10.04.1929
Neðri deild: 41. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

16. mál, fjárlög 1930

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla að byrja á því að minnast á eitt atriði í ræðu hæstv. forsrh., þar sem hann svaraði ummælum hv. 1. þm. Reykv. um samband framsóknarmanna, og sósialista. Hæstv. forsrh. sagði, að Framsóknarflokknum væri stuðningur sósialista nauðsynlegur til þess að koma fram málum landbúnaðarins. Sem dæmi nefndi hann eitt mál, frv. um búfjártryggingar, sem varð að lögum á síðasta þingi. Nefndi hann þar til, að hv. 5. landsk. (JKr) hefði lagst á móti málinu, en hann var í þeirri n., er hafði málið til meðferðar. Jeg hefi nú, síðan hæstv. ráðh. talaði, athugað dálítið þær umr., sem fram fóru um þetta mál í Ed. í fyrra. Við þá athugun sje jeg, að andstaðan gegn frv. hefir verið bygð á því, að frv. væri ekki nógu vel undirbúið. Frsm. minni hl. (JKr), sem andmælti frv., talaði af mikilli velvild til málsins og skilningi á því. En hann vildi, að það fengi betri undirbúning. Á því var andstaðan bygð. Það vill líka svo vel til, að álit minni hl. studdist við það, sem fram kom um þetta mál á Búnaðarþingi 1927, því að þar var undirbúningi málsins talið mjög áfátt. Þetta var nú það, sem hæstv. forsrh. átti við, þegar hann talaði um andstöðu íhaldsmanna gegn þessu máli.

En sambandið milli framsóknarmanna og sósialista byggist á alt öðrum ástæðum. Á málum landbúnaðarins hafa aðrir meiri áhuga en sósialistar. En eins og allir vita, er einn tengiliður milli þessara tveggja flokka, og sá tengiliður er hæstv. dómsmrh. Þetta þýðir ekki að vera að reyna að dylja. öll þjóðin veit það. En hvarvetna stendur mönnum stuggur af þessu sambandi. Ýmsir leiðandi menn Framsóknarflokksins líta það alt annað en hýru auga, þó að þeir hafi ekki enn hrist þetta ok af sjer. Það er sama, hvernig reynt er að hjúpa sannleikann. Alstaðar skín í tengiliðinn gegnum umbúðirnar.

Því hefir nú og reyndar oft endranær verið nokkuð lýst, hvernig núv. hæstv. stj. hefir farið með völdin í þessu landi, síðan hún tók við stjórnartaumunum. Það liggur þó hvergi nærri við, að svo komnu máli, að sje þó hægt að fella endanlegan dóm yfir verkum hennar. Það er ekki hægt, fyr en því fortjaldi verður svift frá, sem nú hylur margt það, er gerist bak við tjöldin, sem engir aðrir vita um en þeir, sem innvígðir eru í hinn þrengsta hring stjórnarflokksins.

Það verður ekki annað sagt um þessa stj. en að hún fari gálauslega með opinbert fje. Þetta kemur fram meðal annars á mjög ábærilegan hátt í því, hvernig hún eys út fje á báðar hendur og verðlaunar með því sjerstakar pólitískar skoðanir. Þetta sjest best á hinum hraða vexti svokallaðra bitlinga, sem átt hefir sjer stað nú upp á síðkastið. Stefna stj. í þessu efni var greinilega mörkuð í afgreiðslu fjárl. á síðasta þingi, og þá kemur þetta ekki ógreinilegar í ljós í aðgerðum stj. milli þinga. Því fer fjarri, að hæstv. stj. telji sig að nokkru leyti bundna af ákvæðum fjárl. í þessu efni eða leggi á sig nokkrar hömlur til þess að fara eigi framar en þau ákveða. Þetta atferli byggist á þeirri sterku einræðistilhneigingu, sem alstaðar kemur fram í fari hæstv. stj. og best sýnir sig í því að hún hefir ekki vílað fyrir sjer að brjóta skráð lög landsins, svo að jeg ekki tali um hin óskráðu lög og viðteknar venjur, sem gilt hafa og bygð eru á drengskap og rjettlæti.

