11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

86. mál, sala á Laugalandi í Reykhólahreppi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. fer fram á, að ríkisstjórninni sje heimilt að selja Reykhóla-, Geiradals- og Gufudalshreppum í Barðastrandarsýslu jörðina Laugaland í Reykhólahreppi. Kaupendurnir hafa síðan í hyggju að skifta á þessari jörð og parti úr jörðinni Reykhólum. Það er kunnugt, að undanfarin ár hefir verið allmikið um það rætt þar vestra, hvar og hvernig ætti að útvega læknisbústað fyrir þetta hjerað. Í fyrra lá fyrir þinginu frv. um að taka eignanámi part úr Reykhólum, en það náði ekki fram að ganga. Síðan hafa aðilar samið um það, að læknishjeraðið fái ákveðinn skika úr Reykhólalandi, gegn því, að eigendur Reykhóla eignist þar á móti jörðina Laugaland. Þetta er gert til þess að útvega hjeraðinu læknisbústað. Hagar svo til, að land Laugalands liggur að landi Reykhóla, og ef þetta nær fram að ganga, munu eigendur Reykhóla leggja Laugaland undir Reykhóla. Til þess að enginn geti álitið, að eigendur Reykhóla auðgist við þessi skifti, hafa aðilar komið sjer saman um að láta meta hvorttveggja, og greiði þá hvor um sig mismuninn til hins, eftir því sem matið segir til.

Allshn. hefir orðið ásátt um að mæla með þessu frv., en þess skal getið, að hv. 2. þm. Ám. (MT) var ekki viðstaddur, þegar ályktun var tekin um málið í nefndinni, svo að vera kann, að hann hafi sjerstöðu til frv. Sömuleiðis skrifaði hv. 2. þm. Reykv. undir nál. með fyrirvara, sem hann sjálfsagt gerir grein fyrir.