06.03.1929
Neðri deild: 15. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í C-deild Alþingistíðinda. (2899)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Lárus Helgason:

Það var sagt hjer í umr. í gær af hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ), að það hlyti að vera af einstakri þægð við togaraeigendur, að hv.

þm. Borgf. (PO) hefði gerst flm. þessa frv., því að ekkert ætti hann í togara. Jeg býst við, að það megi segja það sama um mig. Ekkert á jeg í togara. En jeg veit ekki hvað hv. þm. meinar með þessu. Jeg veit ekki til, að við sjeum kosnir á þing til þess að vinna fyrir sjálfa okkur eingöngu, heldur fyrir kjördæmi okkar og alt landið í heild. Enda finst mjer það rjettmætt, að þeir menn, sem standa utan við vinnudeilurnar, hafi afskifti af þessu máli. Það er búið að gera grein fyrir því af öðrum hv. flm. þessa frv., hver óheill landi og lýð stafar af verkföllunum, enda mun flestum hugsandi mönnum það ljóst. Það er því ekkert undarlegt, þó að nokkrum þingmönnum hafi komið saman um, að reyna að finna ráð til að bæta úr því böli. En þeir, sem vel vilja í þessu máli, geta ekki gert að því, þó að einhverjir snúist á móti till. þeirra. Við flm. höfum fengið að kenna á mótmælum og getsökum frá fulltrúum jafnaðarmanna. Um leið og frv. kom úr prentsmiðjunni, hreytti Alþýðublaðið úr sjer ófögrum orðum um frv. og til flm. þess og hefir haldið þeirri iðju rækilega síðan.

Jeg ætla þá að snúa mjer að hv. 2. þm. Reykv (HV). Hann vildi bera það fram sem rök gegn þessu frv., að mótmæli bærust nú víðsvegar af landinu, sem skora á Alþingi að fella það.

Jeg get vel trúað því, að jafnaðarmönnum hafi tekist að hóa saman mótmælum gegn frv., með því að senda skeyti til fjelaga sinna úti um land, sem ekkert þekkja efni frv. Jeg hygg því, að það sjeu fremur lítil rök í þessum mótmælum. Annars býst jeg við, að úti á landi muni flestir fagna því, að þetta frv. er fram komið, og vænta þess, að af því muni gott eitt leiða. Hv. 2. þm. Reykv. (HV) mintist á, að auðvald mundi þurfa til þess að halda öllum togaraflotanum ónotuðum í höfn í 2 mánuði. En jeg get ekki skilið annað, en að hv. þm. megi fagna því, að einhverjir menn í þessu landi höfðu tök á að eignast þessa togara. Það er varla hægt að ætlast til þess, að togaraútgerðin uppfylli allar þær kröfur, sem til hennar eru gerðar. Eða hvað tekur við, þegar útgerðarmenn sjá sjer ekki fært að gera togarana út?

Það hefir verið minst á þjóðnýtingu togaranna, og jeg geri ráð fyrir, að háværar kröfur kæmu fram um, að ríkið tæki að sjer útgerðina. Það má vera, að andstæðingar frv. liti svo á, að þá verði útgerðinni svo vel stjórnað, að hún geti borgað verkamönnum svo hátt kaup, sem þeir vilja fá. En það er óreynt mál. Jeg er ekki trúaður á, að það yrði, og svo mun vera um fleiri.

Hv. þm. (HV) sagði, að verkföllin væru eina vopnið, sem verkalýðurinn hefði sjer til varnar. Það er ekki verið að taka þetta vopn af verkalýðnum. Hv. þm. Dal. (SE) benti nú síðast rjettilega á það, að það þyrfti engan dóm í vinnudeilum, ef engin samtök væru meðal verkalýðsins. Jeg álít, að það sje að vísu gott, að verkamenn hafi samtök, en það má bara ekki nota þau til æsinga af þeim mönnum, sem gjarnt er til að vekja óvild og hatur.

Hv. þm. (HV) taldi, að sá tími, sem hefði eyðst í síðasta verkfall, væri lítilsvirði í samanburði við þann hagnað, sem verkamenn hefðu hlotið af launahækkuninni. En fyrir þessu færði hann lítil rök, enda er það ekki hægt. Sú kauphækkun, sem verkamenn hafa hlotið, er vitanlega miklu minni en það, sem komið hefði verið í þeirra vasa, ef þeir hefðu unnið það, sem af er árinu. (HV: Á hvað löngum tíma?) Jeg hefi heyrt sagt, að kaupsamningarnir væru gerðir til eins árs. Að því loknu má að líkindum aftur búast við verkfalli — nýrri hagsæld fyrir verkamennina! En hvað getur þetta gengið lengi ?

