18.03.1929
Efri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í C-deild Alþingistíðinda. (3455)

72. mál, einkasala á saltfiski

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta frv. hefir nokkrum sinnum verið fyrir þinginu áður, eða að minsta kosti nokkrum sinnum fyrir þessari hv. deild, en það hefir gengið treglega að vinna því það fylgi, sem nauðsynlegt er til þess að það getið orðið að lögum og komið til framkvæmda, svo sem eðlilegt væri.

Þetta er eitt af stærri málunum, og kannske hið stærsta, sem fyrir þinginu liggur, því það fjallar um sölu á höfuðútflutningsvöru landsmanna, sem um undanfarin ár hefir verið um 60% af öllum útflutningsvörum, og að krónutali farið upp yfir 50 milj. á einu ári. Það er þess vegna eðlilegt, að slíkt stórmál þurfi nokkuð að undirbúa, að hugir manna þurfi að venja sig við umr. um það áður en menn geti fallist á það. Það er svo um flest stórmál, að þau þurfa að vera nokkuð lengi á döfinni, enda verða þau þá betur undirbúin.

Í annari grein þessa atvinnuvegar, síldarútgerðinni, hefir á síðustu árum verið leitað til löggjafarvaldsins um aðstoð til að koma lagi á söluna. Árið 1921 var gerð tilraun til þess, og einnig 1926, og á þinginu 1928 voru síðan samþykt lög, sem framkvæmd voru á sama ári, um útflutning á síld. Þetta mætti kannske kalla lögþvingaða samvinnu, en hvernig tókst svo framkvæmd á þessu? Það fór svo, að enginn maður tapaði á síld síðastliðið ár. Það eru þau stóru tíðindi, sem hafa gerst í þeim útvegi, og það hefir sennilega aldrei komið fyrir áður í sögu síldarútgerðarinnar. Aftur á móti er önnur þjóð, Norðmenn, sem veiðir mikið af síld hjer við land, þeir munu hafa tapað á síðastliðnu ári. En þegar þeir sáu, að þeir ætluðu að tapa, munu þeir hafa hugsað til að reyna að mynda samtök um síldarsöluna, en sem ekkert varð úr, því að það er altaf svo, þegar þessir útgerðarmenn ætla að fara að mynda samtök með sjer, þá eru altaf nógir til að svíkjast undan merkjum, af því að þeir hugsa sem svo: Mig varðar ekkert um hina; jeg er ánægður, ef jeg get selt mína síld. Svona hugsa menn, og þess vegna er nauðsynlegt að þvinga menn til slíkrar samvinnu. Það þarf ekki að fjölyrða mjög um það, hve miklu það skiftir landsmenn, að afurðasalan fari vel úr hendi.

Það má segja um kjötið, að nokkuð hafi tekist í frjálsri samvinnu að selja það, en það verður altaf öðruvísi um sjávarútveginn; þar baukar hver í sínu horni, og þó að sæmilega hafi gengið síðustu tvö árin með saltfiskssöluna, má ekki láta hlekkjast af því. Þegar keppinautar okkar fiska illa, eins og t. d. við Newfoundland í fyrra, þá fáum við auðvitað sæmilegt verð, en þegar erfiðleikar eru á hjá okkur, þá hafa fiskkaupmenn hjer farið í reglulegt kapphlaup niður á við með verðið, og þá segja þeir flestir, sem talað er við: Þegar boðnir eru niður fyrstu farmarnir á vorin, þá þýðir það lágt verð á þess árs framleiðslu, nema eitthvað alveg sjerstakt komi til, mikill skortur á fiski í framleiðslulöndunum eða annað, sem gerir það, að verðið hækkar aftur, því að samtök eru nokkur milli þeirra, sem af okkur kaupa.

Þeir menn, sem hafa fengist við fiskverslun hjer, vita, að gerðar hafa verið tilraunir til frjálsrar samvinnu um þessa afurðasölu. Fyrst var hjer myndaður svokallaður Copelandshringur, sem endaði með skelfingu og var nærri búinn að setja annan bankann okkar á höfuðið, enda vafasamt, að hann bíði þess nokkru sinni fullar bætur, því að það voru svo margar miljónir, sem töpuðust á því, að þeir ætluðu að halda fiskinum í háu verði, það var kominn slíkur „spekúlations“-andi yfir þá í fiskhringnum, en ekki hugsað um að koma fiskinum út í tæka tíð, svo að menn slyppi skaðlausir. — Á eftir voru í nokkur ár engin samtök um þetta, og salan gekk erfiðlega.