Jeg ætla nú að benda á nokkur atriði til sönnunar því, sem jeg hefi um þetta sagt. Þessi atriði sýna það, hvernig stj. hleður undir einstaka menn, og við það að athuga, hvert þetta fje fer, kemur það greinilega í ljós, að tilgangurinn helgar meðalið. Það, sem jeg nú minnist á, má þó eigi skoða nema sem örlítið brot þess raunveruleika, sem koma mun í ljós á sínum tíma í þessu efni.

Jeg ætla þá að byrja á að geta þess, að í fjárl. fyrir árið 1928 eru veittar 6 þús. kr. í utanfararstyrki. En jeg hefi fulla vissu fyrir því, að hæstv. stj. hefir varið á því ári a. m. k. 13500 kr. til slíkra styrkja, eða rúml. helmingi hærri upphæð en fjárl. heimila. Þessu fje er varið á ýmsa vegu. Nokkrir menn hafa fengið styrk til að kynna sjer skólamál. Má þar fyrst telja fræðslumálastjórann, sem hefir fengið 1000 kr. styrk til utanfarar, og skal jeg ekki beinlínis átelja það. En hæstv. stj. hefir ekki þótt nóg, að hann færi í þessum erindum, heldur hefir sr. Sigurður nokkur Einarsson, sem mun hafa verið frambjóðandi Framsóknarflokksins í Barðastrandarsýslu við síðustu kosningar, einnig fengið 1000 kr. til að kynna sjer skólamál, og hefir honum verið greitt í dönskum krónum eins og konginum! Þá hefir Sigurður Guðmundsson einnig fengið nokkurt fje, eða að minsta kosti 1200 kr., í þessu skyni.

Hallgrímur nokkur Þorbergsson, sem mjer hefir verið sagt, að væri bróðir ritstjóra Tímans, hefir nýlega fengið 1000 kr. til að rannsaka skólamál í Noregi.

Sigurður nokkur, sem sagður er sonur Ólafs Thorlacius, hins nýja aðstoðarlandlæknis, hefir fengið 500 kr. til að kynna sjer skólamál í Sviss. En ekki eru enn öll kurl til grafar komin.

Maður að nafni Sigurður Heiðdal var sendur út yfir pollinn til þess að kynna sjer háttsemi manna á letigörðum erlendis. Fjekk hann til þess 1000 kr. En í þessu efni hefir þótt mikils við þurfa, því að lögfræðingur, sem dvelur um þessar mundir í Þýskalandi, hefir og fengið 500 kr. til þess að kynna sjer þessa sömu fræði þar í landi.

Hermann Jónasson núv. lögreglustjóri í Reykjavík hefir fengið 2500 kr. til að ferðast í útlöndum, jeg veit eigi til hvers. En af því að hann tók við lögreglustjóraembættinu um svipað leyti, má ef til vill ætla, að hann hafi átt að búa sig undir það starf.

Þá hefir utanfararstyrkur verið veittur 2–3 mönnum í viðbót, sem mjer er eigi kunnugt um, til hvers hafa farið. Helgi nokkur Lárusson hefir fengið 1000 kr. og Brynleifur nokkur Tobíasson svipaða upphæð. Og ýmsir menn aðrir, stj. nákomnir, hafa fengið ríflegar upphæðir.

Hallbjörn nokkur Halldórsson — jeg held, að jeg fari rjett með nafnið —, sem einu sinni var ritstjóri Alþýðublaðsins, hefir fengið 1800 kr. af því fje, sem ætlað er fátækum iðnnemum til utanfara. Þetta fje er lítið, 4000 kr. alls, og venjulega hafa ekki verið veittir af því hærri styrkir en 500 kr. til hvers. Er því brugðið út af venjunni, þegar einum manni er veittur nærri helmingur upphæðarinnar, og hætt við, að einhverjir af þeim, sem raunverulega áttu að njóta þessa fjár, hafi borið skarðan hlut frá borði í þetta sinn.