Þá sagði hv. þm. (HV), að verkalýðurinn beitti ekki verkfallsvopninu nema í nauðsyn. Jeg efast mjög um að það sje rjett. Frá mínu sjónarmiði er það ekki.

Í þetta skifti hefði það orðið betra fyrir verkamenn, að leggja ekki út í verkfall. (HV: Hvað hefði kaupið orðið þá?) Jeg hefi ekki orðið var við, að það hafi átt að lækka kaupið, og jeg hefi áður sagt, að útkoman hefði orðið betri fyrir verkamenn, og landið í heild, ef verkfallið hefði ekki átt sjer stað. Jeg er á því, að það sje rjett, sem sagt hefir verið um foringja verkalýðsins, að með framkomu sinni í þessu máli sjeu þeir einkum að vinna fyrir sjálfa sig. Þegar verkföll eru, fá þeir meiri verkefni.

Jeg býst við, að aðalástæðan til mótspyrnu verkamannaforingjanna sje sprottin af því, að þeir sjá, að áhrifum þeirra er lokið, ef vinnufriður kemst á. Þeir hafa engu að tapa, þó að útgerðin stöðvist og verkfalli sje komið á, þar eð þeir halda sínum tekjum eftir sem áður. Á ummælum hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) var það að heyra, að hann hefði það á meðvitundinni, að hver er sjálfum sjer næstur. Þá hafa foringjar verkalýðsins hjer altaf verið að hamra á auðsöfnun togarafjelaganna og krefjast þess, að reikningarnir væru lagðir á borðið. í þessu frv. er stefnt að því, að alt komi í ljós um afkomu togaraútgerðarinnar. Og það sýnist vera, og er líka í augum allra sanngjarnra manna, mjög stórt hjálparmeðal til þess að koma í veg fyrir verkfall. Þegar hlutlausir og sannsýnir menn eru valdir til að meta allar ástæður og kveða upp úrskurð í málinu, fæ jeg ekki betur sjeð en að um rjettláta og eðlilega úrlausn sje hjer að ræða.

Hv. 2. þm. Reykv. (HV) vjek sjer að mjer og hv. 1. þm. Árn. (JörB) og ljet sjer sæma að halda yfir okkur hirtingarræðu. En jeg verð að segja, að þessum hv. þm. ætti að vera það ljóst, að honum þýðir ekki að haga sjer á þann veg, hvorki gagnvart mjer eða hv. 1. þm. Árn. Hann á ekkert erindi til mín á þeim grundvelli, því að jeg veit ekki til þess, að jeg hafi nokkuð til hans að sækja. (HV: Nei, en til sjómannanna.) Þegar hv. þm. er að bregða mjer um það, að jeg hafi brugðist sjómönnum í einhverju sjóplássi í Skaftafellssýslu, þá verð jeg að segja það, að jeg veit ekki við hvað hann á. Jeg veit ekki til þess, að það sje neitt sjópláss í Skaftafellssýslu, þó að það sjáist að vísu á sjó af nokkrum bæjunum í tveimur vestustu hreppunum í V.-Sk. (Mýrdal) og sje stundum farið þaðan á sjó, þegar gefur, sem ekki er nema mjög sjaldan á þeim tíma, sem aflavon er. (HV: Jeg talaði ekki um neitt sjópláss. Yfirleitt tala jeg ekki um sjópláss.) Við einhverja sjómenn hlýtur hv. þm. að eiga. þó að hann vilji nú ekki viðurkenna, að hann hafi talað um neitt sjópláss, en sem hann gerði af sínum ókunnugleik. En það eru engin rök hjá þessum hv. þm., þó að hann rökstyðji þetta með því, að jeg hafi brugðist einhverjum mönnum, sem sjó hafa sótt hingað. Jeg hefi engum sjómanni lofað neinu í þá átt, sem jeg þykist vita að vaki fyrir hv. þm. því að hann mun eiga við afstöðu mína til vökulaganna í fyrra. Hv. þm. má leita vel til að finna rök fyrir því, að jeg hafi brugðist nokkrum í því máli. Það hafði enginn minst á það við mig, hvernig jeg skyldi haga mjer í því máli, hvorki á fundum nje í samtali. Enda er það aukaatriði, þó að nokkrir menn úr Mýrdal fari hingað til Reykjavíkur í atvinnuleit. Og jeg býst líka við því, að þeir einir hafi farið hingað, sem ætluðu að hafa eitthvað upp úr ferðinni og hafi legið í ljettu rúmi, hvort þeir sváfu 2–3 tímum lengur eða skemur á sólarhring með köflum. Jeg hugsa, að hver leggi sig fram, til að afla sem mest, þegar vel gengur, og jeg get ekki neitað því, að mjer finst það einkamál skipshafnar og skipstjóra, hvað hart er lagt að sjer og hvað lengi sofið, sjerstaklega þar sem til voru lög um 6 tíma svefn. Þetta vakti fyrir mjer, og jeg vil því vísa því heim til föðurhúsanna, að jeg hafi nokkrum brugðist í þessu máli.

