11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg býst við, að jeg geti verið talsvert stuttorðari en sá hv. ræðumaður, sem nú var að setjast niður, af því að jeg er búinn að rekja ítarlega mörg þau atriði, er hann minntist á.

Hv. 1. þm. Skagf. byrjaði ræðu sína með því að halda fram, að breyt. á bæjarfógeta- og lögreglustjóraembættunum hjer í Reykjavík hefði haft mikinn aukakostnað í för með sjer. En með því að fletta upp landsreikningnum fyrir árið 1926 sjest, að það verður um 174 þúsund krónur, sem þessi embætti kosta ríkissjóð. Þegar nú þetta er athugað í sambandi við það, sem þessi embætti kosta nú, og svo hins gætt, að mikið af beinum tekjum fellur til ríkissjóðs, þá þarf ekki lengra að fara til að sjá, að staðhæfing hv. 1. þm. Skagf. er röng og að hjer er um mikinn sparnað að ræða. Fyrir utan þetta hefir tollgæslan verið aukin, og það þurfti að gera að allra dómi, svo að sá hluti kostnaðarins hefði altaf komið til útgjalda, þó að engin breyt. hefði verið gerð á embættunum. Enginn viðurkennir þá breyt. betur en sjálfur tollstjórinn, sem segir, að nú gangi langtum greiðara að ná inn tolltekjunum en áður, af því að öll aðstaða sje margfalt betri.

Þá taldi hv. þm. upp ýmsar nefndir, sem hann vildi saka stj. um að hafa skipað. En í þeirri upptalningu slæddust nokkrar nefndir með, sem skipaðar eru samkv. lögum og því ekki hægt að gefa stj. að sök, eins og t. d. landsbankanefnd, Þingvallafriðunarnefnd og skattanefnd, og í öllum þessum nefndum eru íhaldsmenn meðstarfandi og taka þar glaðir kaup. En auk þess eru flestar þessar nefndir ólaunaðar, svo að ekki verður betur sjeð en að rökin hafi eitthvað skolast í heilabúi þm., þegar hann vildi láta líta svo út, að t. d. landsspítalanefndin væri kostnaðarauki fyrir ríkissjóð. í stjtíð fyrirrennara míns, hv. 1. þm. Skagf., starfaði einnig nefnd, sem hafði eftirlit með byggingu landsspítalans og tók engin laun fyrir. Nú er byggingu spítalans það langt komið, að fara verður að ákveða nánar um starf hans og rekstur, og er það starf hinnar nýju nefndar að gera athuganir þar um.

Hann var líka að tala um tveggja manna nefnd, sem ætti að endurskoða hegningarlöggjöfina. Jeg hefi nú aldrei heyrt talað um tveggja manna nefnd, enda datt víst engum í hug að skoða þessa tvo lögfræðinga nefnd, þó að þeir í sameiningu væru til þess fengnir að athuga þessa sjerstöku löggjöf.

Og sama er um þá tvo menn að segja, sem fengnir voru til þess að telja upp og rannsaka vínbirgðirnar í „steininum”. Óþarft tildur að vera að kalla þá nefnd. Þetta voru tveir heiðarlegir „goodtemplarar“ og annar framarlega í flokki íhaldsmanna, svo að jeg býst ekki við, að hv. þm. telji eftir borgunina til hans. Þessi rannsókn tók eitthvað um vikutíma og getur hún aldrei hafa kostað mjög mikið.

Þá langaði mig að segja fáein orð um Þingvallanefndina, en í henni eigum við sæti, hv. 1. þm. Skagf. og jeg, ásamt þriðja manni, sem er hv. 4. landsk. Jeg verð að segja það, að mjer þykir það næsta einkennilegt, að hv. 1. þm. Skagf. skuli hjer á þingi bera út sína eigin nefnd, og það áður en hún hefir starfað eitt ár. Hver einasti þjóðrækinn maður í landinu hefir óskað eftir því, að Þingvöllum væri sómi sýndur og að helgi þessa merkisstaðar væri í heiðri höfð. Þessir sömu menn líta svo á, að það eigi að vera metnaður þjóðinni að vernda Þingvöll fyrir öllum spillandi áhrifum utan frá, svo að göfgi staðarins haldist. Um þetta atriði var deilt á síðasta þingi, og sigraði þá stefna hinna þjóðræknari manna; var þá samþ. að hefjast nú handa um að vernda og prýða Þingvöll, ekki aðeins þann litla hluta, sem talið er að þinghelgin forna nái yfir, heldur og umhverfið sjálft, hraunið milli gjánna, sem fróðir menn telja víst, að gróa mundi upp og fríkka, þegar skógurinn og nýgræðingurinn fengi að vaxa og þróast í friði. Þetta var þá stefna hinna þjóðræknari manna, sem rjeði á þinginu í fyrra, þrátt fyrir andstöðu þess hlutans, sem er minna þjóðlegur.

