19.03.1929
Neðri deild: 26. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í C-deild Alþingistíðinda. (2777)

6. mál, hveraorka

Sveinn Ólafsson:

Það væri synd að segja, að hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. Mýr. hafi tekið með silkiglófum á þessu frv., enda er því í ýmsu ábótavant. Það verður tæplega hrakið, að á frv. eru ýmsir ekki óverulegir agnúar, sjerstaklega á 12. gr. Jeg get líka fallist á, að 1. gr. frv. hafi orðið fyrir skemdum í meðferð Ed. En út af því, sem fundið hefir verið að 12. gr. skal jeg geta þess, að greinin virðist of einhliða miðuð við námalögin, eða einstök ákvæði þeirra, þau sem gilda um leit eftir málmum. Mjer virðist ekki eiga vel við að láta samskonar ákvæði gilda um leit eftir jarðhita og leit eftir málmum. Hv. þm. Mýr. taldi, að með ákvæðum þessa frv. væri stefnt að því, að taka rjett af landeigendum til hagnýtingar og ráðstöfunar fyrir braskaralýð. Þetta er að vissu leyti rjett, því að eftir námalögunum eiga landeigendur rjett til allra þeirra málma, sem finnast í þeirra landareignum, hvort heldur nær yfirborði eða djúpt í jörðu, og þar kemur einmitt fram ósamræmið við frv. Jeg legg þann skilning í þessi mál, og hefi ætíð gert, að landareign hverri fylgi rjettur til allra gagna og gæða, sem finnast innan takmarka hennar, hvort sem þau eru í jörðu eða á, og hve djúpt sem þau kunna að felast niður í jörðinni. Þessi meginregla er viðurkend í námalögunum. Að öðru leyti er þetta frv. bygt á ákvæðum vatnalaganna frá 1923. Þó hefi jeg veitt því eftirtekt, að samkvæmt þessu frv. getur borun eftir jarðhita farið fram svo nærri landamerkjum, að röskun hafi í för með sjer fyrir heitar uppsprettur næsta landeiganda. En við hliðstæðum spjöllum er sjeð í vatnalögunum, því að þar er varnaður boðinn á að grafa brunna eða búa til vatnsból, ef sýnt þykir, að þau taki vatn frá nágrönnunum. Svipuð ákvæði virðist mjer að hefði átt að setja í þetta frv., til leiðbeiningar og varnaðar gegn landspjöllum. Jeg get tekið undir það, að lög um þetta efni þurfi að setja, og að þeirri lagasetningu megi ekki fresta, en með allri varúð verður að gera hana. Sömuleiðis er jeg samþykkur því, að til þess að þetta frv. verði aðgengilegt, þurfi að lagfæra 1. gr., og auk þess að steypa 12. gr. upp í alt öðru formi. Ennfremur eru mörg ákvæði frv. mjög hæpin, svo sem niðurlag 6. gr. Það er mikið álitamál, hvort þau ákvæði geta staðist. Þar er sem sje lögð sú kvöð á landeiganda, að greiða fráfarandi ábúanda endurgjald fyrir þann kostnað, sem hann hefir lagt í við hagnýtingu jarðhita á leigujörð sinni, og virðist sú gjaldskylda harla óeðlileg, ef hagnýtingin hefir lítil orðið, í hlutfalli við kostnað, eða engin.

Af því að þetta er 1. umr., vil jeg ekki eyða meiri tíma í að tala um málið. Það fer að sjálfsögðu til nefndar, til rækilegrar athugunar. Þarf sú nefnd að gera mikla breytingu á frv., svo að það verði aðgengilegt og hæft til samþykkis.