16.04.1929
Neðri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í C-deild Alþingistíðinda. (3119)

69. mál, verðtollur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. flm. þessa frv. hefir nú gert grein fyrir því, að tekjumissir ríkissjóðs muni nema á 5. hundrað þúsund., ef frv. þetta verður gert að lögum. Auk þess taldi hv. flm. rjett að bæta enn við frv. og fella niður toll af einni vörutegund til. Mundi þá allur tekjumissir ríkissjóðs vegna frv. nema yfir ½ milj. kr.

Nú er svo háttað, að bæði í gildandi fjárlögum og eins í fjárl.frv. því, sem nú er í smíðum, er gert ráð fyrir verðtollinum óskertum. Ef því frv. þetta verður gert að lögum, hlýtur að verða eitt af tvennu, að virkilegur tekjuhalli verði á ríkisrekstrinum, eða þá að þingið verður að fella niður eitthvað af útgjöldum ársins 1930, eitthvað af þeim framkvæmdum, sem gert er ráð fyrir á fjárl.frv. því, sem nú er verið að semja, — svo framarlega sem þingið vill ganga forsvaranlega frá fjárlögunum, sem jeg geri fastlega ráð fyrir að það vilji. Hv. flm. (HG) talaði um, að tekjuhliðin væri mjög varlega áætluð. Það má vera að svo sje. En það getur þó verið álitamál, hvort sú hækkun á tekjuliðum fjárl.frv., sem nefndin gerir till. um, er varleg eða ekki. Og þótt sú uppfærsla sje máske ekki óvarleg, þá ber að gæta þess, að fram undan bíða stór útgjöld, sem ekki er gert ráð fyrir á fjárl. frv. Svo er um kostnað við Alþingishátíðina, sem mun koma fram bæði á þessu ári og árinu 1930. Í þessu sambandi þýðir ekki að tala um tekjuafgang á fjárl. frv. Að vísu er 150 þús. kr. tekjuafgangur á frv. eins og fjvn. hefir skilað því af sjer nú, en bæði er, að engar fjárhæðir eru áætlaðar til útgjalda liða, er munu fram koma, og svo mun bætast við frá þm., ef að vanda lætur. Nú hefir verið einmuna góðæri um hríð, og eru tekjuvonir frv. miðaðar við að það haldist. Ef umskifti verða á árferði til hins lakara, er jeg viss um, að tekjuáætlun fjárl. frv. ber sig ekki. En þótt því mætti treysta, að góðærið hjeldist, þá er og hins að gæta, að þá er einnig góðæri fyrir fólkið, og það þolir þá betur að bera tollana, því að góðu árunum fylgir nóg atvinna, en vondu árunum atvinnuleysi. Er því einnig frá því sjónarmiði rjett að haga svo sköttum, að ekki sje teflt í tvísýnu um jöfnuð á tekjum og gjöldum ríkissjóðs. Enda er ekki hægt að sjá það á lifnaðarháttum fólks alment, að það líði nú nokkra þröng.

Nú er enn eitt aðalatriði í þessu máli ótalið. Eins og kunnugt er, þá situr nú á rökstólum milliþinganefnd, skipuð af síðasta Alþingi, sem á að gera till. í tolla og skattamálum ríkisins. — Meðan sú nefnd starfar, finst mjer rangt að hreyfa við skattamálunum. Þar með vil jeg ekki segja það, að skattafyrirkomulagið sje svo gott, að ekki megi um það bæta. En mjer finst rjett að bíða eftir till. þeirrar nefndar, áður en farið er að grauta að nýju í því, sem gert var á þinginu í fyrra.

Hv. flm. mintist á frv. það um tóbakseinkasölu, sem fram er komið. En um það er hið sama að segja. Í því á ekkert að gera nú af sömu ástæðu, því það væri enn að grípa fram fyrir hendur milliþinganefndarinnar. Það er meðal annars beint ætlast til, að hún geri till. um einkasölur, sem orðið gætu tekjulind fyrir ríkissjóð.

Jeg býst nú við, að hv. flm. sjái af þessu, að jeg fylgi ekki frv. Legg jeg því til, að hv. deild felli það.