15.03.1929
Neðri deild: 23. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í C-deild Alþingistíðinda. (3131)

70. mál, innflutningstollur af niðursoðinni mjólk

Pjetur Ottesen:

Mönnum hefir orðið töluvert tíðrætt um frjálsa verslun í sambandi við þetta frv., og því hefir verið haldið fram, að lögmál frjálsrar verslunar væri brotið með þessu frv., en það er á miklum misskilningi bygt. Frjáls verslun og verndartollar rekast ekki á og má í því sambandi benda á það, að í Englandi hafa helstu fylgjendur frjálsrar verslunar barist fyrir verndartollum. Ennfremur hafa menn talað um þetta mál í þeirri merkingu, að með þessu ætti að leggja nýja skatta á landsmenn, en það er gersamlega rangt. Meining okkar flutningsmanna er sú, að ákveðið verði hámarksverð þessarar vöru, en þó þannig, að miðað sje við útsöluverð eins og það er nú, og því er hjer ekki um neinn nýjan skatt að ræða, heldur hitt, að við viljum tryggja innlendri vöru markaðinn. En auðvitað má líka velja þá leið, að banna innflutning á erlendri mjólk. Þá leið mætti líka athuga, en hitt er heilaspuni einber, að vera að ræða um nýja skatta í sambandi við þetta frv.

Hv. þm. Vestm. sagði, að verksmiðja sú, er nú starfaði að mjólkurniðursuðu, væri aðeins óþroskaður vísir, og með þessu frv. væri verið að bægja mönnum frá að fá góða vöru og að skortur mundi verða á niðursoðinni mjólk. Þetta hvorttveggja er á ókunnugleika og misskilningi bygt. Eins og nú er komið, getur verksmiðjan langsamlega framleitt nóga niðursoðna mjólk, samanborið við neyslu síðustu ára, og má þó færa út kvíarnar enn. Hvað vörugæðin snertir þá er nú svo komið, að Mjallarmjólk stendur fullkomlega á sporði bestu tegundum niðursoðinnar mjólkur, sem hingað er flutt. Það hefir nú tekist að komast fyrir þær skemdir, sem áður komu við og við fram í mjólkinni. Hefir engra slíkra skemda orðið vart nú um langt skeið. Háttv. þm. Vestm. virðist vera miklu tortryggnari á gæði Mjallar-mjólkur en gæði þeirrar mjólkur, sem hingað er flutt frá útlöndum. En jeg vil spyrja: Hvaða trygging er fyrir því, að erlend mjólk sje eins góð og hún á að vera? Jeg veit ekki til, að ein einasta dós af henni sje send til rannsókna á efnarannsóknastofu ríkisins, en þó hafa menn ekkert við slíkt að athuga. (JJós: Henni er ekki neytt upp á fólk.) Nei það þarf ekki að neyða því upp á fólk, sem útlent er, það er gamla sagan, að þegar um tvent er að ræða, íslenska og erlenda vöru, þá gín fólkið venjulega yfir því, sem útlent er. Til sönnunar þessu má benda á fjölda dæma. Við Íslendingar erum framleiðsluþjóð, og veltur því mikið á því fyrir okkur, hversu fer um markað fyrir framleiðsluvörurnar, en því er nú svo farið, að á ýmsu veltur um sölu framleiðslunnar á erlendum markaði, og er okkur því lífsnauðsyn að nota út í ystu æsar þann markað, sem til er fyrir þær í landinu sjálfu. Það eru hyggindi sem í hag koma. Það tala allir um að það þurfi að auka ræktun og framleiðsluna í landinu, en jafnframt því þarf þá líka að sjá svo um, að sá markaður, sem fyrir er í landinu sjálfu, verði notaður sem best í þágu framleiðslunnar. Það virðist hálf einkennilegur hugsunarháttur, sem ríkir hjá landsmönnum, að láta útlendinga gína yfir öllu, og láta alt standa opið fyrir þeim. Jeg hefi heyrt ýmsa menn, sem mikið hafa ferðast erlendis, segja það, að þar geri menn mjög mikið að því, að hvetja þjóðirnar til að kaupa innlendan iðnað og innlenda framleiðslu, og að stuðlað sje að þessu á allan hugsanlegan hátt, en hjer ætlar alt að ganga af göflunum, ef farið er fram á að gera eitthvað, sem gengur í þessa átt, en þó mun hjer engu minni þörf fyrir, að eitthvað sje aðhafst í þessa átt en annarstaðar. Að því leyti, sem andstaðan gegn öllum ráðstöfunum, sem miða að því að þjóðin búi sem mest að sínu, kaupi sem minst af því frá útlöndum, sem hægt er að framleiða í landinu sjálfu, stafar ekki af skilningsleysi á því, hver höfuðnauðsyn þetta er, þá hygg jeg að þetta eigi beinlínis rót sína að rekja til skorts á þjóðrækni. En hvort sem heldur er, þá kemur það okkur óþyrmilega í koll, hversu við förum gálauslega að ráði okkar í þessu efni. Jeg hefi athugað, hve mikið var flutt inn af mjólk og garðávöxtum og þessháttar árið 1926, og jeg komst að þeirri niðurstöðu, að töluvert hátt á aðra miljón króna hafði runnið út úr landinu fyrir þessar vörur. Ætli að það hefði nú ekki verið svolítið hagkvæmara búskaparlag, að þetta fje hefði runnið til innlendra framleiðenda, í stað þess að það hefir farið út úr landinu.