20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Pjetur Ottesen:

Jeg er að vissu leyti undrandi yfir þeim brtt., sem komið hefir verið fram með við þetta frv. Jeg undrast það, að hv. þm. skuli bera fram till., sem miða að því áð taka sjálfsákvörðunarrjettinn af mönnum um það, hvernig haga skuli kosningu í nefndir. Það er svo hyggilega og sanngirnislega gengið frá lögunum, sem nú gilda um kosningar í bæja- og sveitamálefnum, að allir mega vel við una. Mönnum er það í sjálfsvald sett, hvort kosningin fer fram í heyranda hljóði, er leynileg eða viðhöfð er hlutfallskosning Eftir núgildandi lögum geta menn alveg valið um, hverja af þessum aðferðum skuli viðhafa í hvert skifti. í langsamlega flestum tilfellum fara slíkar kosningar fram í heyranda hljóði; hitt er miklu frekar undantekning, að kosið sje á annan hátt. Jeg man ekki eftir því, að nokkrar brtt. í þessa átt kæmu fram, þegar þessi lög voru endurskoðuð á þinginu 1926, og jeg hefi heldur ekki orðið var við óánægju út af þessum ákvæðum, hvorki fyr nje síðar. Jeg álít, að þessar brtt., er hjer liggja fyrir, sjeu því mjög varhugaverðar, og menn ættu að athuga þær vel áður en þeir greiða atkv. um þær. Með því að fyrirskipa, að kosningar í nefndir skuli vera leynilegar, þá leiðir af því vitanlega allmikla aukna fyrirhöfn við kosningarnar. Það þarf að útbúa seðla. Einnig þarf að haga svo til, þar sem kosning fer fram, að þar sje afhýsi, sem kosið er í, o. s. frv. En það, sem mestu skiftir í þessu sambandi, er það, að með þessu fyrirkomulagi myndi kosning taka mun lengri tíma en ella, og mjer finst það ónærgætni af þinginu, að þröngva svo tímafrekri kosningaraðferð upp á menn og að þeim nauðugum. Þetta eru þær aths., sem jeg hefi helstar að gera við ræðu hv. þm. V.-Húnv., en að endingu vildi jeg segja honum það, að hann virðist ekki hafa athugað, að þetta kosningafyrirkomulag nær ekki eingöngu til hreppsnefndarkosninga. Þar kemur og fleira til greina, því að fyrirskipað er, að kosningar í kynbótanefndir, fræðslunefndir og forðagæslunefndir skuli fara fram á sama hátt og kosningar í hreppsnefnd. Samkv. till. hans yrði því að kjósa leynilega í allar slíkar nefndir, en það mundi tefja tímann og auka stórum fyrirhöfnina. Jeg sje ekki, að þessi breyt. sje til annars en að auka fyrirhöfn og taka tímann frá bændum.

Þá er næst að víkja að hlutbundnu kosningunum. Þar hefir hv. þm. V.-Húnv. borið fram aðra brtt., er miðar að því, að nægilegt sje að 1/5 kjósenda heimti, að viðhöfð sje hlutfallskosning, og þá skuli það vera svo. Grundvöllurinn undir slíka kosningu er, að um ákveðna flokkaskiftingu sje að ræða, enda eru hlutfallskosningar hvergi fyrirskipaðar nema þar, sem svo er ástatt. Slíkar óskir manna er ekki hægt að taka til greina nema um svo stóran hóp sje að ræða, að hann geti haft möguleika til að koma að einum manni. Nú er það ákveðið, að í hreppsnefnd skuli eiga sæti 3, 5 eða 7 menn, en þá sjáum við það, að þessu er aðeins hægt að fylgja fram, ef um 5 menn er að ræða, en annars ekki, því þá raskast það.

Þá liggur hjer fyrir brtt. frá hv. 2. þm. Árn., sem gengur í þá átt, að kosningar í nefndir og til annara starfa, er sýslunefnd kýs, skuli ávalt vera hlutbundnar og leynilegar, ef fleiri en einn mann á að kjósa. Nú eru ekki til nein ákvæði um kosningar sýslunefnda, svo að þær geta haft frjálsar hendur með það, hvaða aðferð þær viðhafa. Þessi brtt. gengur því í sömu átt og brtt. hv. þm. V.-Húnv., að taka sjálfsákvörðunarrjettinn í þessu efni af sýslunefndum, en jeg álít það jafnástæðulaust og í hinu tilfellinu og bara til hins verra. (MT: Er þetta skerðing á sjálfsákvörðunarrjettinum?). Já, það er verið að taka sjálfsákvörðunarrjettinn af sýslunefndum um það, hvaða aðferð þær viðhafi við kosningar í nefndir og til annara starfa, og rígbinda þær við að viðhafa hlutfallskosningu í hvert skifti, sem kjósa á fleiri en einn mann. Og þetta á svona að vera, þó að fyrir hendi sje engin flokkaskifting, og þar af leiðandi enginn grundvöllur fyrir hendi til að byggja slíka kosningu á.

Hv. 2. þm. Árn. færði það fram sem höfuðrök fyrir þessari breyt., að sýslunefndir ættu að kjósa í landsdóm, en jeg verð nú að segja það, að af öllum þeim dauðu bókstöfum, sem við Íslendingar eigum, eru þó lögin um landsdóminn sá, er minst lífsmark er með, og því skiftir það sannarlega ekki miklu, hvaða kosningarathöfn er viðhöfð, þegar verið er að kjósa menn í þann dóm.

Um brtt. hv. þm. V.-Húnv. er það að öðru leyti að segja, að mjer hefir ekki unnist tími til að athuga þær eins vel og skyldi frá formsins hlið, en þó hygg jeg, að þær falli ekki að öllu leyti rjett inn í lögin, ef þær væru samþ. svona. í lögunum er gert ráð fyrir, að sýslunefndarmenn og vara- sýslunefndarmenn sjeu kosnir til 6 ára, en það hefir fallið niður í till. hans. Jeg vildi vekja athygli hv. þm. á því, að hv. þm. V.-Húnv. gerir ráð fyrir, að 21. gr. 1. um kosningar í málum sveita og kaupstaða falli niður, sem líka er rjett samkv. brtt. hans, en í 5. gr. brtt. segir, að kosning á varasýslunefndarmönnum skuli fara fram eftir 21.–26. gr. laganna. En þegar búið er að fella niður 21. gr., er auðvitað, ekki hægt að vitna til hennar. Jeg hefi nú verið að athuga þetta, en mjer hefir ekki tekist að finna samræmið milli 21. gr. laganna og 5. gr. brtt.