Þá hefir Einar nokkur Einarsson, sem um eitt skeið var stýrimaður á Óðni, fengið allmikið fje til ferðalaga í útlöndum. Mun það nú orðið nema um 9000 kr. alls. Ekki veit jeg, hversu langur tími er liðinn, síðan hann hætti störfum á varðskipinu eða hve lengi hann hefir verið í ferðalögum, en allhá er þessi upphæð.

Þá hefir verið hafinn á ný undirbúningur nýrrar síldarverksmiðju. Hv. þdm. rekur sjálfsagt minni til þess, að Jóni Þorlákssyni var rjett eftir stjórnarskiftin í fyrra falin nokkur rannsókn í því efni. Mun hæstv. atvmrh. eigi hafa hlotið lítið aðkast fyrir þá ráðstöfun. Nú hefir nýr maður, Guðmundur Hlíðdal verkfræðingur, verið skipaður til rannsóknar að nýju. Skyldi maður ætla, að þeim einum hefði verið falið það verk, sem fær hefði verið um að leysa það af hendi upp á eigin spýtur. En svo virðist eigi vera, því að Guðm. Hlíðdal hefir orðið að fá norskan verkfræðing sjer til aðstoðar, og hafa þeim manni þegar verið greiddar 2500 kr. En það hefir heldur ekki reynst nóg, heldur hefir Þorkell Clementz verkfræðingur einnig verið kvaddur til hjálpar, og eru honum þegar greiddar í því skyni 2000 kr. Þarna eru komnar 6000 kr. Hjer er aðeins um að ræða byrjunarstarf, og eru þetta því sjálfsagt fyrstu greiðslur. Loks hefir þýskur maður einn, að nafni dr. Paul, fengið greiddar 1200 kr. fyrir upplýsingar, sem hann hefir látið stj. í tje um rekstur síldarverksmiðju. Þetta, sem hjer er nefnt, er aðeins tekið af handahófi, og þarf enginn að ætla, að hjer sjeu öll kurl komin til grafar.

Þá er alkunna, að fyrir utan það, sem jeg hefi nefnt, hefir stj. stungið drjúgum sneiðum að ýmsum flokksmönnum sínum og helstu gæðingum; hefir sumt af því áður verið birt opinberlega. Mun nú svo komið, að allir helstu forvígismenn sósíalista munu hafa fengið einhvern bitling, og þá er því og svo varið með allmarga af þingmönnum sjálfs stjórnarflokksins, að þeir hafa ekki allskostar farið varhluta af þessum gæðum.

Auk þessa hafa einnig hrotið molar af borði til ýmsra hinna smærri spámanna, og skal jeg nefna hjer nokkur dæmi.

Prentari nokkur, að nafni Steingrímur Guðmundsson, og mun vera bróðir hv. þm. Ísaf., ritstjóra Alþýðublaðsins, hefir fengið 1413 kr. fyrir aðstoð við undirbúning ríkisprentsmiðju.

Hannes nokkur Pálsson, frá Undirfelli í Húnavatnssýslu, hefir fengið 750 kr. fyrir vinnu við reikninga, en hvaða reikningar það eru, er mjer alls ókunnugt um.

Þá hefir Stefán Jóh. Stefánsson lögfræðingur ekki þurft að kvarta undan atvinnuleysi, og hefir hann fengið nokkrar þúsundir króna fyrir ýmiskonar málarekstur fyrir stj.

Ólafur Thorlacius fyrv. hjeraðslæknir hefir verið gerður að einskonar aðstoðarlandlækni, og hefir hann 6600 kr. í árslaun auk dýrtíðaruppbótar.

Þá væri synd að minnast ekki á sjálfan rannsóknardómarann yfir Íslandi, Halldór Júlíusson, sem ekki vildi láta konuna á Vestfjörðum sverja við nafn guðs, heldur við nafn borgara eins í Bolungarvík.