Á næsta ári kemur hingað fjöldi manna víðsvegar að úr álfunni, til þess aðallega að heiðra þennan helga stað og þá stofnun, sem starfaði þar í nærri 9 aldir, og það væru sannarlega kaldrifjaðir menn, sem vildu þá hafa Þingvöll í ófremdar ástandi. Og það mundi kasta á okkur rýrð í augum hinna erlendu og tignu gesta, er þeir sæju, að við hefðum ekkert það gert til þess að vernda og prýða Þingvöll, sem kalla mætti samboðið smekk þjóðrækinna manna. Jeg held því, að hv. 1. þm. Skagf. hafi ekki aðra gleði af því að draga þetta mál inn í þessar umr. en að staðfesta betur það, sem menn raunar vissu áður, að hann skortir þann hærri smekk og tilfinningu, sem betri hluti þjóðarinnar hefir fyrir þessu, og fyrir þær sakir er hann ekki verðugur þess að vera fulltrúi nokkurs flokks í nefndinni, því að jafnvel innan íhaldsflokks finnast þó nokkrir, sem hafa rjettan skilning á þessu máli.

Þá mintist hv. þm. á kælihúsmálið á Sauðárkróki og segir, að jeg hafi neitað sjerstöku fjelagi þar um lán til þess að koma upp kælihúsi. En þó að hv. þm. leitaði með logandi ljósi um stjórnarráðið og blaðaði í öllum skjölum þess, þá mundi hann ekki finna eitt einasta brjef til mín nje tilmæli í þessa átt, og heldur ekkert skjal þessu viðvíkjandi nje skeyti. (MG: En símtalið við kaupfjelagsstjórann). Sláturfjelagið hefir ekki sent neitt um þetta í stjórnarráðið. (MG: Neitar ráðherrann þá þessu?). Það hefir engin beiðni eða umsókn um lán komið frá þessu fjelagi til mín. (MG: Og ekki frá kaupfjelaginu heldur?). Það er alt annað mál, en sláturfjelagið hefir aldrei leitað til mín, svo að saga hv. 1. þm. Skagf. er ekkert annað en ein hringavitleysa. Enda kemur upp úr dúrnum, að einhver maður á Sauðárkróki hafi átt að eiga símtal við mig um þetta efni, og verð jeg því að segja að þm. hafi illa lært lögfræði sína, ef hann heldur, að það sje nóg í jafnstóru máli sem þessu, þar sem um stóra fjárhæð er að ræða, að segjast gera orð í símtali, með einhverjum manni, til landsstjórnarinnar um nokkra tugi þúsunda að láni. Annars vænti jeg, að hans góðu vinir og kjósendur leggi fram skilríki fyrir því, að jeg hafi neitað sláturfjelaginu um lán í þessu efni. (MG: Það skal líka verða gert). En nú skal jeg segja hv. 1. þm. Skagf. annað, sem jeg raunar veit, að honum er allra manna best kunnugt um: Að það var deila um það í Skagafirði, hvort kælihúsið ætti að vera eign samvinnufjelagsins eða fjandmanna þess. Hv. þm. veit, að það voru tvö fjelög, sem vildu fá þetta. Annað þeirra, kaupfjelagið, er samvinnufjelagið, en hitt veit þm. líka, að sláturfjelagið, sem að vísu telur sig vera samvinnufjelag, hefir í pukri notið stuðnings kaupmanna á staðnum og rekið erindi þeirra, og einn af kaupmönnum Sauðárkróks er í stjórn þess.

