07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í C-deild Alþingistíðinda. (3089)

68. mál, háskólakennarar

Halldór Stefánsson:

Við tveir nefndarmenn fjhn., hv. þm. V.-Húnv. og jeg, höfum ekki getað orðið sammála meðnefndarmönnum okkar um frv. þetta., en við höfum ekki borið fram neitt nál., og þyki það betra, vil jeg biðja hv. deild afsökunar á því.

Frv. þetta er í rauninni launahækkunarfrv., en borið fram með öðrum ástæðum. Það hefði því átt að berast fram með þeim ástæðum, að laun dócentanna væru of lág, og því þyrfti að hækka þau, en það hefir ekki þótt sigurvænlegt að reifa það á þann hátt. Í frv. er farið fram á, að dócentarnir verði prófessorar, þegar þeir hafa setið í embætti í 6 ár, og að laun þeirra haldi þá áfram að hækka eins og laun prófessora. Mun það ekki vera aðalástæðan fyrir flutningi frv., en ekki hitt, að óvirðing þyki í dócentstitlinum?

Annars getum við, minni hl. fjhn., ekki fallist á, að laun dócentanna sjeu þeim mun lægri en laun annara sambærilegra embættismanna, að rjett sje að taka þá út úr til launabóta nje heldur hitt, að titillinn sje þeim ekki viðunandi, og sjáum því ekki, að ástæða sje til að fallast á frv. þetta.