18.03.1929
Neðri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Haraldur Guðmundsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 124, sem gengur í þá átt, að bæjarstjóri eða borgarstjóri skuli jafnan eiga sæti í föstum nefndum og vera form. þeirra, hvort sem hann er kjörinn bæjarfulltrúi eða eigi. Sje hann ekki bæjarfulltrúi, þá er hann í nefndunum sem aukamaður og hefir þar ekki atkvæðisrjett. Þetta virðist vera svo sjálfsagt, að ekki þurfi að fjölyrða um það. Bæjar- eða borgarstjórinn er auðvitað kunnugastur þeim málum, sem athuguð verða af nefndunum. Hann kallar fundina saman og þeir eru vanalega haldnir í skrifstofu hans.

Síðari liður till. er þess efnis, að ákveðið sje, að á sama fundi og fastar nefndir eru kosnar skuli einnig kjósa 2 endurskoðendur bæjarreikninganna og aðra tvo til vara. Skal bæjarstjórn ákveða laun þeirra og setja þeim erindisbrjef. Til þessa hafa endurskoðendur yfirleitt ekki haft erindisbrjef, sem ákveður rjettindi þeirra og skyldur, en mjer virðist sjálfsagt, að þeir hafi það, en sjeu ekki einskonar undirmenn bæjarstjórna, og er nauðsynlegt að bæta úr því sem fyrst. Það er nýmæli, að kjósa tvo varamenn, en það virðist sjálfsagt, því að altaf geta forföll komið fyrir. Jeg sje svo ekki ástæðu til að taka fleira fram og vænti þess, að hv. deild geti fallist á till. þessa.