10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í C-deild Alþingistíðinda. (2944)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Sigurður Eggers:

Hv. þm. Mýr. (BÁ) hjelt, að heilagur andi hefði komið yfir mig áðan. Jeg held að andi sannleikans hafi komið yfir mig, til þess að segja það, sem reyndar allir vissu en ekki nærri allir þorðu að segja. Hv. þm. Mýr. sagði, að ekki vantaði annað en Framsóknarmenn væru hræddir við Frjálslynda flokkinn. — Oft veltir lítil þúfa stóru hlassi. — Það var einu sinni keisari, mikill og voldugur, sem var ákaflega hjegómagjarn. — Nú er jeg alls ekki að segja að Framsóknarflokkurinn sje mikill og voldugur — en hjegómagjarn — það er annað mál. Eitt sinn saumaði skraddarinn föt á keisarann, sem hann sagði að væri úr fínasta hýjalíni. Og allir sem nærri voru keisaranum lofuðu fötin. Keisarinn varð ákaflega hrifinn, og efndi til stórrar skrúðgöngu, til þess að sýna sig í nýju fötunum. En þegar dýrðin stendur sem hæst, kemur alt í einu drenghnokki og segir, að keisarinn sje ber. Og þá sáu allir, að keisarinn var ber. — Það þekkja allir söguna hans Andersens. En væri nú ekki hugsanlegt að einn einasti þingmaður dygði til þess að sýna hýalínið, sem Framsókn er í — sýna rakaleysið, sýna að hún væri ber og að hún snjerist eftir jafnaðarmönnum í þessu máli. Allir vita, að þessi dráttur stafar af því, að stjórnarflokkurinn vildi kveða málið niður. Það hefir verið að gægjast inn á dagskrána við og við, eins og hv. þm. Borg. (PO) lýsti svo vel áðan, en svo hefir því verið kipt út. En sennilega fer svo um fleiri stórmál en þetta, að þau dagar uppi. Hvað líður gengismálinu? Nú, þegar liðl. vika er eftir af þinginu, eru nýlega komin tvö nál., frá stóru flokkunum í þinginu, sitt frá hvorum, þau eru hvort um sig tvær línur, samtals fjórar línur og er lítill vafi á, að það mál er stöðvað. Ætla jeg svo ekki að eyða fleiri orðum að þessu, en aðeins segja það, að þeir, sem vilja vísa málinu til stjórnarinnar, vilja drepa það.