Það þarf því engan að furða, að þegar samvinnufjelagið á staðnum sækir um lán til stj. — ekki þó til dómsmálaráðuneytisins, heldur atvinnumála — að stj. vilji verða við ósk kaupfjelagsins í þessu máli. En svo kemur annað fjelag á eftir og vill þá fá annað lán, en í sama skyni, og keppa við kælihús kaupfjelagsins, sem landið er búið að styrkja, og sjá allir, hvílík óhugsandi fjarstæða það er að ætlast til, að landið styrki tvö kælihús á sama staðnum, af því að þessi tvö fjelög geta ekki komið sjer saman. Nú hefir kaupfjelagsstjórnin á Sauðárkróki boðið sláturfjelaginu fullan aðgang kælihússins hjá kaupfjelaginu. Sláturfjelaginu stóð altaf opin leið að ganga inn í samtökin um að byggja húsið. En þeir, sem að því stóðu, vildu sjálfir eiga húsið, að því er virðist með launmakki við kaupmenn á staðnum, en það gat vitanlega ekki komið til mála að sleppa umráðarjettinum við kaupmenn, og síst með þeim málavöxtum, sem þar voru kunnir og nú hefir verið frá skýrt. Á Hvammstanga á kaupfjelagið kælihúsið, en kaupmenn þar hafa lagt í það. Öll ræða hv. 1. þm. Skagf. er því órökstutt fálm úti loftið og ekki nokkur heil brú í henni. Á mörgum glapstigaferli íhaldsins hefir verið hált, en sjaldan eins ógætilega farið og í þessu máli. Og það er ekki nema rjett eftir ofurkappi fylgismannanna, að vilja ekki nota sjer þann rjett, sem þeim hefir verið trygður til þess að hafa aðgang að kælihúsinu. En vilji þeir ekki annað en byggja viðbótarkælihús á sama staðnum, þá þeir um það, en vitanlega verða þeir að gera það upp á eigin spýtur, stj. getur aldrei styrkt þá sundrungarstarfsemi í samvinnufjelagsskap bænda.

Þá mintist fyrirrennari minn, hv. 1. þm. Skagf., á afskifti mín af dómsmálunum, en alt skraf hans var þó ekki annað en varnarræða málfærslumanns fyrir sökudólgunum, er fyrirrennari minn fann nú svo mjög til með í neyð og þrengingu þeirra.

Hann hóf þennan kafla ræðu sinnar á því að segja, að jeg notaði dómsmálin í pólitískri þjónustu til ofsóknar á hendur andstæðingum mínum. Það er enginn vafi á því, að þjófur, sem tekinn er, eða íkveikjumaður geta sagt, að það sje um pólitíska ofsókn að ræða, þegar þeir eru sóttir til saka fyrir athæfi sitt. En þetta er ekki annað en framsláttur og afsökun, sem má hafa fyrir alla afbrotamenn.

Þessi sami hv. þm. kvartaði fyrir hönd flokks síns undan rekstri Hnífsdalsmálsins. En hann hefði þá um leið mátt minnast þeirrar frekju og þess ofbeldis, sem flokksmenn hans og blöð hans beittu undir rannsókn málsins með því að ráðast með illyrðum og ruddaskap að rannsóknardómaranum, er var að reyna að leiða sannleikann í ljós í þessu hneykslismáli íhaldsins. Allur almenningur vissi, að hjer var um stórfeld og ljót svik að ræða, og almenningi var sömuleiðis kunnug afstaða þessa hv. þm. til þeirra. Honum mun hafa komið það mjög illa, að upp komst um sökudólgana, sem og ekki er undarlegt, þegar atvik og eðli málsins eru athuguð nánar. Hinsvegar sýnir framkoma þm. nú brjóstheilindi þm. í þessu máli. Og það virðist ganga hneyksli næst, að maður, sem var dómsmrh. þegar svikin gerðust, skuli nú verða til þess að tala máli þeirra manna, eins eða fleiri, sem rjettvísin hefir neyðst til að leggja hendur á, og allar líkur benda til, að sjeu sekir um stórfelda glæpi. Jeg hygg slíkt einsdæmi í nokkru landi, auk þess sem þetta sannar átakanlega hina grunsamlegu afstöðu leiðtoga íhaldsins til kosningasvikanna í Hnífsdal.

