08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (3670)

104. mál, fiskimat

Jón Ólafsson:

Jeg vil taka undir það með hv. flm., að ekki er vanþörf á að endurskoða fiskimatslögin, svo að við getum fylgst með kröfum neytendanna á þessu sviði. En um leið vil jeg benda á, að ákvæði laganna og reglugerðarinnar frá 1922 eru altaf þverbrotin. Þar er svo ákveðið, að fiskimatsmenn eigi að fylgjast með í vöruvöndun og meðferð fiskjar, en það hafa þeir látið undir höfuð leggjast, sjálfsagt af því að það hefir þótt kosta of mikið fje. Jeg verð að segja það, að mjer finst vafasamt, að nokkuð þýði að herða á ákvæðum matslaganna, meðan vöruvöndun er svo forsómuð sem nú á sjer stað, því miður.

Jeg skal ekki fara út í það, sem hv. 1. þm. S.-M. taldi aðalatriðið, að einn maður ætti að samræma matið um land alt á þessu mismunandi stigi fiskverkunarinnar. Jeg held, að það yrði hverjum manni ofvaxið og kæmi ekki að liði. Hinsvegar get jeg fallist á, að gott sje að senda menn til Spánar, til að kynnast þeim kröfum, sem neytendur gera til vörunnar. Okkur er að fara aftur í vöruvöndun, og hrakfarir okkar liggja fremur í því, að ekki hefir verið vandað til vörunnar frá fyrstu hendi en að ákvæði matslaganna hafi ekki verið nógu ströng.