05.04.1929
Efri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í C-deild Alþingistíðinda. (2815)

26. mál, kvikmyndir og kvikmyndahús

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi samið ítarlegt nál. um þetta mál, og þar gert grein fyrir skoðunum mínum á því. Vona jeg, að hv. þdm. hafi kynt sjer nál., eða muni gera það, svo að jeg get sparað mjer að nokkrum mun að taka það sama fram hjer og í nál. mínu stendur.

Hv. frsm. meiri hl. (JónJ) taldi mjög mikla nauðsyn á myndskoðun og því mikla ástæðu til að setja 1. um þetta efni. Jeg hefi leitt rök að því í nál. mínu, að sú tilhögun um myndskoðun, sem frv. gerir ráð fyrir, er bæði verri og ótryggari en sú tilhögun, sem nú er. Það er ekki rjett, eins og gert er ráð fyrir í frv., að heimila að flytja inn óskoðaðar myndir og eiga undir því, hvort þær standast skoðun einhverra tveggja manna einhversstaðar á landinu, þar sem myndir eru sýndar. Ef myndir standast skoðun einhversstaðar, má sýna þær hvar sem er á landinu. Er þetta miklu ótryggara en í nokkru landi öðru. Lögreglustjórar geta heimtað, og gera það líka, að aðrar myndir sjeu ekki fluttar hingað en frá þeim löndum, sem telja má að hafi fullkomna myndskoðun, auk þess sem þeir hafa rjett til að skoða myndir og banna, ef þeim virðist þær óviðeigandi á einhvern hátt.

Þessi misskilningur stj. og meiri hl. stafar af því, að hvorki þeir, sem frv. hafa samið, nje hv. meiri hl., hafa gert sjer grein fyrir því, hver ákvæði gilda nú í þessu efni. Í athugasemdunum við frv. segir svo, að engin lagaákvæði sjeu til hjer á landi um þetta efni, og hv. meiri hl. tekur þetta upp í nál. sitt. Jeg hefi, til að leiðrjetta þetta, látið prenta upp í nál. mínu þau ákvæði um þetta efni, sem til eru og er að finna í gildandi lögreglusamþyktum. Það er eins mikilsvert að þessi ákvæði sjeu þar og í 1., því að lögreglusamþyktirnar hafa fult lagagildi, eins og t. d. sjest á því, að það má dæma menn til refsingar fyrir brot á þeim.

Jeg geri ekki mikið úr því, að kvikmyndasýningarnar örvi krakka til glæpa. Hv. frsm. meiri hl. vísaði í því sambandi í rit eftir Helga Hjörvar, en bann segir frá því, sem fram hefir komið fyrir lögreglurjetti hjer í Reykjavík, en tók það rjettilega fram, að krakkarnir hefðu borið bíóin við í blóra, til að afsaka sjálf sig. Og jeg er hræddur um, að það mætti lengi halda áfram að banna, ef taka ætti fyrir það, að unglingar legðu út á óheppilegar brautir og tækju upp á óknyttum, sem stríða á móti lögunum. Það er auðvitað rjett að vera vandlátur um kvikmyndir, sjerstaklega þær, sem sýndar eru börnum, en jeg álít, að núverandi fyrirkomulag sje betra en það, sem frv. gerir ráð fyrir.

