11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í C-deild Alþingistíðinda. (2671)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Jón Baldvinsson:

Hv. síðasti ræðumaður játaði, að það væri að vísu rjett að setja kauptryggingu handa sjómönnum, til þess að þeir skyldu ekki verða af launum þeim, sem þeir hefðu unnið fyrir, en hann vill, að sjóveð í bátum verði undanskilið, og að hásetar fái tryggingu í afla. Jeg vil nú benda honum á, að það er síst betri leið, og hún er ótryggileg fyrir sjómenn og getur aukið erfiðleika bátaeigenda. Það er algengt nú orðið, að útvegsmenn veðsetja væntanlegan afla, til þess að fá lán handa útveginum, og eins er það með síldina, að hún er oft seld fyrirfram, og sjómenn eru því mjög illa settir með að fá kaup sitt greitt, ef á bjátar, þar sem þeir í slíkum tilfellum geta ekki trygt sjer kaup sitt í afla. Til þess að hægt verði að koma þessu á, þyrfti gagngerða breytingu, og mín skoðun er sú, að það fyrirkomulag, sem verið hefir, sje í alla staði hentugra útvegsmönnum, enda ber þess að gæta, að sjóveðrjettur getur staðið fyrir fleira en kaupi. Hitt álít jeg ósanngjarnt, að útgerðarmaður, sem ekki vill ráða háseta sína upp á hlut, heldur gegn ákveðnu kaupi, geti svo neitað að borga verkalaun, en greiði andvirði aflans upp í aðrar skuldir svo sem dæmi eru til. Það er líka vitanlegt, að þegar svo ber undir, verða sjómenn að leita rjettar síns til dómstólanna, en þeir hafa ekki tök á því að hleypa málum sínum þangað, sjerstaklega ef þeir ættu það á hættu, að þau færu fyrir Hæstarjett, því að það er ekki fyrir nema ríka menn að greiða þann kostnað, sem af því leiðir. Hver málaflutningsmaður myndi þó taka málið að sjer, ef sjóveð væri fyrir hendi, en jeg býst við, að þeir myndu ógjarnan vilja eyða tíma sínum í vafasöm mál, það er að segja, þegar engar tryggingar væri að hafa til skuldalúkningar. Það kann vel að vera rjett hjá hv. þm., að sjómenn eigi að vera upp á hlut, en það mun vera samkvæmt samkomulagi aðilja, hvort sjómenn eru upp á kaup eða hlut, enda munu margir útgerðarmenn kjósa frekar að greiða kaup, í þeirri von, að báturinn fiski svo mikið, að það borgi sig betur fyrir þá. Það sem hingað til hefir verið ein stærsta meinsemdin í þessum mótorbátaútvegi, er það, hvað bátarnir flestir hafa verið illa hirtir, svo að þeir hafa fljótt orðið ónýtir, og í því liggur nokkuð af því tapi, sem útvegsmenn hafa orðið fyrir, og þau fjárhagsvandræði, sem smávjelbátaútvegurinn hefir átt við að stríða. Hv. þm. sagði, að bátar væru í rauninni ekki veðhæfir, en hann gáir ekki að því, að þeir eru veð fyrir talsverðum hluta af rekstrinum, fyrir mannakaupinu. Því eru menn öruggari að ráða sig á skipin, að þeir vita, að þeir hafa tryggingu fyrir kaupi sínu. Það sjá allir, að engin sanngirni mælir með því, að útvegsmaður, sem á bát, sem á eru 5 menn, taki lán út á hann í bankanum eða Fiskiveiðasjóði, en segi svo við mennina: „Kaup ykkar getið þið ekki fengið, þið megið ganga að mjer, ef þið viljið, því að jeg á ekkert til.“ Þetta hefir komið fyrir, en mest hefir þess gætt við síldarútveginn.