Þegar leið fram á árið 1925 var farið að leitast til við landsstjórnina, en á bak við þingið, að hún fyrirskipaði mönnum að ganga í samvinnu um söluna, en þeir urðu aldrei nógu margir, sem fengust til að vera með, en upp úr þessu myndaðist þó samvinna, sem kölluð var „Litla bandalagið“, sem líklega er starfandi enn í dag. Það voru nokkrir fiskframleiðendur, sem tóku sig saman um að selja í sameiningu, en það verður aldrei verulegt gagn að slíku, þegar svo margir eru fyrir utan samtökin.

Svo var ein samvinnutilraun útgerðarmanna, þegar þeir mynduðu fjelag með sjer og fólu einu fjelagi að fara með alla söluna. En þetta lánaðist heldur illa, enda ekki nærri allir í þessari samvinnutilraun.

En þessu væri ekki til að dreifa, ef ríkið hefði alla söluna, því þá væri ekki annað að leita, og þá myndu kaupendurnir koma alveg á sama hátt og síldarsölumennirnir sænsku, dönsku og kannske finsku, komu til síldareinkasölunnar og keyptu af henni framleiðslu landsmanna. Það eru því skynsamlegar líkur fyrir því, að þessi sala geti gengið vel. Jeg skal játa það, að þetta frv. eitt út af fyrir sig nær ekki nógu langt. Hjer er að tala um sölu á saltfiski til útlanda, söltuðum og veiddum hjer við land, en það er gert ráð fyrir því, að ríkið eða þeir menn, sem ríkið skipar til þess, taki við fiskinum og selji fyrir framleiðendurna sem umboðsmenn þeirra, en það er ekki girt fyrir það, að fiskverslunin innanlands blómgist ekki eins og áður, þannig að þeir, sem fiskinn afla, fái ekki sitt fulla verð fyrir hann. En það þarf að koma því svo fyrir, að smærri útgerðarmenn geti fengið lán út á sinn afla, eins og hinir stærri, og spor í þessa átt er frv. það um veðlánasjóð fiskimanna, sem hjer liggur fyrir þessari hv. deild, því ef fiskimenn okkar ættu ekki kost á að geyma sinn afla og fá lán út á hann, svo að þeir geti staðist kostnaðinn við útgerðina, þá myndu þeir neyðast til að selja hann nýveiddan eða upp úr saltinu, og þá fengju þeir ekki hagnaðinn af sölunni, heldur rynni hann til þeirra manna, sem væru milliliðir milli þeirra og ríkisins. Það yrði alveg eins og með síldarsöluna í sumar, þeir, sem höfðu „plönin“, fengu mikinn ágóða, en þeir, sem síldina veiddu, ekki, af því að einkasalan úthlutaði milliliðunum söluverðinu.

Til þess að benda á nokkra af þeim mönnum, sem hafa talað um agnúana á söluaðferðinni hjá okkur, skal jeg m. a. nefna Gunnar Egilsen, næstsíðasta fulltrúa okkar á Spáni. Það hefir verið skrifað um málið í blað fiskimanna, „Ægir“, og þess líka getið í sambandi við umr. þessa máls á þingi, og fleiri hafa tekið þar í sama streng, svo sem Matthías Þórðarson, fyrrum ritstjóri „Ægis“, og P. A. Ólafsson, ræðismaður. Þessir menn hafa bent á nauðsyn á meiri samtökum, en vilja fara misjafnlega langt, hygg jeg að tveir þeirra hafi fallist á að ríkið tæki að sjer söluna, en sendimaður okkar á Spáni mun hafa viljað frjálsa samvinnu meðal fiskkaupmanna hjer heima. En það er ekki hugsanlegt, að þeir geti orðið samferða, nema þeir verði þvingaðir til þess með lögum, því að sá hugsunarháttur er ekki til hjá þeirri stjett manna, sem versla með þessa vöru.

