02.04.1929
Neðri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í C-deild Alþingistíðinda. (3166)

96. mál, lyfjaverslun

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg veit vel, að heilbrigðisstjórnin gefur út lyfjaskrá eða taxta en jeg veit jafnframt, að það er ekki nema hámarksverð, og að lyfjabúðirnar geta haft mikinn gróða samt, því þegar hámarksverð er sett, er það ekki lægsta verð, sem hægt er að selja fyrir. Jeg fæ því ekki sjeð, að með frv. þessu sje skotið yfir markið.

Þá virtist mjer eins og hv. þm. N.-Ísf. gera ráð fyrir, að ef frv. þetta yrði samþykt, þá myndi hver hreppur fara að reka lyfjabúð. En jeg geri alls ekki ráð fyrir því, að heimildin yrði notuð svo alment. Jeg gæti þvert á móti búist við, að lyfjabúðunum fjölgaði ekki mikið frá því sem nú er. En þrátt fyrir það mundi það fyrirkomulag, sem stungið er upp á í frv., vera hentugt og tryggja hæfilegt verð lyfja, með fram vegna þess, að lyfjabúðirnar gætu annars átt von á samkepni.

Jeg held, að hv. þm. N.-Ísf. geri alt of mikið úr kostnaði lyfjabúðanna. Jeg hefi kynt mjer þetta mál talsvert og leitað mjer um það fræðslu hjá sjerfræðingi. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, þarf ekkert stórfje til að útvega öll nauðsynlegustu lyf, þó að það sje auðvitað fátækum manni, nýkomnum frá prófborði, ofviða að afla þess.

Hv. þm. (JÁJ) vildi gera lítið úr gróða lyfjabúðanna. Það getur verið, að þær hafi ekki allar mikinn ágóða. En sumar þeirra hafa ómótmælanlega grætt of fjár, og eitthvað af því fje væri betur komið í vösum sjúklinganna. Slíkur gróði hefir átt sjer stað víðar en í Reykjavík. Það er mjer fullkunnugt um.