24.04.1929
Efri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í C-deild Alþingistíðinda. (3009)

59. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Halldór Steinsson:

Jeg þarf eiginlega ekkert að andmæla hæstv. dómsmrh., því hann var mjer sammála í öllum aðalatriðum. En hann óttaðist að ekki væri hægt að koma á fjelagsskap um þessar bætur þar eystra, ef brtt. mínar væru samþ. En jeg verð nú að segja það, að það er þá ekki mikill áhugi fyrir þessu máli, ef fjelagsskapurinn gæti strandað á því, að laxveiðanotendur greiddu bætur jafnt til Arnarbælis sem annara jarða, sem selveiðinytja mistu. Ef brýn nauðsyn er á slíkum fjelagsskap, getur þetta ekki orðið til þess að spilla fyrir frv.

Hæstv. ráðherra gat um það, að eðlilegt væri, þegar núverandi prestur í Arnarbæli fellur frá, að missir selveiðinytja væri greiddur ábúendum Arnarbælis. Það er rjett, en þá gildir hin sama regla og upphaflega var gengið út frá og eins og kemur fram í 2. gr. frv. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir missi selveiðinytja í ánni, vegna ákvæða 1. gr., skulu koma fullar bætur, eftir mati óvilhallra dómkvaddra manna, og vera árgjald, sem metið er í eitt skifti fyrir öll, sbr. þó l. gr. o. s. frv.“