18.05.1929
Efri deild: 74. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (3732)

142. mál, dýralæknissetur í Vestfirðingafjórðungi

Flm. (Halldór Steinsson):

Jeg hefi nú ekki getað sannfærst af ræðu hæstv. dómsmrh. um nauðsyn þess að flytja dýralækninn frá Stykkishólmi til Borgarness. Ráðh. talaði um ýmsar ástæður, svo sem góða vegi og örar samgöngur til Borgarness. Jeg get nú ekki talið þetta sjerstaklega veigamiklar ástæður, því að nú er kominn bílvegur til Stykkishólms, og myndi því litlu muna fyrir syðri hluta umdæmisins að vitja læknisins þangað. Og hinu verður alls ekki neitað, enda gerði ráðh. enga tilraun til þess, að í Stykkishólmi er læknirinn margfalt betur settur fyrir þá, sem búa vestan megin Breiðafjarðar. Hitt hygg jeg hafi verið aðalástæða flutningsins, að setja dýralækninn á þann stað, sem hann gæti kent við Hvanneyrarskólann í viðlögum. Við það hefi jeg í sjálfu sjer ekkert að athuga; það getur verið nauðsynlegt að gefa bændaskólunum kost á slíkri kenslu. En hinsvegar finst mjer tæplega mega offra svo miklu fyrir það, að taka dýralækni eins fjórðungsins og setja hann svo að segja í annað hjerað. Jeg verð að telja slíkt óforsvaranlega harðýðgi, enda gæti komið til athugunar, hvort ekki væri rjett að setja sjerstakan mann til þessarar kenslu við skólann, en láta dýralækninn sitja þar áfram, sem hentugast er fyrir hjeraðið.