10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í C-deild Alþingistíðinda. (2932)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Jörundur Brynjólfsson:

1 Það skulu ekki verða mjög mörg orð, sem jeg segi. Við 1. umr. var málið svo rækilega rætt, að jeg geri ekki ráð fyrir, að margt nýtt komi fram. Jeg hefði því getað látið vera að leggja orð í belg, ef nokkur atriði í ræðu hæstv. dómsmrh. hefðu ekki gefið mjer tilefni til að standa upp.

Áður en jeg vík að ummælum hans, skal jeg þó fara nokkrum orðum um málið í heild. Eins og rækilega hefir verið tekið fram, þá var það ekki tilgangurinn með þessu frv. að skerða rjettindi þeirra aðilja, er það snertir. En það er nú svo, að hagsmunamál, eins og þetta, eru ætíð viðkvæm þeim, er þau snerta, og því hægt að villa mönnum sýn. Mjer hefir virst þess gæta helst til mikið hjer í umr., frá báðum hliðum, að jeg ætla, og þó einkum annari. Þeir hafa óttast, að af frv. leiddi rjettindamissi, óttast málið meir en ástæða er til. Ef jeg hefði því vitað fyrirfram, að menn mundu líta jafn einhliða á málið og með jafn miklum geig, þá mundi jeg ekki hafa flutt það. Því mjer er það ljóst, að eigi frv. að ná tilgangi sínum og vinna það gagn, sem því er ætlað að vinna, þá mega aðiljar, annarhvor eða báðir, ekki hefja fyrirfram ákveðna andstöðu gegn úrslitum dómsins. Eigi að síður get jeg lýst því yfir, að því fer fjarri, að jeg sjái eftir að hafa flutt málið inn á þing. Með því móti varð sjeð hvern hug menn bera til slíks máls. Og þó það beri ekki verulegan árangur, er leiði til úrslita, þá held jeg samt að það hafi áunnist, að menn hugleiði þessi mál meira og leiti frekar úrlausna.

Þess er rjett til getið, að sjómannaverkfallið í vetur varð þess valdandi, að frv. þetta var flutt. Atvinnuskærur hjer á landi hafa hingað til verið svo smávægilegar, að þær geta ekki heitið neitt verulegt þjóðarböl. Síðasta atvinnudeila varð lang stórfeldust. Eftir því sem fólkinu fjölgar, eftir því sem atvinnufyrirtækin eru rekin í stærri stíl og kalla fleira fólk saman, eftir því má búast við, að þegar í odda skerst, þá grípi þær deilur meir og meir inn í þjóðarhaginn.

Okkur flm. virtist rjett að gera einhverja tilraun til að leysa þessi mál. Nú hefir málið verið rætt og það komið í ljós, hvaða augum menn lita á það. Og jeg er sannfærður um, að þegar stundir líða og menn fá meiri reynslu, þá verði haldið eitthvað í þessa átt. Það er eðlilegt, að menn hafi ekki áttað sig á því til fulls. Það hefir kostað aðrar þjóðir langar stundir að átta sig á málinu, og engin þjóð hefir náð þeirri lausn, er allir sjeu ásáttir um að sje viðunandi. Þjóðir, sem hafa aldalanga reynslu í þessum málum, hafa ekki leyst þau enn, og það má vel vera, að þess verði langt að biða. En hins bendir þó reynslan til, að þess verði ekki langt að bíða að þjóðir þær, er mesta og sárasta reynslu hafa í þessum efnum, fái skipað þessum málum í sæmilegt horf. Og það má vera, að það verði svo fljótt, að okkur verði biðin ekki tilfinnanleg.

Eitt er ljóst, að meðan annar aðili beitir sjer af alefli gegn lausn málsins, þá er það ekki sigurvænlegt, þó löggjafinn setji lög sem þessi. Í meginatriðum verða báðir aðiljar að vera með í að finna lausnina. Hinsvegar dregur þetta engan veginn úr rjettmæti þess, að flytja málið inn á Alþingi.

Jeg get látið þetta nægja. Jeg mun að sjálfsögðu greiða frv. atkv. Jeg get ekki neitað því, að jeg hefði kosið að meiri og eindregnari vilji hefði komið fram, ekki síst hjá hv. sósíalistum þessarar deildar, til að finna lausn þessara mála. Og verð jeg að segja, að þess eins sakna jeg frá þeirra hálfu.

