17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (3807)

134. mál, Borgarnesbátur

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg skal vera stuttorður um þessa till., sem er borin fram og flutt eftir eindregnum beiðnum á kjósendafundum, sem jeg hjelt síðastl. vetur, og sem eru sprottnar af hinni miklu samgönguþörf, sem er á milli þessara hjeraða, Borgarfjarðar og Mýra annarsvegar, en Reykjavíkur hinsvegar, því eins og kunnugt er, þá eru þessar sýslur taldar með bestu landbúnaðarhjeruðum landsins, og hefir þar því verið mikil þörf fyrir góðar og greiðar samgöngur við höfuðstað landsins. En aftur á móti finst mjer, að það skip, sem hefir haft þessar ferðir, sje að verða nokkuð ófullkomið og á eftir tímanum, enda má búast við, að það falli úr sögunni þá og þegar, vegna aldurs og kostnaðar.

Það, sem liggur til grundvallar fyrir þessu, er þó ekki síður hin mikla breyt., sem orðið hefir á samgöngum landsins hin síðari árin. Bílsamgöngur hófust yfir Holtavörðuheiði fyrir alvöru síðastl. sumar, sem kunnugt er, og með áframhaldandi vegabótum fara þær vitanlega sífelt í vöxt. Af þessum ástæðum gerbreytast samgöngur yfir sumartímann á milli þessara hjeraða og Reykjavíkur í náinni framtíð. Það liggur nokkurnveginn í hlutarins eðli, að þegar sæmilegar samgöngur eru komnar á milli Norðurlands og Borgarness, Stykkishólms og Borgarness, Dalasýslu og Borgarness, þá eru svo margar sýslur komnar í beint vegasamband við það kauptún, að mikill fólksstraumur hlýtur að liggja um það áleiðis til Reykjavíkur. Þetta hefir það í för með sjer, að það krefur miklu örari samgangna milli Borgarness og Reykjavíkur, og þegar það er ráðið, að komið verði upp góðri höfn með hafskipabryggju í Borgarnesi, þá er það sjálfsögð afleiðing, til þess að hún komi að fullum notum, að samgöngurnar á sjó komist í betra horf og fullkomnara; virðist þá eðlilegast, að skipaferðir á milli Borgarness og Reykjavíkur geti orðið að minsta kosti annanhvern dag að sumrinu til. Þá eru sumarsamgöngurnar milli Norðurlands og Vesturlands annarsvegar og Reykjavíkur hinsvegar komnar í það horf, að í náinni framtíð er ekki hægt að gera ráð fyrir, að þær verði betri, að minsta kosti ekki fyr en að því líður, að Reykjavík komist í beint vegasamband við Norðurland, en sem gera verður ráð fyrir, að taki nokkur ár ennþá. Það er hugsað um það, að þetta skip verði kannske ekki nema um 200 smál., vegna þess hve ferðirnar verða tíðar, sem gerir það hægt, að skipið verði minna, eða að minsta kosti minna lestarrúm. Það má búast við því, þegar höfn er komin í Borgarnesi með hafskipabryggju, að bæði skip Eimskipafjelagsins og önnur komi með vörur þangað uppeftir, og eru þá aðeins eftir daglegu ferðirnar og fólksflutningar, sem þarf að sjá fyrir.

Jeg geri ráð fyrir, að taka verði tillit til ýmsra hluta í sambandi við smíði þessa báts, m. a. þess, að hann geti flutt á þilfari svo sem 3–4 bifreiðar, svo að hægt verði að ná bifreiðasambandi við Norðurland fyrir þá, sem vilja ferðast í sínum eigin bíl á sumrum. Sömuleiðis má gera ráð fyrir, að þyrfti að vera ofurlítið kælirúm í skipinu, til þess að hægt væri að flytja nýjan lax og kjöt frá hjeruðunum í kringum Borgarnes, og auk þess ýmislegt fleira, sem verður að miðast við framtíðarástæður hjeraðsins, og verður auðvitað að rannsaka alt þetta nákvæmar, þegar farið verður að athuga um smíði þessa skips.

Jeg býst nú við, að það hrjósi mörgum hugur við, að ríkið legði fje til að byggja skip eins og þetta, sem ekki hefði stærra svæði til yfirferðar, en menn, sem eru kunnugir þessu máli, hafa fullyrt það við mig, að það kæmi ekki til nokkurra mála, að skipið myndi ekki, ef því væri haganlega haldið úti, fyllilega halda uppi bæði rekstrarkostnaði og afborgunum af því fje, sem til þess færi, svo að það þyrfti ekki að verða baggi á ríkissjóði; og jeg trúi því fyllilega. Það hefir verið stungið upp á því, og mjer finst það hyggilegt, að hafa skipið með Diesel-vjel, sem mundi gera það ódýrara í rekstri.

Það mætti vitanlega taka ýmislegt fleira fram í sambandi við þetta, en jeg vona, að jeg hafi nú tekið fram höfuðástæðurnar fyrir þessu máli, og vænti þess, að hv. deild sýni því velvilja og lofi málinu að ganga í gegnum deildina.