20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í C-deild Alþingistíðinda. (3029)

63. mál, hlutafélög

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg bjóst aldrei við því, að hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) myndi verða með þessu frv., enda þótt það í sjálfu sjer sje mjög saklaust. Jeg skil ekki hvað hlutafjelög, sem starfa hjer í landinu, geta haft á móti því, þó að almenningur hefði aðgang að reikningum þeirra hjá lögreglustjóra; það myndu hvort sem er ekki aðrir fara að hafa fyrir að hnýsast í þá en þeir, sem þess þyrftu með. En jafnvel þó einhverjir aðrir gerðu það, til þess að vita hvernig þau stæðu sig, þá sje jeg ekki, að það gæti gert neitt, ef þau stæðu sig vel. Þá myndi vissan um það verða sama sem vaxandi lánstraust, en ef þau stæðu sig illa, þá væri heldur ekki nema sanngjarnt, að allir fengju að vita það, því að þótt vel sje um mörg hlutafjelög búið, þá eru líka mörg þeirra varhugaverð fjárhagslega, og kæmust menn þá að því, við að sjá reikninga þessara fjelaga. Væri það gott fyrir alla.

Hv. 3. þm. Reykv. bjóst við því, að ef uppvíst yrði, hverjir ættu hluti í hlutafjelögum, þá mundu hlutabrjef ekki lengur vera skráð á nafn, heldur á handhafa. Jeg býst við, að fáir kynnu illa við að láta sjá nöfn sín sem eigendur hlutabrjefa, því að það er fáum til skammar. Yfirleitt álít jeg, að það ætti að vera miklu greiðari aðgangur að öllum upplýsingum um slík atvinnufyrirtæki og miklu minni leynd heldur en nú er. Hjá samvinnufjelögunum komast menn að öllu, sem menn vilja, öðru en viðskiftaleyndarmálum, ekki aðeins fjelagsmenn, heldur allir óviðkomandi, og sama finst mjer ætti að vera um hlutafjelög. Með stærri fjelög erlendis er það svo, að ekki er aðeins heimtað, að þau birti opinberlega reikninga sína, heldur líka að aðalfundir þeirra sjeu opnir fyrir frjettariturum blaðanna, svo að allir geti fengið að vita, hvað þar gerist.

Við flm. þessa frv. höfum ekki farið fram á þetta, heldur aðeins að þessar upplýsingar væru gefnar. Það getur verið, að það sje hægt að heimta þetta, þó að þessar upplýsingar sjeu ekki gefnar nú, því að öll fjelög eru skyld að senda reikninga sína þangað, sem þau eru skráð. En hvað það snertir, sem hv. þm. (JÓl) sagði um Alþýðubrauðgerðina í þessu sambandi, þá kom það náttúrlega ekki vel heim, því að hún hefir aldrei verið hlutafjelag, heldur sameign verklýðsfjelaganna hjer í bænum. Fleiri hundruð manna hjer í bæ hafa vitað um hag hennar, og er að því leyti svipað að segja um hana og samvinnufjelögin, að þar er ekki mikil leynd yfir.