18.05.1929
Neðri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í C-deild Alþingistíðinda. (3436)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Jóhann Jósefsson:

Það er ekki vert að eyða miklum tíma í að tala um þetta mál, þegar önnur deild þingsins er þegar hætt störfum í þetta sinn. Jeg hefði heldur ekki kvatt mjer hljóðs, ef ekki hefðu komið þessar staðlausu ásakanir hæstv. dómsmrh. í garð minni hl. sjútvn., að við hefðum tafið málið með óþarfa málæði og skömmum.

Þegar mál þetta kom til 1. umr., ætla jeg, að jeg hafi talað einu sinni. í fyrra þagði jeg, en þá var þögn mín þýdd á þann veg, að hún væri ekki sæmandi, og því ljet jeg nokkur orð falla við 1. umr. nú.

Í nefndinni varð engin töf á málinu, því að meiri hl. var þegar staðráðinn í að fallast á till. hv. 1. þm. S.-M.

Við 2. umr. málsins lýsti hv. frsm. meiri hl. afstöðu þeirra meiri hl.-manna í langri ræðu, og jeg mun hafa með nokkrum orðum skýrt skoðun minni hl., og tók þá einmitt fram, að jeg teldi ástæðulaust að fjölyrða um þetta mál. Svo segir hæstv. dómsmrh., að við tefjum málið með málæði og skömmum.

Hann vill auðsjáanlega láta þetta mál vera síðasta mál deildarinnar í þetta sinn, og nota það til þess að svala sjer á okkur andstæðingum hans.

Þá átaldi hæstv. ráðh. (JJ) mjög ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), en hann mun taka sjálfur til andsvara, ef honum þykir þörf á.

Hæstv. ráðherra sagði, að það væru aðeins fulltrúar útgerðarinnar, sem væru andvígir þessu máli, öllum öðrum væri ljós nauðsyn þess, að koma á slíku eftirliti. Meðal þessara „annara“ hlýtur þá einnig að vera hæstv. ráðh. sjálfur, því að svo oft hefir hann talað fyrir þessu máli, að hann ætlast víst til að vera tekinn alvarlega.

En þá er spurningin: Hvers vegna hefir hæstv. ráðh. ekki notað heimildir gildandi laga til þess að hafa eftirlit með loftskeytum? Í lögum frá 14. nóv. 1917, 4. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Innan íslenskrar landhelgi og á Íslandi má aðeins að fengnu leyfi ráðuneytisins og með þeim skilyrðum, sem leyfið ákveður, setja upp og nota stöðvar eða annan útbúnað til þráðlausra firðviðskifta.“

Samkvæmt þessum lögum er sett reglugerð frá 17. maí 1918, og segir svo í 19. gr. hennar, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðuneytið getur bannað öll loftskeytaviðskifti innan íslenskrar landhelgi, bæði frá íslenskum og erlendum skipum, og gert þær ráðstafanir, er nauðsynlegar þykja til þess að banninu verði hlýtt. Einnig getur ráðuneytið látið hafa eftirlit með öllum loftskeytum, og látið stöðva þau skeyti, sem að þess áliti geta verið skaðleg velferð landsins.“

Hæstv. ráðh. sagði, að svo mikil brögð væru að misnotkun loftskeytanna, að það væri okkur bæði til skammar og tjóns út á við. Þarf ekki að leiða mörg rök að því, að ef stjórnin hefir þvílíka skoðun á þessu, kemst það undir ákvæði þau úr reglugerðinni frá 1918, er jeg las upp.

Manni verður því á að spyrja: Er hæstv. ráðh. alvara í þessu máli, þegar hann lætur lagaákvæði, sem komið geta að fullum notum, ónotuð, og lætur frv. þetta daga uppi, rjett að gamni sínu? — Því að vissulega gat það komið fyr til umr. en á lokadegi þingsins. — Engin hætta er á því, að málalið ráðherrans hefði beitt sjer gegn því, ef hann hefði óskað, að það kæmi fyr fram.

Það er ekki meining minni hl. að beita sjer gegn þessu frv., í skynsamlegri mynd, en hann hefir talið sjer skylt að vekja athygli á skaðlegum ákvæðum þess.

