27.03.1929
Neðri deild: 33. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í C-deild Alþingistíðinda. (3067)

65. mál, myntlög

Sigurður Eggerz:

Jeg vil þakka hv. fors. fyrir að lofa mjer að tala í þessar 5 mínútur, en ef jeg hefði lengri tíma, skyldi jeg tæta þennan barnaskap hv. 2. þm. Árn. sundur lið fyrir lið. Jeg verð að byrja á því, að hann dæmir efnahag bankanna eftir því, hvað þeir skulda mikið, og telur upp ýmsar skuldir. En eins og allir er þetta mesta heimska og barnaskapur, og mig grunar, að hjá honum hafi vaknað löngun til hefndar, þegar jeg gerði smá athugasemdir við ræðu hans, en áður hafði hann talað frekar vingjarnlega í garð bankans. Það var eins og hv. þm. vissi ekki, að bankaumsjónarmaðurinn hafði athugað hag bankans, en það mun þó hafa komið fyrir, að hann hafi lagt meira upp úr orðum þess manns en margra annara. Jeg get aftur bent hv. þm. á það, að bankinn hefir þegar innleyst á 4. milj. af þeim seðlum, sem í umferð voru, og eins og jeg hefi sagt, hefir hann eiginlega leyst inn meira, því að áður voru 12 milj. í umferð, en nú eru þær aðeins 5. Það, sem skiftir mestu máli, er skuld Íslandsbanka við ríkissjóð, og að bankinn hefir sett öruggar tryggingar fyrir skuldinni. Gæti hv. þm. snúið sjer til hæstv. forsrh. og fengið hjá honum upplýsingar um það. Sama er að segja um skuldina við Landsbankann. Þar eru fullar tryggingar fyrir hendi. Hvað enska láninu viðvíkur, þá er það að segja, að bankinn hefir þegar greitt nokkuð af því, en það myndi auðvitað verða til mikils hagnaðar fyrir bankann, ef krónan væri hækkuð, því að auðvitað þarf bankinn að greiða færri krónur upp í lánið, ef krónan væri hækkuð, og gæti sú upphæð, sem munaði, orðið allhá.

Hitt er vitanlega alveg rjett, að hækkun krónunnar í gullverð skapar örðugleika í atvinnulífinu. Það er jeg fús að játa. Jeg hefi þá, að jeg held, athugað aðalbarnaskapinn hjá hv. 2. þm. Árn.

Jeg vil aðeins bæta því við aths. mína, að eins og liggur í hlutarins eðli, þegar ein stjórn hefir borið slík stórmál fram, þá ber henni samkvæmt viðurkendum þingræðisreglum að segja af sjer, ef hún kemur því máli ekki gegnum þingið. Þessu gat hv. þm. ekki mótmælt.

Þá spurði hv. þm. (MT), hvort Íslandsbanki væri búinn að borga þann hluta, sem hann fjekk af ameríska láninu. Jeg veit ekki til, að neinn ágreiningur sje milli Landsbankans og Íslandsbanka um það lán. Verður bráðlega um það samið, og vona jeg, að gott samkomulag verði um það. Sje jeg því ekki, hvað það kemur þessu máli við. — Enda álít jeg það ekki holt fyrir fjármál þjóðarinnar að óvirða peningastofnanir hennar. Og þegar maður, sem jafnhátt er settur sem forseti Sþ., gerir sjer leik að því, þá mætti álykta, að hann talaði fyrir munn þess flokks, sem sett hefir hann í þessa virðingarstöðu, þótt jeg sje hinsvegar í vafa um, að flokkinn langi til að lifa undir þeirri forustu.