09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

95. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Mjer þykir rjett, að hv. 2. þm. Árn. hefir dregið úr þessum fyrirvara sínum, sem mjer finst vera heldur óþarfur, þar sem ekki er farið fram á annað en að ríkisstj. sje heimilt að gera það, sem frv. fer fram á, og þess vegna hefði stuðningsmanni stj. verið alveg óhætt að láta málið frá sjer fara eins og sjútvn. felst á.

Jeg skal ekkert um það segja, hvað hv. 2. þm. Árn. hefir haft fyrir sjer, þegar hann hjálpaði til að fella frá nefnd málefni, sem snerti hagsmunamál þessa kaupstaðar, og jeg vil ekki fallast á, að sá kaupstaður sje nokkru ófærari að stjórna málum sínum en aðrir. (MT: Það sagði jeg alls ekki). Jeg hygg, að hv. þm. hafi ekkert haft fyrir sjer í því, heldur er hitt skiljanlegt, að þar sem sá hv. þm. hefir hjálpað til að gera sínu eigin kjördæmi erfiðara fyrir með öflun lífsþarfa sinna, þá er eðlilegt, að hv. þm. finni lítið til með öðru kjördæmi, — á jeg þar við brtt. landbn. um landbúnaðarbankann; jeg ætla að hv. 2. þm. Árn. hafi þar tekið þátt í því að hindra, að útgerðarmenn á Stokkseyri og Eyrarbakka, sem bæði stunda sjávarútveg og landbúnað, eigi aðgang að þeirri stofnun, en þeirri skoðun var haldið fram hjer í þessari hv. deild, og einkum af landbn., að það væri mjög sanngjörn krafa.