Það er sýnilegt, að stj. hefir þótt Halldóri Júlíussyni of þröngt markaður bás á Ströndum og hæfileikar hans gætu lítt notið sín í fásinninu norður þar. Hefir hann nú um hríð, svo sem kunnugt er, lagt land undir fót og farið víða á vegum stj., enda munu reikningar ríkissjóðs bera þess menjar. Mun þegar vera búið að greiða í þessu skyni um 25000 kr. (HK: Þetta er ljótt að heyra, ef satt er). Já, það er mikið fje, en það verður að gera ráð fyrir því, að afrek þessa manns sjeu líka mikil og haldgóð.

Þá hafa þeir Hallgrímur Hallgrímsson ígriparitstjóri Tímans og Guðm. Thoroddsen fengið 850 kr. fyrir að skreppa norður á Akureyri og vera við próf 4 skólapilta.

Þá kemur eftirlit með bifreiðum. Það hefir verið falið tveim mönnum og hefir hvor þeirra 6000 kr. á ári. Auk þess hefir annar þessara manna 1000 kr. fyrir að vera trúnaðarmaður stj. í málum, sem snerta bifreiðar, og ferðakostnaður þeirra beggja er nokkuð á þriðja þúsund.

Nú vil jeg víkja nokkrum orðum að því, hvernig við horfir með undirbúning þingmála og aðstöðu stj. til þeirra. Vil jeg í því sambandi benda á það, að þegar breyt. var gerð 1916 á æðstu stj. landsins og ráðherrum fjölgað, var það meðal annars gert með það fyrir augum, að á þann hátt hefði stj. á að skipa meiri kröftum og yrði hæfari til þess að búa mál undir þingið, er ráðherrarnir væru orðnir þrír. Því það hefir verið litið svo á, að á þann hátt fengju málin yfirleitt betri undirbúning en ella. Þeim tilgangi, sem jeg nú hefi lýst að tilætlunin hafi verið að ná hvað undirbúning lagafrv. snertir, hefir síður en svo verið náð hvað núv. stj. snertir. Það er hvorttveggja, að stj. mun vera með öllu óstarfhæf til þess að undirbúa lagafrv. svo við hlítandi sje, enda hefir hún ekkert að þeim undirbúningi unnið. öll slík lagasmíð hefir verið falin einstökum mönnum eða nefndum, sem nú eru ekki allfáar. Þetta hefir vitanlega kostað ærið fje. Má benda á nokkur dæmi þess.

Dr. Björn Þórðarson lögmaður hefir fengið 1700 kr. fyrir að semja frv. fyrir stj. og Klemens Jónsson 800 kr.

Fyrir að semja frv. um landbúnaðarbanka og sveitabanka, er nú liggja fyrir þinginu, hefir Böðvar Bjarkan fengið 1500 kr. Má segja, að frv. um landbúnaðarbanka sje að nokkru leyti tekið upp úr frv. um ríkisveðbanka Íslands frá 1921, sem hann fjekk þá nær 20000 kr. fyrir að undirbúa og semja, en að öðru leyti sniðið eftir frv. um rekstrarlán, sem flutt var á síðasta þingi, þótt það sje fært hjer í nokkuð annan búning.

Þá hefir hv. 4. þm. Reykv. heldur en ekki verið stj. innan handar við lagasmíðar. Hann mun vera búinn að fá um 2500 kr. fyrir endurskoðun siglingalaganna, en að því leyti sem kraftar hans hrukku ekki til, hafa Kristjáni Bergssyni, forseta Fiskifjelagsins, verið greiddar 2000 kr. fyrir að vinna það, sem þar á skorti. En að því leyti er samanlagðir kraftar þessara manna hafa ekki reynst einhlítir í þessu efni, þá hefir Ólafur Lárusson prófessor lagt smiðshöggið á verkið og fengið fyrir það 1200 krónur.

Þá hefir hjer verið minst á nafnafrv. Páll E. Ólason fjekk 500 kr. fyrir að semja það, og verður það að teljast sæmilega borgað.