Þó hv. fyrv. dómsmrh. geti illa afsakað Hnífsdalssvikin og afskifti hans af þeim málum, þá hygg jeg afstöðu hans til máls Einars Jónassonar öllu ljelegri og óafsakanlegri. Annars get jeg verið stuttorður um það mál að svo stöddu. Skal þó aðeins geta þess, að sjóðþurðin hjá honum hefir þróast alt frá þeim tíma, að honum var veitt embættið af íhaldsmanni þeim, sem það gerði. Á síðasta ári íhaldsstj. sendi hún mann til þess að líta eftir hjá honum, og þá var alt í stakasta lagi! Skömmu á eftir kom það í ljós, að í kassann vantaði hvorki meira nje minna en 140 þús. kr. af opinberu fje. Þannig var nú eftirlitið í tíð fyrv. dómsmrh., og ferst honum síst að vera drýldinn yfir og ásaka núv. stj. fyrir að henni gangi seint að hafa hendur í hári sökudólgsins. Stj. hefir gert alt til að hraða málinu, og nú stendur einungis á dóminum. Það hefir verið gert, sem hægt er; tryggingar hafa verið teknar í öllum finnanlegum eignum Einars Jónassonar og alt hefir verið gert til þess að hraða málinu.

Um sjóðþurðina í Brunabótafjelaginu ætti hv. þm. sem minst að tala. Afskifti og afstaða hans til þess máls er honum hvorki til sæmdar nje ánægju. Sjóðþurðin mun hafa numið 70 þús. kr. og helmingur þess hefir tapast hjá flokksbróður hv. þm., sem hann hafði sett til þessa starfa. Hinum helmingnum hefir ekki tekist að gera grein fyrir, og hefir verið látið svo, sem gjaldkerinn hafi verið geðveikur, nú og áður. Auk þess var hann drykkfeldur, svo að full ástæða hefði verið fyrir fyrv. stj. að trúa honum ekki fyrir starfi sínu. En yfirmaður þessa drykkfelda gjaldkera var Árni í Múla, sem um leið og hann leit svo vel eftir fjármunum Brunabótafjelagsins var ritstjóri að málgagni Íhaldsflokksins. Sömuleiðis virðist úttektin milli forstjóranna hafa verið heldur bágborin, úr því ekki er hægt að gera nákvæmlega upp, hvað hafi tapast hjá hvorum þeirra. Svo kallar hv. þm. það ofsókn gegn þessum flokksbróður hans og núverandi ritstjóra íhaldsmálgagnsins, þótt rannsókn sje hafin á þessum ósóma. Honum finst slík rannsókn ætti að falla niður, vegna þess að einn íhaldsmaður á í hlut. Að hans dómi mun aðhald laganna, líka til verndar eignarrjettinum; ekki eiga að ná til íhaldsmanna. Þetta er í beinu samræmi við þann hugsunarhátt, sem virðist vera ríkjandi í herbúðum íhaldsins hjer á landi, að lögin nái ekki yfir þá, eða að minsta kosti ekki á sama hátt og yfir allan almúgann. Hv. þm. hafði marga mánuði til athugunar, en samt aðhafðist hann ekkert. (MG: Búinn að skipa rannsókn). Sá, sem brotlegur er, er sjálfur forstjórinn, því hann átti auðvitað að gefa gjaldkerann upp við bæjarfógeta og láta framfylgja kærunni. En hann ljet það ógert. Hann brást skyldu sinni. Hitt er satt, að strax eftir stjórnarskiftin fóru bæði forstjórinn og vinir hans að reyna að bjóða borgun og leita hófanna með sættir. Hv. þm. sagði mjög villandi frá þessu, því að það var óneitanlega skrítin borgun, sem boðin var, því það var eiginlega landið sjálft, sem átti að borga, að því leyti sem um nokkra endurborgun var að ræða. Það gat því tæplega komið til mála að taka hana til greina, auk þess sem sætt var öldungis óhugsandi frá rjettarfarslegu sjónarmiði. Þess vegna var ekki um annað að gera en að fyrirskipa ítarlega rannsókn. Og samt vonar hv. þm., að sakborningurinn verði sýknaður. Málið verður nú ítarlega rannsakað og ekki hylmað yfir neitt.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði hylmað yfir sjóðþurðarmál á Seyðisfirði, hjá útibúi landsverslunarinnar þar. Jeg hefi lesið um þetta í blöðum andstæðinga minna, en hvergi hefi jeg sjeð þess getið þar, sem þó mestu máli skiftir, sem sje, að sá, sem var skyldugur til að kæra slíkt atferli sem þetta, var enginn annar en hv. 1. þm. Skagf. Hann er skuldheimtumaður landsverslunarinnar og honum bar því ótvírætt skylda til að segja til, ef um óleyfilegt atferði var að ræða. Þar sem enginn hefir kært yfir þessu, þá veit hv. þm., að mjer ber ekki minsta skylda til þess að láta rannsaka málið. En með því að jeg leit svo á, að orðrómur þessi gæti verið á rökum bygður, hefi jeg þó falið bæjarfógetanum á Seyðisfirði að rannsaka málið, en þar sem hann er veikur, benti hann á lögfræðing einn á Seyðisfirði til þess að framkvæma verkið í sinn stað, og er sú rannsókn byrjuð fyrir nokkru. Hjer er því ekkert efni til árásar á stj., enda hefir hún gert miklu meira en henni bar. Hinsvegar ætti hv. 1. þm. Skagf. síst að vera hávær út af þessu máli, þar sem hann hefir brugðist skyldu sinni, ef nokkur hefir gert það, að kæra til dómsmálaráðuneytisins eða til bæjarfógetans á Seyðisfirði.

