24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í C-deild Alþingistíðinda. (3316)

120. mál, refarækt

Jón A. Jónsson:

Jeg mun geta fylgt brtt. hv. landbn. á þskj. 363; þær eru að mínu áliti til bóta. Það verður að gera greinarmun á refaræktarbúum og eldi yrðlinga um stuttan tíma. Það geta ekki talist refabú, þó að aldir sjeu upp yrðlingar yfir sumartímann og fram á vetur og þá drepnir. Tilgangur refabúanna er sá að auka ræktun refa, bæta kynstofninn og auka verðmæti skinnanna. Í Canada, þar sem kynbætur refa hafa verið framkvæmdar um áratugi, eru skinn hinna heimaöldu refa um helmingi verðmeiri en viltra. Mjer er ekki kunnugt um, að sóst sje eftir refum hjeðan af landi til ræktunar; það er aðeins úrvalið, sem Norðmenn ætla að nota til kynbóta. Og markaður fyrir lifandi refi í Noregi er ekki til langframa; til þess að tryggja það, að gott verð fáist fyrir útflutt dýr til frambúðar, þá er nauðsynlegt að þau sjeu af góðum stofni, gallalaus og heilbrigð. Það er öllum vitanlegt, að af viltum refum, sem sendir eru út hjeðan, er ekki nema 10. eða 12. hvert dýr notað til kynbóta og ræktunar. Refaræktarmenn í Noregi hafa kvartað undan því, hvað þeir hefðu verið sviknir á þeirri vöru í fyrra.

Hv. 1. þm. N.-M. og tveir aðrir þdm. flytja brtt. á þskj. 377, um að ákvæði 3. gr. frv. komi ekki til framkvæmda á þessu ári. Vilja þeir fresta framkvæmd þeirrar ákvörðunar að útflutningur refa sje bundinn við refabú, sem starfað hafa 1 ár. Jeg sje ekki, að þessi brtt. sje sprottin af annari ástæðu en þeirri, að flm. sjeu hræddir um, að þeir, sem veiða refi á þessu vori, fái lægra verð fyrir þá en í fyrra. Það er enginn vafi á því, að Norðmenn reyna að ná sem flestum af þessum refum og senda þá út, til skaða fyrir okkur Íslendinga; og sá skaði verður margfaldur á næstu missirum við það, sem nú er.

Það er mjög ljelegt álit á íslenskum refum í Noregi. Það er sannanlegt samkvæmt brjefi frá bústjóra refaræktarbús í Noregi, að af 70–80 íslenskum refum, sem seldir voru í Noregi, voru 10–11 seldir sem grænlenskir refir, en hitt sem íslenskir refir. Nú er það vitanlegt, að enginn grænlenskur refur var fluttur hjeðan út í fyrra. Ef settar eru reglur um refabú, þá verða bestu dýrin höfð til undaneldis. Það hefir sýnt sig í Canada, að skinnin af ræktuðum silfurrefum eru meira en helmingi dýrari en af hinum viltu. Það er einstök smámunasemi, að setja þetta bráðabirgðaákvæði inn í frv.; það spillir fyrir refabúunum og hnekkir refarækt hjer á landi í framtíðinni, ef Norðmenn fá að vaða hjer uppi, og flytja út ljelega refi. Það eru ekki nema 1–5 refabú hjer á landi sem stendur. En hvað verður svo mikill markaður í Noregi á þessu ári? Jeg fullyrði, að hann verður ekki fyrir meira en 30–40 dýr, þau reyndust svo ljeleg í fyrra, að salan hlýtur að verða lítil í ár. Ef samþykt verður bráðabirgðaákvæðið um undanþágu á þessu ári, þá er hætt við, að refaræktarbúin fái að kenna á því. Og þegar litið er á hag allra landsmanna í þessu efni, þá skilst, að við getum ekki verndað hann betur á annan hátt en þann, að samþykkja strangar reglur um ræktun og útflutning refa og framfylgja þeim. Það er sjálfsagt, að búa með öryggi um þá staði, þar sem refirnir eru aldir. Á Breiðafirði eru margar eyjar, sem hættulaust er að geyma refi í. Í öðru lagi má víða byggja hús fyrir refi, sem auðvelt er að ganga tryggilega frá. Ræktun refa og kynbætur á þeim er líklegt að gefi mikinn arð. En ef þeir, sem búin reka, þurfa að reisa sjerstakar byggingar og dýrar vörslugirðingar fyrir refina, án þess að fá nokkra hjálp, þá er hætt við að búin kunni að leggjast niður vegna mikils tilkostnaðar.