24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í C-deild Alþingistíðinda. (3329)

120. mál, refarækt

Lárus Helgason:

Hv. þm. Borgf. þurfti að standa upp til þess að bera af sjer sakir, en jeg hefi ekki heyrt, að neitt hafi fallið til í þessari hv. deild í dag, sem gæfi tilefni til þess, enda varð líka lítið úr þeim sakarafburði. En aðalerindi hv. þm. var það, að fullyrða það, að jeg hefði komið með einhverjar fullyrðingar, sem hv. þm. var sjálfur með, en jeg þori hiklaust að bera það undir hv. deild og aðra, sem hjer hafa hlustað á, að jeg hefi ekki farið með neinar fullyrðingar, sem ekki eru á rökum bygðar. Jeg hefi fullyrt, og geri það enn, að það eru þeir menn, sem stofnað hafa refabú, sem hafa hækkað verðið á refunum, en ekki Norðmenn. Ber þess vegna að þakka Íslendingum, en ekki Norðmönnum, að refirnir hafa hækkað í verði. Hv. þm. má segja það svo lengi sem hann vill, að þetta sjeu fullyrðingar, jeg er ánægður með það, að þetta eru fullyrðingar, sem á rökum eru bygðar.

Hv. þm. (PO) endaði ræðu sína með því að veitast að þessum framfaramönnum, eða jeg tók það svo, að hv. þm. ætti við þá menn, sem hjer eru staddir í bænum og hafa lagt stund á þessa atvinnugrein. Hann var að endurtaka illyrði sín til þeirra, og herti nú á með því að segja, að þeir hafi farið að þingmönnum í þessu máli með illu og góðu, til þess að fá því framgengt, sem þeir æskja. Jeg tel það mjög óheppilegt, að hv. þm. skuli leyfa sjer að slá þessu fram, því að þetta eru ljótar fullyrðingar um þá menn, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sjer á þessum stað. Ef þessir menn hefðu rjett til að bera af sjer sakir hjer í deildinni, þá hefðu þeir haft fulla þörf til að standa upp og bera af sjer sakir. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þd. muni telja þetta ómaklega og illa mælt af háttv. þm. Borgf., og jeg býst við, að hv. þm. verði straffaður með því, að till. hans verði feld, sú sem hann ber mest fyrir brjósti.