Hv. frsm. meiri hl. mintist á hagsmuni þjóðleikhússins. Það er upplýst í nál. mínu, í brjefi því, sem þar er birt frá borgarstjóranum í Reykjavík, að bæjarstjórnin hjer hefir ekki viljað veita fleiri sýningarleyfi en þegar eru veitt, vegna hagsmuna þjóðleikhússins. Og jeg er ekki í vafa um það, að það er farið af stað með þessa löggjöf, af því að Alþýðuflokkurinn hjer í Reykjavík telur ekki nógar líkur fyrir, að hann fái að sýna kvikmyndir í því húsi, sem hann ætlar að byggja, og það er af þeirri ástæðu, að Jafnaðarmennirnir vilja veita vini sínum, hæstv. dómsmrh. rjett til að gefa sýningarleyfi og veita gjaldfrelsi í þessum efnum. Meiri hl. hefir ekki getað fallist á, að rjett væri að veita undanþágu um gjaldfrelsi, þar sem önnur kvikmyndahús væru fyrir, og yfirleitt verð jeg að segja það, að jeg tel brtt. meiri hl. viðvíkjandi leyfisbrjefaspjöldunum til bóta. Jeg hefi leitt rök að því í nál. mínu, að skattgjöld þau, sem stungið er upp á í frv., eru ekki nálægt því, sem á sjer stað, að minsta kosti í Danmörku og Svíþjóð, svo að það hlýtur að vera misskilningur, þegar höf. frv. talar um, að það sje sniðið eftir löggjöf um þessi efni á Norðurlöndum, og sjerstaklega í Danmörku. Í frv. er farið fram á að leggja hærri skatt á kvikmyndahúsin en gert er bæði í Danmörku og Svíþjóð. Í Svíþjóð eru kvikmyndahúsin með öllu jafnsett öðrum borgurum, hvað snertir skattgjöld, og verða að borga skemtanaskatt eins og önnur fyrirtæki, sem eru til að skemta fólki. Í Danmörku greiða þau leyfisgjöld fyrir hvert ár, og er gjaldstiganum þannig hagað, að ekkert kvikmyndahús þar er fyllilega samsvarandi kvikmyndahúsunum hjer að því, er snertir sýningafjölda og sætaverð. Ef reiknað er eftir sömu grundvallarreglu og í Danmörku, ætti árgjaldið af hvoru bíóinu að vera um 1000 kr., eða lítið eitt meira en þau greiða nú í bæjarsjóð. Samkvæmt ákvæðum lögreglusamþyktarinnar er sýningargjaldið 2 kr. fyrir hverja sýningu, eða yfir árið alls 750 kr., en sýningum hefir fjölgað svo, að þetta ætti nú að vera 900 kr. á ári. Þetta sýningargjald er sett svo, að það gerir nálægt því að samsvara því, sem greitt er í Danmörku árlega fyrir leyfi, en sá skattur, sem frv. fer fram á, er langt fyrir utan og ofan þetta, og þýðir í reyndinni ekki annað fyrir bæjarfjelagið hjer en að kvikmyndahúsin verða ekki fær um að greiða sveitarútsvar, nema þeim vaxi tekjur, en það verður ekki á annan veg en með hækkuðum aðgöngumiðum, ekki síst ef fara á að fjölga bíóunum, eins og jeg þykist vita að tilgangurinn sje með þessu frv.

Hv. frsm. meiri hl. sagðist hafa búist við því, að jeg gæti aðhylst frv. í einhverri mynd, og kvaðst hafa rjett til að draga það af þeim ummælum mínum, að jeg gæti fallist á, að einhver lög væru sett um þetta efni. En því betur sem jeg hefi kynt mjer tilhögun þessara mála á Norðurlöndum, því ríkari hefir sú sannfæring orðið hjá mjer, að þessu sje hagkvæmast fyrir komið hjá Svíum, en þar eru kvikmyndasýningar frjáls atvinnuvegur. Þó verður að fá leyfi hjá lögreglustjóra til sýninga, en það er tekið fram, að honum beri að veita slíkt leyfi, ef engar sjerstakar ástæður eru á móti. Það er viðurkent, að þetta hefir gefist best um alla kvikmyndastarfsemi, og ef fara ætti að gera breytingar hjer, t. d. hvað snertir leyfisveitingavaldið, myndi jeg hallast að því, að farin yrði sama braut og hjá Svíum. Þau ákvæði, sem hjer gilda nú, eru líkari því, sem er hjá Svíum en Dönum og Norðmönnum, en þó er það eitt atriði, sem skilur á milli, og það er það, að hjer er bæjar- og sveitarstjórnum veittur hindrunarrjettur, þannig að lögreglustjóri má ekki veita sýningarleyfi, nema samþykki þeirra komi til. Jeg gæti tekið það til vingjarnlegrar yfirvegunar, að nema þetta ákvæði burt, en jeg sje fram á það, að ef afráðið væri að fylgja þessum grundvelli, þyrfti að semja nýtt frv., en jeg fann mjer ekki skylt að leggja út í það, þar sem jeg er ánægður með leyfisveitingarjettinn, eins og hann nú er, þó að jeg gæti til samkomulags gengið inn á, að gera hann jafn frjálsan og hjá Svíum. Þessi er ástæðan til þess, að jeg fjell frá því að koma með brtt., enda þykist jeg vita, að hjer sje um flokkshagsmuni Alþýðuflokksins að ræða, en það er svo skipað hjer í hv. deild, að ekkert verður samþ., sem fer í bága við þá flokkshagsmuni.