06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í C-deild Alþingistíðinda. (3260)

117. mál, skipun barnakennara og laun

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg get ekki verið að karpa lengur við hv. þm. V.-Húnv. um jafn sjálfsagt mál og þetta. Jeg vil aðeins geta þess, að þegar talað er um laun embættismanna, þá eru hreppstjórar og oddvitar aldrei teknir til samanburðar. Þeir starfa á líkan hátt og hreppsnefndir og bæjarstjórnir í kaupstöðum, sem vinna alveg kauplaust, en það sýnir einmitt best, hvað kjör barnakennaranna eru aumleg, þegar menn geta látið sjer detta í hug að taka þetta til samanburðar.

Smærri atriðin í ræðu hv. þm. V.- Húnv. get jeg látið mig litlu skifta, en vil þó taka það fram, að skólastjórar fá venjulega ekki ókeypis húsnæði nema við heimavistarskólana, en þeir eru, eins og allir vita, tiltölulega fáir. Algengastir eru heimangönguskólar, og skólastjórarnir við þá verða að sjá sjer sjálfir fyrir húsnæði.

Annars er það lítil huggun eftir slík andmæli, sem hv. þm. hefir haft, að benda á endurskoðun launalaganna. Mjer skildist á því tali hv. þm., að hann hugsaði eins og rómverski keisarinn, sem óskaði að höfuð þegna sinna væru öll komin á einn háls, svo að hann gæti höggvið þau öll af í einu höggi. Sú almenna endurskoðun launalaganna vekur ekki mikla von í mínu hjarta um fylgi þessa þm. Þeir hv. þm., sem munu fylgja þessu máli þá, gera það líka nú, og jeg vil ekki láta það bíða. Það verður að veita farkennurunum launauppbót, og það verður að gera það strax.