Ef það á að liggja hótun í þessu frá hv. 2. þm. Reykv. (HV), þar sem hann var að minna mig á 35 atkv. muninn á mjer og Jóni Kjartanssyni við síðustu kosningar, og gefa í skyn, að jeg muni ekki fastur í sessi, þá skal jeg segja þessum hv. þm. það, að jeg óttast ekki þessa hótun hans, og læt hann sjálfráðan, hvort hann vill fara austur og mæla móti kjörfylgi mínu eða með. En jeg býst við, að það mundi verka í öfuga átt við það, sem hann ætlast til, hvora stefnuna sem hann tæki. Svo vel þekki jeg sýslunga mína.

Þá vildi hv. 2. þm. Reykv. (HV) halda því fram, að það væri sama útkoman hjá mjer nú og í fyrra, og að jeg hefði brugðist nokkrum úr hópi kjósenda minna. En það er með þetta eins og fyrri aðdróttunina: hv. þm. veit ekki, hvað hann er að segja. Mjer er það kunnugt, að fyrir miðjan febrúar, eða ef til vill seinast í janúar, fóru nokkrir menn úr Mýrdal hingað til Reykjavíkur í atvinnuleit, líklega flestir á togara. Jeg er viss um það, að þessir menn fóru ekki hingað með það fyrir augum að taka þátt í verkfalli, heldur til þess að fá eitthvað að gera, og þurfa ekki að bíða hjer í Reykjavík og kosta sig tímunum saman. Það er nú einu sinni svo, að menn hugsa meira um það að fá eitthvað að gera sem fyrst heldur en að baka sjer atvinnuleysi í voninni um kauphækkun. Jeg veit með vissu, að þessir menn hafa engar kröfur gert til verkfalls, og að þeim er miklu meiri greiði gerður með því að koma í veg fyrir það, að þau eigi sjer stað framvegis. Og því veit jeg alveg með vissu, að þessir menn eru mjer þakklátir fyrir það, hvernig jeg stend í þessu máli. Hv. 2. þm. Reykv. (HV) verður því að taka til einhverra annara ráða til þess að hræða mig.

Jeg geri ráð fyrir því, þó að jeg viti það ekki, að hv. 1. þm. Árn. (JörB) eigi kost á að svara þeim illyrðum, sem hv. 2. þm. Reykv. (HV) breytti í hann, og sje því ekki ástæðu til að bera blak af honum, enda er hann mjer miklu færari til þess. En jeg gat ekki sjeð, að það væri líkt því, sem mentaður maður væri að tala, þegar þessi hv. þm. var að brigsla hv. 1. þm. Árn. (JörB) um það, að hann væri liðhlaupi og svikari. Það mætti ef til vill fyrirgefa okkur ómentuðum sveitakörlunum, þó að við kynnum okkur ekki betur en þessi hv. þm. virðist sýna af sjer með framkomu sinni, en mentaðir menn ættu að hafa betra taumhald á tungu sinni. (HV: Er hann það ekki?) Hv. þm. ætti að færa rök fyrir þessu. (MG: Eins og allir vita, þá er hv. 1. þm. Árn. bundinn í forsetastól.) Það lítur út fyrir, að þessi stóryrði hafi ekki síst fallið vegna þess, að viðkomandi maður gat ekki varið sig. (ÓTh: Auðvitað.)

Það er búið að tala svo mikið um þetta mál, að jeg sje ekki ástæðu til að hafa þetta lengra, enda tel jeg mest um vert, hvernig atkv. falla. En jeg ætla samt sem áður, áður en jeg sest niður, að víkja örfáum orðum til hv. þm. Ísaf. (HG). Jeg hafði búist við, þegar hann varð ritstjóri Alþýðublaðsins, að blaðið mundi verða betra og hógværara en áður. En því miður brást sú von mín. Jeg fæ ekki skilið, að sæmandi sje þeim mönnum, sem vilja gerast leiðandi menn þjóðarinnar, að skrifa eins og hann hefir gert í Alþýðublaðið, eftir að gerðardómsfrv. kom fram. Jeg býst við því, að það sje betra og sigurvænlegra að skrifa og tala rólega um málin, en sleppa rangfærslum og ósannindum. Mjer hefir reynst það í mínu lífi, að mjer gengi betur að koma fram mínum málum með því, að halda sannleikanum á lofti en með því að snúa út úr og færa alt á verra veg. Og jeg tel, að það eigi að vera markmið, hvort heldur þm. eða blaðaritstjóra, að segja það eitt um málin, sem þeir vita sannast og rjettast.