Jeg ætla að þessu sinni ekki að minnast nánar á nefndirnar; tala þeirra er nú orðin legíó; en jeg býst við, að þeirra verði nánar getið áður en lýkur. Úr því að farið er að róta upp í þessu, finst mjer ekki ástæðulaust að minnast lítilsháttar á meðferð stj. á fje landhelgissjóðsins. Öllum eru í fersku minni árásir þeirra manna, er nú skipa stj., á hendur fyrv. stj. fyrir það, að hún hafði varið einhverju fje úr landhelgissjóði til hestahalds. Töldu þeir það alveg óviðeigandi og óforsvaranlegt og víttu fyrv. stj. harðlega fyrir þessa ráðabreytni, og svo var tilfinning þessara manna þá næm fyrir landhelgissjóðnum, að þeir tilfærðu, hve mikið fje hefði farið fyrir að járna þessa hesta. Maður skyldi nú ætla, að þessir menn hefðu látið sjer vítin að varnaði verða, þegar þeir tóku við stj., og ekki flaskað á þessu sama. — En hvað skeður? Jeg hygg, að reynslan sýni eitthvað annað. Veit jeg ekki betur en að hestabúskapur ríkisins sje ennþá í fullum blóma, og það hefir engu minna fje verið varið til járninga en áður. Það hefir meira að segja orðið talsverð framsókn á þessu sviði, því að jeg get ekki betur sjeð en að núverandi stj. hafi bætt hjer drjúgum við reikninginn; þar eru nú tveir nýir liðir undir fyrirsögninni „til bifreiðakaupa og hestahalds“, og nema þeir samtals nærri 21 þús. kr. Gæti það vel verið andvirði tveggja luxusbifreiða. Þar sem nú ríkisstj. hefir litið svo á, að heimilt sje að nota landhelgissjóð til kaupa á bifreiðum, getur maður ályktað, að hún álíti ekki síður heimilt að greiða úr sjóðnum rekstarkostnað við þessi farartæki, og má vel vera, að svo sje gert. Má ganga að því vísu, að rekstrarkostnaður sje eigi lítill, því að svo er sagt, að bifreiðar þær, sem stj. hefir yfir að ráða, sjeu ekki látnar halda kyrru fyrir. Því verður ekki neitað, að flestum mun það ráðgáta, hvernig þessi bílkaup geta staðið í sambandi við landhelgisgæsluna og landhelgissjóð, því að það mun mála sannast, að þessar bifreiðar munu harla lítið notaðar í þágu landhelgisgæslunnar. En ekki er alt talið með þessu, því að stj. hefir keypt eina ef ekki tvær aðrar bifreiðar fyrir fje ríkissjóðs. Þrátt fyrir þessi bifreiðakaup virðist sem hinar keyptu bifreiðar fullnægi hvergi nærri flutningaþörf stj., því að þó nokkur kostnaður hefir orðið við það að leigja aðrar bifreiðar, og ætla jeg, að sá kostnaður hafi á árinu 1928 numið nokkrum þús. kr.

Þá virðist stj. hafa látið dátt að dönsku ráðgjafarnefndarmönnunum, sem voru hjer á ferð í sumar. T. d. tókst stj. ferð á hendur með þessa menn upp í Borgarfjörð, og þótti sú ferð ekki hinum tignu gestum samboðin nema farið væri á tveimur herskipum. Sigldu herskipin svo eins langt og komist varð inn fjörðinn, en þar tók við annar fararkostur. Þegar á land kom, var safnað saman bifreiðum hjeraðsins og síðan var ekið með allan hópinn um Borgarfjörð. Sagt var, að leigðar hefðu verið helstu laxveiðiárnar, en veiðifengur varð þó að sögn ekki nema einn smálax. Gat það nú ekki minna verið. Þó kostaði þessi veiðiför í útlögðum peningum á annað þús. kr., og mun það vera eina sporið, sem þetta ferðalag markaði í sögu þjóðarinnar.

Þá hefir ríkissjóður — þótt smávægilegt sje — gert nokkur vindlakaup við verslun þá, er hv. 2. þm. Reykv. veitir forstöðu. Það kann að vera, að þessi vindlakaup standi í sambandi við Borgarfjarðarförina og að hæstv. forsrh. álíti sjer ekki skylt að halda uppi risnu utan höfuðstaðarins.