Þá er eitt atriði, sem skiftir afarmiklu máli fyrir fisksöluna og framtíð okkar. Það er útvegun nýrra markaða. Ríkið styrkir á hverju ári menn til að fara til þeirra landa, þar sem afurðir okkar eru ekki seldar, til að reyna að vinna þar markað fyrir þær, en það er tiltölulega lítið, sem hefir verið gert í því efni af útgerðarmönnum sjálfum; þeir munu að vísu hafa sent eitthvað til Suður-Ameríku, eftir tilvísun P. A. Ólafssonar, en það hefir samt verið gert mjög lítið af þeim, til þess að útvega nýja markaði, og stendur okkur það þó á mjög miklu. Við sjáum það best, hve bundnir við erum þeim þjóðum, sem taka við meginframleiðslu okkar, t. d. erum við svo bundnir Norðmönnum, að við verðum dauðhræddir, ef síldar-„spekúlantarnir“ norsku hrista hnefana framan í okkur og hóta því, að láta norska ríkið leggja háan toll á saltkjötið okkar. Og eins er með verksmiðjueigendurna norsku, þeir hóta okkur því, að ef þeir fái ekki að flytja inn eins og þeim sýnist af norsku verkafólki, þótt hjer gangi fjöldi manna atvinnulaus, þá skuli þeir láta stjórnina norsku leggja háan toll á saltkjötið okkar. Eins er með Spánverja, þeir ógna okkur með háum tolli á fiski okkar, ef við ekki gerum breytingar á lögum þeim um innflutningsbann á áfengi, sem við höfum samþykt, og við beygðum okkur. Menn þorðu ekki einu sinni undir samningunum að segja nei, og prófa, hversu mikil alvara stæði á bak við þetta; við ljetum undan, alveg skilmálalaust, en það sýnir, að við erum ekki frjálsir í okkar löggjöf, á meðan svo stendur á, að hver tegund framleiðslu okkar fer í eitt land, saltfiskurinn til Spánar, en saltkjötið til Noregs.

Norðmenn hafa gert miklu meira til að afla fiski sínum nýrra markaða, enda er nú svo komið, að norski fiskurinn er seldur víða um lönd, þar sem íslenski fiskurinn er ekki. Það má segja, að við þurfum að keppa við önnur lönd, Noreg, Newfoundland og England, svo að við getum ekki ráðið verðlaginu. Þetta er að vísu rjett, við getum ekki ráðið verðlaginu, en því getum við ráðið, að ekki sje verið að bjóða vöruna óhæfilega lágt. Við getum ráðið því, hve mikið hún er boðin niður, og að ekki sje verið að bjóða út heila farma, sem lækka verðið á allri framleiðslu okkar, sem svo nemur mörgum milj. króna á ári á allri framleiðslunni í lækkuðu verði. Og þó að við verðum að keppa við Norðmenn um fisksöluna, og enda Englendinga líka, þá höfum við betri fisk á boðstólum. Nú mætti máske segja sem svo, að þetta gæti breyst, áður en langt um liður, en það er mjög vafasamt, því að við höfum í einu atriði betri aðstöðu til fiskverkunar en þeir, sem vart verður af okkur tekin. Á jeg þar við hið ágæta, svala loftslag hjerna, sem gerir það að verkum, að útiþurkaður fiskur verður fallegri og betri en hjá hinum þjóðunum. Þetta atriði gerir okkur samkepnina mun auðveldari.

Að lokum vil jeg benda á það, að ekki alllítill hluti íslensku fisksölunnar er í höndum útlendra fiskikaupmanna. Er það atriði, sem í þessu sambandi er mikils vert. Spánskir og enskir fiskkaupmenn færa sig stöðugt upp á skaftið og sölsa sífelt meira og meir af fisksölunni undir sig.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en vona að þetta frv. mæti góðum undirtektum hjer í þessari hv. deild. En enda þótt að þetta mál ætti eiginlega heima í fjhn. sökum þess, hve mikið fjárhagsmál það er, þá vil jeg þó, vegna þess, hvers eðlis það er, gera það að tillögu minni, að því verði vísað til sjútvn., að lokinni þessari umr.