Þá heldur hv. 1. þm. Skagf. því fram, að rannsóknin gegn Shell-fjelaginu hafi verið gerð að ófyrirsynju. Færir hann þau rök helst til, að sannanirnar hafi ekki reynst nægilega sterkar til þess að sanna, að fjelagið hafi verið útlend eign. En hv. þm. reyndi ekki að halda því fram, að fjelagið væri í raun og veru íslenskt, en vitnaði einungis í dóminn. En jeg vil benda honum á, og vitna í málsskjölin, að enginn vafi getur á því leikið, að fjelagið er ekki íslenskt. Fjármagn fjelagsins kemur nálega að öllu leyti frá útlöndum, auk þess sem það var útlent fjelag, sem bygði geymana. Engum lifandi manni, og ekki einusinni dómstólunum, getur blandast hugur um, að fjelagið er raunverulega útlent fjelag, og að einungis ófullkomleik laganna er um að kenna, að ekki er hægt að komast að kjarna málsins. Jeg sagði, að þetta sannaði, að breyta þyrfti löggjöfinni í það horf, að hún gæti á þessu sviði myndað verndarvegg um hið litla þjóðfjelag okkar. Hv. þm. hótaði málaferlum, og er hann auðvitað sjálfráður um það, en annars held jeg, að hann væri litlu bættari, þótt hann fengi svo sem 50 krónur sem sárabætur fyrir að vera kallaður það, sem hann er, auðmjúkur þjónn og undirtylla Shell-fjelagsins erlenda. Jeg vil því ráðleggja hv. þm. að reyna að vera raunverulega saklaus, í stað þess að reyna að hylma yfir sekt sína með lagaflækjum. Slíkt er með öllu þýðingarlaust, því almenningur veit, að hann er sekur. Mjer þætti annars gaman að vita, hvort hv. þm. þyrði að skjóta máli þessu undir guðsdóm að fornum sið, og hvort hið alsjáandi auga liti svo á málstað hans, eins og hinn jarðneski dómstóll, að sannanirnar væru ekki nógu sterkar til að byggja á sektardóm. Það var gamall siður að skjóta máli sínu undir guðs dóm, þegar engin málalok voru fáanleg fyrir hinum jarðnesku yfirvöldum, eða ef menn þóttust beittir ranglæti af dómstólunum. Þá var trú manna, að málið myndi verða endanlega dæmt í hinum andlega heimi. Þetta var einskonar yfirhæstirjettur. Mjer þætti nú fróðlegt að vita, hvort hv. 1. þm. Skagf. þyrði að leggja mál sitt undir þennan dóm. Jeg leyfi mjer að efast stórlega um það, og ætti hv. þm. að gjalda nokkurs varhuga við að tala um sakleysi sitt í þessu máli, ef hann þorir ekki að treysta á dóm samtíðar sinnar, nje málalok í andans heimi.