Eins og kunnugt er, hefir sú breyt. á orðið, að lögreglustjóraembættið og bæjarfógetaembættið í Reykjavík hafa verið lögð niður, en í þeirra stað hafa verið stofnuð þrjú embætti. Var því á sínum tíma mjög á lofti haldið, að af þessu myndi leiða afarmikinn sparnað, og var hann áætlaður í grein í Tímanum um 80 þús. kr. Fjárlagafrv. stj. bendir til alls annars. Samkv. áætlun stj. má gera ráð fyrir, að rekstur embættanna muni, þegar öll kurl koma til grafar, hækka um alt að 40 þús. króna fyrir breyt. Svona fór um sjóferð þá.

Þá hafa og verið veittar um 4000 kr. til þess að hleypa lögreglustjóraembættinu af stokkunum.

Jeg ætla nú ekki að rekja þessa sögu lengur, en það lætur að líkum, að það, sem jeg hefi nú drepið á, er aðeins lítið hrafl af því, sem hjer er um að ræða af þessu tægi. Jeg hefi bent á nokkur atriði í bitlingasögu og eyðslugegnd stj. og sýnt, að stj. telur sig ekki hætishót bundna við ákvæði fjárl. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Þegar um óhjákvæmileg útgjöld úr ríkissjóði er að ræða, verður vitanlega ekki hjá því komist að inna slíkar greiðslur af hendi. En það, sem jeg nú hefi nefnt, á ekkert skylt við það.

Eins og jeg sagði, eru þetta aðeins nokkur dæmi þess, hvernig hæstv. stj. notar ríkissjóð og aðra sjóði til þess að ausa út fje á báðar hendur, sem að miklu leyti gengur til þess að hlynna að sínum pólitísku skjólstæðingum og verðlauna ákveðnar pólitískar skoðanir. Því spillingarástandi, sem þetta skapar, þarf ekki að lýsa; það stendur skýrt fyrir hverjum heilbrigðum manni. Má af þessu draga þá ályktun, að stj. vantreysti sinni eigin stjórnmálastefnu, að hún skuli telja sjer nauðsynlegt að grípa til þessara óyndisúrræða til þess á þann hátt að reyna að afla sjer fylgis og tryggja sig í stjórnarsessi. En til þess eru refirnir skornir; það vita allir.

Þá mun jeg ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, og ekki víkja að fleiru, þó á nógu sje að taka.

Þó er það eitt atriði, sem jeg vil minnast lítillega á, áður en jeg setst niður, og það er krossafarganið. Jeg verð þá að segja það, að jeg gat átt á ýmsu von, en að jeg ætti nú eftir að sjá það, að hæstv. forsrh. yrði einn af stærstu krossberum þessa lands, því gat mig aldrei órað fyrir, og þetta bygði jeg á því, að eins og alkunnugt er, vorum við samherjar þing eftir þing um að berjast á móti því, að það væri verið að ausa fje í þennan hjegóma, krossana, sem öllum kemur saman um að þeir sjeu, og líka þeim, sem hafa þó ánægju af að skreyta sig með þeim, og við vorum svo innilega sammála um, að þar næði hjegómaskapurinn hámarki sínu. Við álitum þá báðir, að hið unga og sjálfstæða ríki, Ísland, ætti að brynja sig á móti því að verða snortið af þessum erlenda hjegóma. — En því miður, þá hefir nú þetta farið svo, að hæstv. forsrh., Tryggva Þórhallssyni, hefir nú orðið hált á þessu svelli; hann var ekki fyr kominn í valdasessinn en hann fjell fyrir freistingunni hvað sjálfan hann snertir og aðra. Árið 1928 var ekki varið minna en 10 þús. kr. í þetta regintildur, og jeg verð að segja það, að þeir voru tímarnir, að hæstv. forsrh. hefði tekið mjög innilega í hendina á mjer upp á það, að þeim peningum væri þó illa varið.