19.03.1929
Neðri deild: 26. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í C-deild Alþingistíðinda. (2780)

6. mál, hveraorka

Magnús Guðmundsson:

Mjer skilst, að hjer sje aðallega rætt um tvö ákvæði þessa frv., sem sje ákvæði 1. og 12. greina þess. Heyrist mjer á sumum, að breyting sú, sem gerð var á 1. gr. frv. í Ed., eigi að vera mjög svo mikilsverð. Fæ jeg ekki skilið, að svo geti verið, þó að þetta eina orð, „jarðhiti“, sje felt burtu. Það orð er innan sviga, og einungis sett til skýringar við orðið laug, og skiftir því ekki miklu máli, og getur þetta ekki talist nein veruleg breyting. Aðalatriðið eru ákvæði 12. greinar. Furðaði mig stórlega á því, að hæstv. forsrh. vildi kenna formanni íhaldsflokksins um þau, þar sem þau eru nú svo að segja alveg ómenguð eins og þau komu frá hendi hæstv. forsrh. sjálfs í stjfrv. Hefði hann því fremur átt að sjá bjálkann í sínu eigin auga heldur en flísina í auga formanns íhaldsflokksins. Þessi grein er það, sem aðallega er fundið að, og hún er talin sá stóri galli á frv. Það var einu sinni talað mikið um vatnsrán hjer í þessari hv. deild, en nú er það hverarán, sem hjer er rætt um, og borið fram af hæstv. forsrh. sjálfum. 12. greinin er runnin frá honum, og hún sviftir eigendurna svo gersamlega öllum rjetti, að það er ekki hægt að gera það öllu rækilegar. Þessi grein varð þess valdandi, að hv. allshn. taldi ekki rjett að afgreiða málið á þinginu í fyrra, og býst jeg við, að það komi á daginn núna, að nefndin finni ástæðu til þess að taka þessa sömu grein til rækilegrar athugunar. Vil jeg leiða athygli hæstv. forsrh. að því, að honum ferst ekki að kenna öðrum mönnum um galla á stjórnarfrv., þegar þeir eru eingöngu honum sjálfum að kenna. Auk þess finst mjer mjög óviðkunnanlegt af honum, að vera að hallmæla þeim mönnum, sem ekki eiga sæti í þessari hv. deild, og hafa því ekki tækifæri til þess að taka til máls og bera hönd fyrir höfuð sjer.