Þá sagði hv. þm., að það væri dæmalaust, að British Petroleum skyldi ekki vera sett á sama bekk, en hv. þm. veit það ósköp vel, að hjer er um tvö ólík fjelög að ræða. British Petroleum er útlent fjelag og gefur sig ekki út fyrir annað, og það fjekk leyfi hjá honum sjálfum til þess að starfa. En sem erlent fjelag má það ekki færa kvíarnar út um eitt hænufet, nema með nýju leyfi. Öðru máli er að gegna um Shell-fjelagið. Það er útlent fjelag, en til þess að geta náð betri tökum og betri aðstöðu í viðskiftunum, er reynt að láta líta svo út, að hjer sje um íslenskt fjelag að ræða, og með lagaflækjum farið í kringum lögin um það atriði. Og nú getur Shell-fjelagið vaxið hjer og dafnað og orðið íslenska ríkisvaldinu ofjarl, en er þó aldrei annað en grímuklæddur útlendingur.

Þá vjek hv. þm. að „Tervani“-málinu og fór nokkrum orðum um bað. Jeg ætla þá að skýra frá því. hvers vegna jeg álít þetta vitni, sem jeg leiddi í málinu, sjerstaklega mikils virði í þessu máli, enda þótt það sje það ekki endranær. Í þessu máli átti vitnið að velja á milli hagsmuna skjólstæðings síns og hagsmuna Íhaldsflokksins og blaðs þess, sem hann er aðaleigandi í. Vitnið er harðsnúinn flokksmaður og auk þess, eins og jeg hefi tekið fram, aðaleigandi Morgunblaðsins, svo að það er með öllu óhugsandi, að það hafi sýnt hlutdrægni, nema þá í öfuga átt við það, sem mótstöðumenn mínir vilja láta í veðri vaka. Blað vitnisins hefir gert sjer mjög far um að þyrla upp ryki í sambandi við þetta mál og áfelt mig fyrir afskifti mín af því. En ef það nú sannast, að vitnið hafi talað sannleikann í þessu máli, þá er allur elgur Morgunblaðsins um „Tervani“-málið vitleysa ein, og aðaleigandi blaðsins búinn að slá sig og flokksbræður sína í andlitið á hinn eftirminnilegasta hátt. Þetta eina vitni er nægilegt til þess að gera að engu allan róg og blekkingar um málið frá hálfu Mgbl. og undirdáta Lárusar Jóhannessonar, en þm. er einn sá aumasti meðal þeirra. Ef menn ekki vilja aðhyllast þessa skoðun, þá er það sama sem að segja, að vitnið sje ósannsögult, svikult og óáreiðanlegt og að það hafi unnið það fyrir peninga, að gerast flytjandi rangs máls, selt sannfæringu sína og rjettan málstað fyrir peninga eina. En enginn íhaldsmaður hefir enn, svo jeg viti, sagt þetta, enda væri slíkt til þess að gera þennan flokksbróður þeirra að hinu auðvirðilegasta úrþvætti og andstygð í augum allra góðra manna. Jeg fyrir mitt leyti vil ekki leggja þennan skilning í málið, og hlýt því að telja vitnisburð Lárusar Jóhannessonar í Tervani-málinu fullgildan af áðurgreindum ástæðum. (JAJ: Lögvit ráðh. veður ekki uppi). Jeg held, að hv. þm. N.-Ísf. ætti síst að tala um lög eða lögvit, eftir því sem vitnast hefir um framkomu hans á Vestfjörðum.

Þá hjelt hv. þm. því fram, að „Trausti“ hafi ekki verið varðbátur landsins, enda þótt ríkisstj. hafi ráðið mennina á hann og haft bátinn á leigu. Jeg vil benda hv. þm. á, að ekki var hans ágæti samherji á sama máli, þegar hann segir svo í rjettarskjölunum: „Þegar þess er gætt, að hann er kærður af varðbát ríkisstjórnarinnar“ o. s. frv. Jeg er því ekki alveg einn um þessa skoðun, þar sem sjálfur aðaleigandi Morgunblaðsins er mjer samdóma. Jeg nota þetta vitni á íhaldið eins og hómópatar nota samveikismeðul handa sjúklingum sínum. Slíkar lækningaraðferðir hafa stundum gefist vel, og jeg vona, að það megi líka hafa góðar verkanir á íhaldið.

