23.04.1929
Neðri deild: 52. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (2648)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Pjetur Ottesen:

Það hefir farið svo, að þetta mál hefir tekið miklum breytingum í hv. sjútvn. frá því, sem upphaflega var til ætlast af flm. frv. Meiningin með flutningi þessa frv. var sú, að efla Fiskiveiðasjóðinn, svo að hann gæti betur int af hendi það hlutverk sitt, að veita mönnum lán til bátakaupa og að bæta aðstöðu manna í landi til þess að vinna úr fiski og fiskúrgangi og að koma upp íshúsum. Þetta átti að vera höfuðverkefni sjóðsins samkv. frv. eins og það var flutt upphaflega, og var það annar liðurinn í viðleitni Íhaldsflokksins til þess að bæta úr lánsþörf bátaútvegsmanna. Hinn liðurinn var sá, eins og hjer hefir verið minst á í öðru sambandi, að veita bátaútvegsmönnum rekstrarlán, sbr. rekstrarlánafrv. það, sem borið var fram að tilhlutun Íhaldsflokksins á síðasta þingi.

En eins og hv. frsm. sjútvn. hefir skýrt frá, hefir frv. verið gerbreytt þannig, að nú er Fiskiveiðasjóðnum ætlað að vinna það tvöfalda hlutverk: í fyrsta lagi að lána til bátakaupa og til þess að koma upp verksmiðjum til að vinna úr fiskúrgangi og til þess að koma upp íshúsum. Í öðru lagi á sjóðurinn að taka að sjer rekstrarlánastarfsemina. Í þessu augnamiði er sjóðnum ætlað ákveðið fjármagn til þess að starfa með. Árlegt fjárframlag úr ríkissjóði er nú hækkað til fasteignaveðlánastarfseminnar úr 6 þús. kr. upp í 60 þús. kr. á ári í 10 ár, en 30 þús. kr. á ári úr því. En til rekstrarlánastarfseminnar á ríkissjóður að leggja fram ½ miljón króna.

Þó að þessi aukning á sjóðnum nái harla skamt á leið til þess að mæta lánsþörf bátaútvegsmanna eins og nú er komið, og þó að þetta fjármagn, sem hjer er um að ræða, sje ekki nema lítill hluti þess fjármagns útvegsmönnum til handa, sem gert var ráð fyrir í tillögum þeim, sem bornar hafa verið fram í þessu skyni af hálfu Íhaldsmanna, þá ber þó að viðurkenna það, að þetta er þó nokkur bót frá því, sem nú er, fyrir þá, sem annars hafa aðstöðu til þess að nota sjer þessi lán, en sú tilhögun er á lánum þessum samkv. tillögum sjútvn. að þeir, sem eru á afskektum stöðum, hafa mjög erfiða aðstöðu til þess að notfæra sjer þessi lán, einkum rekstrarlánin, en þó mundi till. meiri hl. n. um það, að láta Landbúnaðarbankann, þegar hann er kominn á fót, eða rekstrarlánadeildir hans, hafa á hendi útlánin, bæta þar nokkuð úr, ef samþ. yrði.

Eins og menn rekur minni til, urðu allsnörp átök um það hjer í deildinni fyrir skömmu, hvort veita skyldi bátaútvegsmönnum rekstrarlán úr Landbúnaðarbankanum í fjelagi með landbændum, en þeim viðskiftum lauk þannig, að þeir, sem andstæðir voru þeirri tvímælalaust heppilegu ráðstöfun, báru hærri hlut, svo að þær tillögur voru feldar. Það er þess vegna alveg sýnt, að þess verður ekki auðið á þessu þingi að komast lengra áleiðis til þess að bæta úr lánsþörf bátaútvegsmanna, og þó að hjer sje um tiltölulega litla úrlausn að ræða, þá er hjer þó lagður grundvöllur, sem hægt verður að byggja á framtíðarlánsstofnun fyrir bátaútveginn, og má um þetta segja, að mjór er mikils vísir og að hálfnað er verk þá hafið er.

Með tilliti til þessa er það mín skoðun, að tvímælalaust beri að samþykkja þessar tillögur. Með þeim, eða samþykt þeirra, er málinu bæði beint og óbeint töluvert þokað áleiðis.

Minni hl. sjútvn., hv. 1. þm. Reykv., hefir borið fram rökstudda dagskrá um að vísa málinu til stjórnarinnar til frekari undirbúnings. Þykir honum hjer um svo þýðingarlitlar umbætur að ræða, að hann vill ekki samþ. þær þess vegna. En öll framkoma þessa hv. þm. og hinna sósíalistanna hjer í deildinni, bendir ekki til þess, að þeim sje mjög umhugað um það, að greiða úr fyrir bátaútvegsmönnum á þessu sviði, þó að þeir tali fagurlega um þessi mál. Þegar um það var að ræða nú fyrir skömmu hjer í deildinni, hvort bátaútvegsmenn ættu að eiga þess kost að fá aðgang að rekstrarlánum úr Landbúnaðarbankanum í fjelagi við landbændur, þá voru þeir fremstir í flokki með að drepa þær tillögur, og lögðu þannig sitt lóð í skálina til að loka þeim möguleika fyrir bátaútvegsmönnum. Nú leggja þeir til, að koma þeirri úrbót, sem felst í þessu frv., einnig fyrir kattarnef. Og alt er þetta gert með því yfirskyni, að þeir vilji annað og meira. Vitna þeir nú óspart í orð, sem hæstv. atvmrh. ljet falla um það, þegar hann var að berjast á móti því, að bátaútvegsmenn fengju rekstrarlán úr Landbúnaðarbankanum, að hann mundi þess ekki ófús að undirbúa fyrir næsta þing frv. um lánsstofnun fyrir bátaútveginn. En jeg verð að segja það fyrir mitt leyti, að það bendir sannarlega ekki á mikinn áhuga eða einlægan vilja til að greiða úr lánsþörf bátaútvegsmanna, að vilja nú í skjóli þessara losaralegu ummæla hæstv. atvmrh. varpa fyrir borð öllum þeim tillögum, sem komið hafa fram á þessu þingi til þess að bæta úr þessari brýnu þörf, þó að með þeim sje sporið ekki stigið til fulls.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, en treysti því, að Alþingi samþykki þó nú að þessu sinni þennan vísi til úrlausnar á lánsþörf bátaútvegsmanna í trausti þess, að upp af þessum stofni vaxi lánsstofnun, sem áður en langt um líður verði þess megnug, að fullnægja lánsþörf bátaútvegsins í landinu og stuðla að eðlilegri þróun hans.