03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (3593)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Hannes Jónsson:

Það eru þegar orðnar alllangar umr. um þetta mál, og er það ekkert undarlegt, því að miðin eru mörg og allir, sem hagsmuna hafa að gæta, vilja vernda þau gegn ágangi togaranna. Verður vonandi hægt að bæta alla landhelgisgæsluna að miklum mun, þegar stóru varðskipunum fjölgar. Jeg ætlaði sjálfur að bera fram brtt. um aukna landhelgisgæslu á Húnaflóa, því að hennar er full þörf, en sökum þess að jeg treysti mjer ekki til að gera till. um það, á hvern hátt aukinni landhelgisgæslu yrði best fyrir komið þarna á flóanum, hefi jeg beðið um upplýsingar frá kunnugum mönnum, sem jeg býst við að fá í dag eða á morgun. Jeg vil því leyfa mjer að óska eftir, að hæstv. forseti fresti umr. og taki málið út af dagskrá, svo að mjer gefist tækifæri til að bera fram brtt., sem sje bygð á kunnugra manna umsögn, um það, hvort heppilegra myndi að fjölga ferðum hinna stærri gæsluskipa inn á flóann, eða hafa þar að staðaldri smábát, eða báta, yfir sumartímann og haustmánuðina, eins og á Faxaflóanum. Sjái hæstv. forseti sjer ekki fært að verða við þessum tilmælum mínum, mun jeg bera fram skriflega brtt. um, að gæslubátur verði hafður á flóanum þessa mánuði ársins, en vil þó taka það fram, að verði till. samþ., tel jeg sjálfsagt, að hæstv. stj. framkvæmi þessa landhelgisgæslu á annan hátt, ef hagkvæmara þætti, en kæmi þó ekki að minni notum fyrir landhelgisgæsluna á flóanum.