Þetta gerðum við í fyrra, og þá tók hæstv. ráðherra athugasemdir okkar til greina. Það sýnir frágangur frv. nú. Og áður en mál þetta kemur fyrir næsta þing, mun hann einnig hafa fært sjer í nyt athugasemdir okkar á þessu þingi.

Við höfum lagt til, að 6. gr. frv. verði feld niður. Hæstv. ráðh. viðhafði þau orð um andstöðu okkar gegn 6. gr., að það væri sökum þess, að við fyndum, að þar væri kjarninn, og því legðumst við á móti henni. 6. gr. er þess efnis, að ef sterkar líkur benda til þess, að útgerðarstjóri eða skipstjóri hafi notað loftskeyti í óleyfilegum tilgangi, — „þá skal dómsmálaráðuneytinu heimilt að svifta útgerðarstjórn eða skipstjórnarmenn er hlut eiga að máli, rjetti til loftskeytaskifta milli lands og veiðiskipa, nema undir eftirliti“ o. s. frv.

Þessu atriði höfum við áður lýst yfir, að við getum ekki fylgt. Þær sterku líkur, eða grunur, geta komið fram af rógi um ákveðinn skipstjóra eða útgerðarmann, og þarf ekki mikið til að koma slíkum orðrómi á. Ráðuneytið þarf sem sje engar sannanir, heldur bara það, sem að þess dómi, t. d. að dómi núv. dómsmálaráðherra, eru „sterkar líkur“. Væri þá hægt að svifta hlutaðeiganda þessum rjetti, ef til vill algerlega að ástæðulausu.

Það er augljóst, að um leið og slíkt væri gert, væri stór blettur fallinn á þann mann, sem fyrir því yrði, í augum almennings, og það væri alveg lagt á vald dómsmálaráðherra, hver svo sem það væri, að láta viðkomandi mann verða fyrir slíku aðkasti. Mjer þætti nú fróðlegt að vita, og leyfi mjer að varpa þeirri spurningu fram, hvaða ráðherra í siðuðu landi mundi verða til þess, annar heldur en núverandi dómsmálaráðherra á Íslandi, að fara þess á leit við löggjafarþingið, að honum sje veitt leyfi til að beita hegningarákvæðum án dóms og laga. Það er sem sje ekkert annað, sem farið er fram á í þessari grein. „Sterkar líkur“ einar eiga að nægja til þess að ráðuneytið geti gert menn ómynduga um notkun sinna eigin loftskeytatækja. Jeg hygg, að þess muni yfirleitt engin dæmi í siðuðum löndum, að dómsmálaráðherra fari fram á það við löggjafarþingið, að það veiti honum slíkt vald, enda ekki líklegt að slík hugsun fæðist nema í sjúkum heila. Það er samskonar siðferðilegt innræti eins og það, að geta fengið af sjer að elta menn látlaust með ófrægingum, þótti þeir sjeu búnir að afplána sína sektir, og að hafa í hótunum við menn fyrir að láta í ljós skoðanir sínar. Hugsanagangur hæstv. dómsmálaráðh. er því miður oft nokkuð frábrugðinn því, sem gerist hjá andlega heilbrigðum mönnum, ef dæma má eftir ræðum hans og ritum, orðum hans og athöfnum.

Það er þessi vankaði hugsanagangur, sem valdið hefir því, að ráðherrann vill láta þingið samþykkja óskorað vald honum í hendur, til að beita ákvæðum þessa frv. eins og honum sýnist, án dóms eða laga.

En skyldi það ekki ávalt ganga treglega, honum eða öðrum, að komast svo langt með Alþingi Íslendinga.

Jeg ætla þess vegna algerlega að vísa á bug þeim ásökunum, sem gerðar hafa verið á hönd okkar minnihluta-manna, að við höfum reynt að tefja fyrir þessu máli. Hæstv. ráðh. ætlar sjer sjálfsagt að hafa það á prjónunum næsta ár, og er þá leikurinn í þetta sinn auðsjáanlega til þess gerður, að málinu geti ekki orðið lokið á þessu þingi.