Þá vil jeg víkja nokkuð að orðum hæstv. dómsmrh. um það, hverjum augum Framsóknarflokkurinn lítur á málið. Hann drap fyrst á afstöðu íhaldsmanna til málsins og jafnaðarmanna. Virtist honum þær leiðir, er báðir þessir flokkar vilja fara, benda til öfga. En hins láðist honum að geta, að hingað til hafa tveir af flm., hv. þm. V.-Sk. (LH) og jeg, talist til Framsóknarflokksins. Og þar sem hann drap á stefnu „Framsóknar“ í þessu máli, þá virtist eins og hann teldi okkur hafa einhverja sjerstöðu. Má vera að svo sje, ef aðeins eru taldir þm. flokksins, að við hv. þm. V.-Sk. höfum sjerstöðu í málinu. Getur verið, að hæstv. dómsmrh. sje kunnugra um hugi þm. en mjer. En jeg hefi lagt það eitt til þessa máls, sem jeg ætla mjer að bera ábyrgð á og svara fyrir, og býst jeg við, að hv. samflokksmaður minn (LH) muni gera hið sama. (LH: Jeg gat þess við 1. umr.).

Jeg verð að játa, að mjer koma ummæli hæstv. dómsmrh. á óvart, því að þótt hann hafi ef til vill bygt þau á þekkingu sinni á hugarfari Framsóknarmanna hjer innan þingsins, þá er víst, að hæpið er, að þau eigi við Framsóknarmenn í landinu yfirleitt. Jeg er ekki viss um, að allir Framsóknarmenn landsins líti svo á, að aðstaða okkar hv. þm. V.-Sk. í þessu máli fari í bága við stefnumál flokksins. Jeg býst við, að allmargir Framsóknarmenn óski eftir því, að lausn fáist á vandræðamáli því, sem hjer er um að ræða, og geti fallist á, að sú lausn verði, ef til vill, eitthvað í þá átt sem hjer er lagt til.

Ef þetta mál er krufið til mergjar, verður fullyrðing hæstv. dómsmrh. þó enn hæpnari, þar sem nú eru komnar fram tillögur frá þeim hv. 2. þm. Arn. (MT) og hv 2. þm. Rang. (GunnS), og eins og allir vita, er annar þeirra í Framsóknarflokknum, en hinn stendur mjög nærri. Ef litið er á tillögur þeirra sjest, að ekki skilur ýkja mikið á milli þeirra og frv. um vinnudóm. Í þessum till. er gert ráð fyrir gerðardómi, og ef aðiljar koma sjer saman um skulu deilumálin lögð í gerð og dómurinn vera bindandi. Að vísu eru aðiljar ekki skuldbundnir til að leggja málið í gerð.

Hæstv. dómsmrh. gerði mikið úr þeirri hættu sem þjóðfjelaginu stafaði af því, ef ekki væri hægt að fullnægja dómnum eftir að hann hefði verið feldur. Mig furðaði dálítið á þessu, því að eftir ákvæðum frv. eru menn ekki skyldaðir til að vinna eða láta vinna eftir að dómur er fallinn, ef þeir sjá sjer ekki fært að ganga að dómnum, og við slíku eru engin viðurlög. Jeg er líka hissa á því, að hv. 2. þm. Árn. og hv. 2. þm. Rang. skuli ekki geta látið sjer detta í hug að þessir aðiljar hlíti ekki dómnum, enda þótt þeir hafi skuldbundið sig fyrirfram. Og ef svo fer, er þá þjóðfjelagið ekki jafnhörmulega sett og með úrslitum vinnudómsins? Jeg get því ekki sjeð hjer neinn eðlismun. Ef menn vilja, að þjóðfjelagið kúgi menn til að hlíta dómnum, þá er jafnnauðsynlegt að gera það þótt menn hafi lagt málin í gerð af fúsum vilja, ef þeir halda ekki sett skilyrði. Það má að vísu segja, að málstaður þeirra, sem brjóta sett skilyrði, sje verri en hinna, og það hafi áhrif á almenningsálitið, en í framkvæmdinni er ekkert regindjúp staðfest hjer á milli.

Þessir hv. þm. hafa því ekki lagt neitt allsherjarbjargráð af mörkum í þessu máli. Jeg er ekki að segja, að tillögur þeirra sjeu með öllu gagnslausar, en að þær bregði einhverjum sjerstökum bjarma yfir þá sem fylgja þeim, en skugga á aðra, það getur mjer ekki fundist. Jeg get þó vel viðurkent tillögur þeirra sem spor í þá átt, að koma í veg fyrir langvinnar vinnudeilur, sem öllum landslýð eru til tjóns og angurs.

Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja til hvaða flokks jeg á að teljast eftir flutning þessa máls. Jeg ætla hjer eftir sem hingað til að bera sjálfur ábyrgð á því, sem jeg legg til þjóðmála, en enga forráðamenn að hafa í þeim efnum.