07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í C-deild Alþingistíðinda. (2659)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Þetta mál hefir fengið ómaklega meðferð frá hálfu fulltrúa verkalýðsins hjer í þessari hv. deild. Það er undarlegt, hvað hv. frsm. minni hl. hefir lagt málið í einelti. Hann er fjórum sinnum búinn að halda hjer sömu ræðuna við þessa umr. málsins, og hefir hún verið hrakin í hvert skifti. Nú er búið að þvæla þetta mál á þremur fundum hjer í deildinni og tefja framgang þess. Og þegar slík mótspyrna kemur frá þeim, sem telja sig fulltrúa smærri útgerðarmanna og verkamanna, þá má segja, að sá heggur, sem hlífa skyldi.

Þær bætur á lánakjörum, sem í frv. felast, eru einmitt fyrir þá landsmenn, sem reka smábátaútveg og eiga oftast engan kost á lánsfje annarstaðar án afarkosta. Sú viðbára, að þessi úrlausn sje svo lítilfjörleg, að ekki taki því að samþykkja hana, er einskis virði. Efling sjóðsins eftir frv. er ferföldun stofnlána, auk ½ miljónar kr. til rekstrarlána, sem engin hafa verið hjá sjóðnum til þessa. Þetta er að vísu lítið, borið saman við þá þörf, sem fyrir er, en allur fjöldinn af hinum betur stæðari útgerðarmönnum hefir viðskifti við bankana áfram, eins og að undanförnu, og greiðir þá sjóðurinn fyrir þeim, sem eru minnimáttar í fyrst og fremst, eins og vera ber. — Jeg tel það heppilegra að fara hægt á stað og leita lags um að bæta og efla þessa stofnun smátt og smátt, heldur en að gera þegar í upphafi þær kröfur, sem ekki eru líkur til að hægt sje að fullnægja, eða verði samþyktar.

Jeg vil ekki taka hjer upp alt það, sem sagt hefir verið af andmælendum þessa máls, enda hefi jeg ekki verið við allar umræðurnar um það. En jeg verð að segja það, að framkoma verkalýðsforingjanna, og þá sjerstaklega hv. frsm. (SÁÓ), er mjer óskiljanleg. Virðist helst sem hann og flokksbræður hans sjái hilla undir það með þessu frv., verði það að lögum, að þeim mönnnum fækki, sem vegna atvinnuerfiðleika og lánsfjárskorts verða að hverfa inn undir verndarvæng forsprakka og leiðtoga verkalýðsins, niður í hvirfingu öreigalýðs. Jeg get ekki skilið þá öðruvísi, en að þeir óttist, að verkalýðsfjelagsskapurinn þynnist, ef einstaklingarnir fá aðstoð til þess að verða sjálfstæðir atvinnurekendur og útvegsmenn með tilstyrk þessa fiskiveiðasjóðs.

Jeg skal svo ekki lengja umræðurnar meira. Það er hv. minni hl. að kenna, hvernig þetta mál hefir verið þvælt og dregið á langinn um skör fram.