25.02.1929
Neðri deild: 7. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í C-deild Alþingistíðinda. (2876)

29. mál, alþýðufræðsla á Ísafirði

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Jeg ætla, að ekki þurfi að flytja langt mál til þess að skýra hv. þdm. frá því, hversu þýðingarmikið er, að leggja svo ríflega til alþýðufræðslunnar í landinu, að það komi að fullu haldi. Þingið hefir sýnt greinilega, að það viðurkennir, að þetta sje rjett og sjálfsagt. Það er vart hægt að verja fje ríkissjóðs betur á annan hátt en þann, að manna þjóðina og búa hvern einstakling hennar sem best undir lífsstörf sín. Þó verður ekki sagt, að Alþingi hafi í þessu efni gengið framar en vænta mátti. Jeg og aðrir þdm. hafa tekið eftir því, þegar hæstv. fjmrh. (TrÞ) flutti fjárlagaræðu sína um daginn, að framlag ríkissjóðs til fræðslumálanna hefir lækkað hlutfallslega við önnur útgjöld ríkissjóðs og það að miklum mun, frá því að Ísland fyrst fjekk sjálfsforræði.

Á síðari árum hefir þó allmikið verið gert til þess að efla alþýðufræðsluna á ýmsum stöðum í landinu. Til hjeraðsskóla Þingeyjarsýslu hefir eftir atvikum verið lagt æði mikið fje. Þá var í sumar reist byrjun að skólanum að Laugarvatni, og í fyrra voru samþ. lög um bráðabirgða-ungmennafræðslu í Reykjavík. En það er undarlegt, að einmitt sá landshlutinn, sem til þessa hefir orðið mest útundan um alþýðufræðslu, Vestfirðingafjórðungur, hefir enga uppbót fengið í þessu efni á síðustu árum. Ísafjarðarkaupstaður hefir af eigin rammleik haldið uppi ungmennaskóla í 25 ár. Það hefir verið farið fram á, að sá skóli yrði gerður að gagnfræðaskóla, svipuðum gagnfræðaskóla Akureyrar til þessa, en því hefir ekki fengist framgengt. Ísafjarðarkaupstaður hefir haldið uppi skólanum, með mjög litlum styrk úr ríkissjóði, en samtímis því hefir ríkið haldið uppi dýrum Akureyrarskóla og mjög dýrum Austurlandsskóla, þegar tekið er tillit til nemendafjölda. Jeg get nefnt nokkrar tölur til samanburðar. Þær eru að vísu nokkuð gamlar, frá árinu 1924–25, en þó hygg jeg, að þær sjeu enn mjög nærri sanni, í öllu falli síst of háar.

Til Akureyrarskólans hafa verið lagðar 504 krónur á hvern nemanda.

Til Eiðaskólans hafa verið lagðar 605 krónur á hvern nemanda.

Til Flensborgarskólans hafa verið lagðar 258 krónur á hvern nemanda.

Til Ísafjarðarskólans hafa verið lagðar 40 krónur á hvern nemanda.

Þetta er ekki alveg rjettur samanburður, af því að skólatíminn við Ísafjarðarskóla er lítið eitt styttri en við Akureyrarskóla, en sá sami og við Flensborgar- og Eiðaskóla. Rjettara er að bera saman, hvað styrkurinn hefir numið á nemanda, t. d. á viku. Þá verður útkoman þessi:

Við Akureyrarskóla ..... kr. 14,40

— Eiðaskóla — 20,86

— Flensborgarskóla ..... — 9,92

— Ísafjarðarskóla .... — 2,06

Menn skyldu ætla, að þar sem það er vitanlegt, að núverandi kenslumálaráðherra er sjerstakur áhugamaður um skólamál, og auk þess víðsýnn maður og glöggskygn á marga hluti, hefði hann þegar komið auga á það misrjetti, sem Vestfirðingafjórðungur hefir orðið fyrir í þessu máli. En jeg verð að harma það, að hæstv. ráðherra virðist ekki hafa sjeð þetta enn, því að í fjárlagafrv. stjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir, að bætt verði úr þessu misrjetti.

Til Akureyrarskólans var veitt árið 1928 kr. 53120

Til sama skóla árið 1929 ..... — 59300

Til Eiðaskólans var veitt árið 1928 — 22120

Til sama skóla árið 1929 .... — 19000

Til Flensborgarskólans var veitt

árið 1928 — 14000

Til sama skóla árið 1929 .. — 16000

Til ísafjarðarskólans var

veitt árið 1928 — 4000

Til sama skóla árið 1929 .. — 6000

Í fjárlagafrv. stjórnarinnar fyrir 1930 er gert ráð fyrir 60 þús. kr. fjárveitingu til Akureyrarskóla og um 24 þús. kr. til Eiðaskóla. Ísafjarðarskóli virðist eiga að hafa óbreyttan styrk, svo og Flensborgarskóli.

