nefndarinar um málið, sem jeg hafði kynst svo miklu miður en aðrir nefndarmenn. Jeg kann ekki við, að út af þessu sje gert svona mikið veður í opinberu blaði. Það var ekki nema eðlilegt, að sá hv. þm., sem hafði átt sæti í nefndinni allan tímann, hefði á hendi framsöguna. Jeg tel víst, að hv. 3. landsk. hafi ekki með þessum ummælum sínum í „Verði“ verið að reyna að vekja tortrygni á mótstöðumanni, heldur sje um hitt að ræða, að hann taki ekki mína sjerstöðu til greina, eða þá, að hann hafi ekki veitt henni eftirtekt. Þá mun jeg víkja að málinu sjálfu, en þar er jeg og hv. 3. landsk. sammála í ýmsum atriðum. Í fyrsta lagi því, að stórar aflstöðvar þurfi að reisa, ef allir landsmenn eigi að geta átt kost á rafmagni framleiddu með vatnsafli. Á annan hátt verður þessu marki ekki náð. Vatnsorka, hentug til heimilisvirkjunar, er ekki fáanleg líkt því alstaðar á landinu. Stóru stöðvarnar eru því eina leiðin, þegar taka á tillit til allra. Í öðru lagi er jeg sammála hv. þm. um það, að ríkinu beri að sjá um rannsókn og undirbúning þessa máls. Í 3. lagi er jeg sammála hv. 3. landsk. um það, að ríkinu beri að styrkja framkvæmdir þessar, þegar byrjað er á þeim, og það einmitt á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, að ríkið eigi að jafna aðstöðumun, er fjarlægðir frá fallvatni valda. í 1. lagi er jeg samdóma hv. 3. landsk. um það, að ef leyst verði ljósa og suðuspurningin, þá sje aðalatriðið leyst. Þegar að herbergjahitun kemur, þá efast jeg um, að rafmagn standist samkepni við miðstöðvar, þar sem menn hafa yfir að ráða mótaki, og auk þess eitt af þrennu: skógvið, rekavið eða sæmilegri aðstöðu til flutnings kola. Þó veldur hjer nokkru um, hversu mikill verðmunur reynist á þeirri raforku, er fæst eftir að stöðvar hafa náð ákveðinni stærð og hinu, sem fyrst er notað, m. ö. o. hversu miklu síðari 10 hestöflin á heimili verða ódýrari en hin fyrri. í öllum þessum atriðum er um við sammála, en okkur greinir aftur á um annað. Hv. 3. landsk. gat þess, að jeg hefði sagt, að rafmagn til almenningsþarfa væri enn þá hillingar einar, og kvaðst hann líka hafa litið svo á í æsku sinni, en nú væri hann þeirrar skoðunar, að tími væri kominn til starfa. Jeg fyrir mitt leyti efast mjög um þetta, en vil þó hvorki sanna það nje afsanna. Til þess að sannfærast þarf jeg að fá rannsókn, og hana sem ítarlegasta. Mjer nægir ekki það eitt, að vita hvað ríkið eigi að leggja fram mikið fje, heldur vil jeg einnig ganga úr skugga um, hver kostnaðurinn verði á landsmenn, þegar rafmagn er komið til notkunar, og jeg vil sannfærast um það, að þjóðin geti risið undir þeirri byrði, er hún leggur á herðar sjer af þessum sökum. Jeg trúi því fyllilega, að að því dragi, að Íslendingar taki í sína þjónustu nægilegt fossaafl til heimilisnota á öllum heimilum landsins, en gætni mun engu spilla í þessum efnum fremur en öðrum.