Þá sagði hv. þm., að það væri hið mesta glapræði af mjer að gera ráð fyrir, að hæstarjetti gæti skjátlast. Jeg vil þá benda þm. á það, að enginn framsóknarmaður hefir farið harðari orðum um þetta atriði en einmitt þessi „mikilsmetni íhaldsmaður“, lögfræðingurinn Lárus Jóhannesson, því hann kemst svo að orði í niðurlagi skýrslu sinnar: „Ef dæma ætti kærðan í háa sekt og fangelsi á jafnljettvægum rökum og finnast í þessu máli, mætti með sanni segja, að með því væri kveðinn upp dauðadómur yfir öllu rjettaröryggi í landinu“. Þessi lögfræðingur kveður svo sterkt að orði að segja dóm hæstarjettar dauðadóm yfir rjettarörygginu í landinu. Nú reyndi hv. þm. að verja hæstarjettardóminn, og sagði það benti ekki á veilu í dómunum, þótt ekki væri dæmt í bæði sekt og fangelsi. En jeg vil benda hv. þm. á það, að þótt þetta atriði sje ekki í sjálfu sjer stórvægilegt, þá hefir hæstirjettur hjer skapað fordæmi, þannig, að ef svipað mál verður lagt til aðgerða dómstólanna, og ef þeir eru á báðum áttum og hikandi, þá er þeim opinn vegur að taka einskonar millileið, eða bil beggja, án þess virkilega að komast að hinu rjetta í málinu. Nú geta menn og gert sjer í hugarlund, hvort þessu sjeratriði „Júpíter“-dómsins, auk alls þess hneykslanlega, sem við þetta mál er tengt, myndi ekki vera á lofti haldið erlendis, þegar blöðin, sjóliðsforingjarnir og lögfræðingarnir færu að gagnrýna dóminn. Persónulega met jeg þessa skýringu Lárusar að engu, því jeg var sjálfur kominn að sömu niðurstöðu áður en jeg sá plögg hans, og býst yfirleitt ekki við að þurfa að sækja til hans annað en þennan einstaka hrís á hrygg samherja hans, Mbl.-mannanna. En fyrir Mbl. er skoðun Lárusar reiðarslagur og hnefahögg í andlit þeirra manna, sem hæst hafa látið út af þessu máli. Úti um land eru allir gætnir og skynsamir menn á einu máli um, að jeg hafi breytt rjett í þessu máli og eigi beinlínis þakklæti skilið fyrir lausn þess. Sjerstaklega hafa margir skipstjórar landsins, sem vel eru kunnugir þessum málum, látið það eindregið í ljós, að skynsamlegasta og sjálfsagðasta lausn Tervani-málsins væri að láta saksóknina falla niður, eins og líka gert var. Jeg gæti nefnt marga reyndustu og bestu skipstjóra landsins, sem vel eru kunnugir skaplyndi Englendinga og afstöðu þeirra til strandgæslunnar hjer, sem eru eindregið á þessari skoðun.

Þá er ein spurning hv. þm., sem jeg vil svara með mikilli ánægju. Hann spurði, hvort jeg áliti það ekki sóma fyrir Jón heitinn Magnússon, að hann áfrýjaði dómi „Egils Skallagrímssonar“ út af landhelgisbroti hjerna um árið. Mjer er ljúft að segja það, að jeg álít það verk vera Jóni Magnússyni til sóma lífs og liðnum. (HK: Margt gott um Jón Magnússon). Alveg rjett. En í orðum hv. þm. lá, að þurft hafi mikið átak til að koma áfrýjuninni í framkvæmd. Rjettartilfinning aðstandenda togarans var ekki á hærra stigi en svo, að þeir gerðu alt, sem þeir gátu, til þess að fá ráðh. ofan af þessu. (ÓTh: Margendurtekin ósannindi). Þetta er margsannað, en samviskan virðist nú hafa slegið hv. 2. þm. G.-K. við að heyra þessi orð mín, með því að hann tekur þau sem til sín töluð, enda vita allir, að þessi sami hv. þm. sama sem játaði sekt sína í blaðagrein, með því að gera gys að dugnaði Jóns Magnússonar að áfrýja málinu.