Ísafjarðarskólinn fær því tæplega 1/10 af því, sem Akureyrarskólinn fær, af því, sem Austurlandsskólinn fær og 3/8 af því, sem Flensborgarskólinn fær. Sá skóli er þó undir handarjaðrinum á Reykjavík. Menn hljóta að sjá, að hjer er framið óafsakanlegt ranglæti og því meira, þegar þess er gætt, hve mikið Ísafjörður hefir sjálfur lagt af mörkum til þess að geta haldið uppi skólanum. Hafnfirðingar eða Gullbringu- og Kjósarsýsla leggja ekkert til Flensborgarskólans. Þrátt fyrir lítinn styrk hefir Ísafjarðarskólinn stækkað ár frá ári. Nú er hann í tveim deildum og nemendur eru um 60, og mundu áreiðanlega vera fleiri, ef húsrúm og fjárhagur leyfði. Kenslukraftar eru mjög góðir og skólinn nýtur hvarvetna hins besta álits.

Hæstv. kenslumálaráðherra hefir lagt fyrir þessa hv. d. frv. um hjeraðsskóla, og er ekki nema gott um það að segja. Þó að jeg hafi ekki kynt mjer til hlítar einstakar greinar þess, býst jeg við, að jeg verði því fylgjandi í aðalatriðum. En jeg verð að segja, að mig furðar það stórum, að hæstv. ráðherra skuli ekki enn hafa sjeð hina brýnu nauðsyn Vestfirðingafjórðungs á bættri ungmennafræðslu.

Með lögunum í fyrra um ungmennaskóla í Reykjavík skildist mjer, að tekið væri upp skipulag, sem ætti að gilda í kaupstöðum landsins. Þar voru ákveðin framlög kaupstaðanna og ríkissjóðs til skólanna. Bæði í fyrra og hittiðfyrra var borið fram frv. um gagnfræðaskóla á Ísafirði, en náði ekki fram að ganga. Hefi jeg því ekki ráðist í að flytja það enn, leggja það einu sinni enn undir hnífinn hjer í hv. deild. Frv., sem jeg nú flyt, er að mestu sniðið eftir lögunum um bráðabirgða-ungmennafræðslu í Reykjavík, þó með þeim mun, að í frv. er gert ráð fyrir þremur deildum, en ekki tveimur. Reynslan sýnir, að það er óumflýjanlegt. Afleiðingin er sú, að það þurfa að vera þrír fastir kennarar, í stað tveggja hjer. Námsgreinar eru hinar sömu og kendar eru í ungmennaskólanum hjer, auk alþjóðamálsins esperantó, sem sjálfsagt er að taka upp, — jeg vil segja við alla alþýðuskóla á landinu.

En eitt er dálítið nýmæli við þetta frv. Það er, að í sambandi við skólann sje rekinn kvöldskóli. Þeim kvöldskóla eru ætluð þrenns konar verkefni. Í fyrsta lagi að veita fræðslu þeim mönnum, sem gjarnan vilja afla sjer almennrar fræðslu, án þess að fella niður atvinnu sína og stunda reglulega skólagöngu. Í öðru lagi að veita þá fræðslu, sem samkvæmt lögum um iðnir og iðnnám er gert ráð fyrir að láta iðnnemum í tje. Kvöldskólinn kæmi þá í stað iðnaðarmannaskóla á Ísafirði.

Í þriðja lagi er það, að þeir, sem hafa lokið burtfararprófi frá þessum skóla, geti með aðstoð kennara búið sig undir aðra skóla, t. d. próf undir efri deild Mentaskólans, eða einstaka bekki hans, ef opnir verða, og aðra slíka skóla.

Jeg ætla, að menn greini ekki á um það, að þetta væri til mikilla bóta, ef hægt væri að koma því við í sambandi við sem flesta alþýðuskóla. Þar, sem kennaraval er gott, er enginn vandi að koma þessu saman, að nota sömu kenslukrafta í báðum deildum.

Ein örlítil breyting er enn: Gert er ráð fyrir, að skólanefnd Ísafjarðar, sem til þessa hefir stýrt málum ungmennaskólans þar, verði skólanefnd fyrir þennan væntanlega skóla, en ekki sje kosin sjerstök skólanefnd fyrir hann. Loks er þess að geta, að ekki er gert ráð fyrir, að nemendur búsettir í Ísafjarðarkaupstað greiði skólagjöld, en þau sjeu hinsvegar heimt af nemendum úr þeim hjeruðum, sem engan styrk leggja til skólans. Ísafjörður greiðir með framlaginu fyrir sína nemendur, skólagjöld utanbæjarnemenda koma þar á móti.

Jeg ætla, að jeg þurfi ekki að flytja lengra mál fyrir þessu frv. Það er nokkurn veginn ljóst, hvað hjer er um að ræða. En mjer væri þökk í því, ef hv. þdm. vildu gera sjer það ljóst, að ef menn virkilega hafa trú á því, að gagnlegt sje að veita alþýðunni fræðslu í skólum, svipuðum og þessum, og ef menn viðurkenna þá skyldu þess opinbera að leggja fram fje til slíkra stofnana, þá verða hv. þm. líka að viðurkenna, að það verður að vera samræmi í þessum fjárframlögum. Það er ekki rjett að styrkja einn landshluta tíu sinnum meira en annan ár eftir ár, og bera þannig rjett sumra landshluta fyrir borð, til þess að hefja rjett annara.

Jeg legg svo til, að frv. verði að lokinni umræðu vísað til hv. mentmn.