Mjer er það ljóst, að það er fleira en þetta, sem kallar að í sveitunum. Mjer er ljóst, að það er jafnvel sumt, sem kallar að á undan þessu. Sveitirnar eru sumstaðar í skuldum, svo að þar má engu bæta við. Bústofninn er víða lítill og húsakynni ljeleg. Úr þessu gæti þurft að bæta áður. Hv. 3. landsk. sagði, að ekki þyrfti annað en að allir vildu leggja á sig hið sama og þeir hafa gert, sem bygt hafa einkastöðvar. Þetta er máske rjett að nokkru leyti, en það eru ekki allir, sem geta lagt þetta á sig. Aðstaða til virkjunar getur að vísu verið eins góð við garð fátæklingsins og þess, sem efnaðri er, en sú aðstaða verður tíðast að vera ónotuð. Bæði hefir verið erfitt að fá fje að láni til slíkra framkvæmda, en þótt slík lán hefðu fengist, hefði oft ekki verið hægt að bæta þeim ofan á aðrar skuldir. Meiri hluti þeirra manna, sem komið hafa upp einkastöðvum, eru efnamenn, þróttmeiri og framtakssamari en alment gerist, en þetta eru alt skilyrði, sem hafa áhrif á framkvæmdir manna.

Hv. 3. landsk. sagði, að ætlunin væri sú, að þessar stöðvar bæru sig. Jeg held að þær gerðu það að vissu leyti, en býst þó við, að þeim hlytu að fylgja aukin útgjöld frá því, sem nú á sjer stað. Því að jafnframt því, sem rafmagnið kemur í stað eldsneytis og ljósmetis og sparar vinnu við eldamensku og viðhald á ljósatækjum, hefir það líka í för með sjer aukin þægindi, sem leiða af sjer aukinn kostnað. Þessi auknu þægindi þurfa að verða eign sveitaheimilanna, og vona jeg að svo verði, en veit að víða brestur á, að slíkt geti orðið í nánustu framtíð.

Mjer finst, satt að segja, ekki bera mikið á milli nefndarhlutanna. Nefndin vill öll, að málið sje rannsakað, en minni hl. vill auk þess, að sett verði heildarlög um fjárframlög úr ríkissjóði. En það tel jeg óþarfa og óskynsamlegt, meðan ekki er fengin vissa fyrir, út í hvað er verið að ganga.

Hv. frsm. meiri hl. ljet á sjer skilja í gær, að Íhaldsflokkurinn bæri fram í pólitísku augnamiði umbótamál, sem honum væri engin alvara með. Hann hefir nú átt lengri sambúð en jeg við Íhaldsflokkinn hjer á þingi, og skal jeg ekki um segja, hvað hann hefir lært af þeirri reynslu. En mjer dettur ekki í hug að halda, að flokknum sje ekki alvara með þetta mál, enda teldi jeg annað meiri fúlmensku en jeg get ætlað nokkrum manni. En hitt finst mjer eðlilegt, að flokkur, sem er í minni hluta, líti bjartari augum á fjárhag og getu ríkissjóðs heldur en meiri hluta flokkur, sem ábyrgðina ber. Mjer fanst líka þessa verða vart í ræðu hæstv. dómsmrh. í gær. Mjer virtist sú ábyrgð, sem hvílir á meiri hlutanum, koma ljóst fram í ræðu hans, og því var hún kaldari útreikningur en venjulegt er um hans ræður, þegar um framfaramál, og þá ekki síst framfaramál á sviði landbúnaðarins er að ræða. Það var ljóst, að þetta stafaði aðeins af því, að hæstv. dómsmrh. fann glögt til þeirrar ábyrgðar, sem er því samfara að leiða þjóðina út í framkvæmdir svo stórskornar, sem hjer ræðir um, þar sem veltur á mörgum tugum miljóna, eða jafnvel hundraði, þá er landið alt er haft í huga.

Jeg skal geta þess, að jeg hefði getað haft tilhneigingu til að láta þetta mál fara til Nd. til að vita, hvað sú hv. deild segði, enda þótt jeg kjósi ekki að það verði að lögum. En jeg tel það ekki forsvaranlegt að greiða atkvæði þannig að treysta þurfi því, að aðrir menn geri rjett, eftir að hafa sjálfur látið þið rjetta ógert.

Jeg mun einnig greiða atkvæði á móti hinni rökstuddu dagskrá, sem fram er komin, af því að mjer finst hún ganga alt of skamt.