Þá talaði hv. þm. um veisluhöld skipstjórans á Óðni og kostnaðinn við rannsókn Hnífsdalsmálsins, og átaldi þá ódæma eyðslu, sem þar hefði átt sjer stað. Væri þá rjettast að sýna honum, hvernig er um að litast í eldhúsi íhaldsins í þessum efnum, því að engin sakamálsrannsókn var eins ódýr í tíð íhaldsstj. eins og þessi rannsókn. Hvað Óðni viðvíkur, þá ætti hv. þm. sem minst að tala um hann, vegna sjálfs sín og Íhaldsflokksins í heild sinni. Það var sem sje íhaldsstj., sem gekk algerlega framhjá Nielsen framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins við smíði þessa skips. Aðrir og fávísari menn voru fengnir til að leiðbeina við smiði skipsins, og með aðstoð þeirra gerði íhaldsstj. Óðin að þessum trjekylli, sem hann var, þar til Nielsen rjeði því, að skipið var lengt um 13 fet. Jeg verð því að benda hv. þm. á það, að það er hans eigin stj. og engin önnur, sem á sökina á því, hversu hrapallega illa tókst til með þetta. Jeg hefi aftur á móti haldið mjer við Nielsen sem aðalráðunaut og er viss um, að það muni vel reynast.

Jeg kemst ekki til að rekja nema eitt atriði ennþá í ræðu hv. 1. þm. Skagf., því að nú er orðið mjög áliðið nætur. Þó get jeg ekki látið hjá líða að minnast á þann samanburð, sem hann leyfði sjer að gera á skuldum áfengisverslunarinnar annarsvegar og skuldum steinolíuverslunarinnar og landsverslunarinnar hinsvegar. Þar er mjög ólíku saman að jafna. Áfengisverslunin verslar með óhófs-og nautnavöru, sem aldrei var ætlast til að ýtt væri undir menn að kaupa með lánum, nema ef til vill ef um fátæka lækna væri að ræða, sem ekki gætu sjálfir staðið straum af öllum lyfjakaupum. Þó safnast skuldir við þessa verslun í tíð íhaldsstj. svo hundruðum þúsunda skifti. Þessa stofnun lætur hv. 1. þm. Skagf. sjer sæma að bera saman við bjargráðaverslun eins og steinolíuverslunina, verslun, sem á kreppuárunum varð svo að segja að standa undir öllum vjelbátaútvegi landsmanna og hjelt niðri verðinu þegar mest reið á. Þegar svo við þetta bætist, að Magnús heitinn Kristjánsson, sem jeg held að hafi altaf dálítið skjátlast með álitið á hv. 1. þm.

Skagf., trúir honum fyrir að sjá um innheimtu fyrir þessa verslun, þá launar hv. þm. honum með því að bera þessar skuldir bjargráðafyrirtækisins saman við áfengisverslunina. Þetta er þakklætið, sem þessi látni heiðursmaður fær hjá hv. 1. þm. Skagf.

Jeg býst nú við að láta hjer staðar numið að sinni. Það stendur svo á, að jeg og 2 aðrir hv. þm. höfðum ákveðið fyrir hálfum mánuði að vera á fundi uppi í Borgarnesi, sem haldinn verður í kvöld. Við gátum ekki búist við, að umr. myndu teygjast svo lengi, og munum þess vegna athuga, hvort við getum haldið við áform okkar. Jeg hefi haft tækifæri til þess að svara öllum andstæðingum mínum, sem til máls hafa tekið, sumum einu sinni og sumum tvisvar, svo að nú hefi jeg gert hreint fyrir mínum dyrum. Jeg býst við, að það framfaramál í kjördæmi hv. þm. Borgf., sem til umr. á að verða á fundinum í Borgarnesi, hljóti að vera meira virði og merkilegra heldur en ræður þær, sem sá hv. þm. eða aðrir af hinum dauðþjökuðu samherjum hans eru líklegir til að halda næstu 5–6 klukkutímana, og getur því svo farið, að jeg meti skólamál Borgfirðinga meira þá stuttu stund heldur en áð hlusta á róðrarkarla Mbl. þá stund.