19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

16. mál, fjárlög 1930

Sveinn Ólafsson:

Á þskj. 345 á jeg þrjár brtt. við þennan síðari kafla fjárl., er nú liggur fyrir til umr.

Fyrsta brtt. mín er við 18. gr. og skiftir litlu máli, en hinar eru við 22. og 23. gr. frv.

Jeg ætla þá að byrja á því að víkja nokkrum orðum að síðustu brtt., sem er sú sextugasta í röðinni á þskj. því, er jeg nefndi, og lýtur að 90000 kr. ábyrgðarheimild ríkisstjórnar fyrir rafvirkjunarláni handa Reyðarfjarðarhreppi.

Jeg skal þegar geta þess, að það stendur í till. annaðhvort fyrir misritun eða misprentun Reyðarfjarðarkauptún, en á að vera Reyðarfjarðarhreppur. Jeg geri ráð fyrir, að það megi leiðrjetta þessa misritun án sjerstakrar brtt., ef till. verður samþ.

Jeg hefi veitt því eftirtekt, að hv. fjvn. er furðu ör á þessar ábyrgðir fyrir aðra hreppa og hjeruð, en hjer er þó um smáræði að ræða í samanburði við það, sem áður er veitt, og ekki ætti það að spilla, að í þessu hjeraði er ekki fyrir nein ábyrgð eða skuld við ríkissjóð, og má því segja með sanni, að þarna er ekki um meiri áhættu að ræða en í hinum tilfellunum, nema síður sje. Mjer hefir verið bent á það, að hv. fjvn. hafi aldrei fengið málaleitun eða skýrslur um þetta mál og þess vegna hafi hún ekki getað ákvarðað sig um það, og er þetta alt með líkindum. Jeg vil því til skýringar geta þess, að áætlun verkfræðingsins, sem fór austur til þess að athuga virkjunarskilyrðin, barst mjer ekki fyr en fyrir fáum dögum og eftir að nefndin lauk lestri erinda. Verkfræðingurinn er Árni Daníelsson og hann hefir undirritað áætlunina 4. þ. m., en hún barst mjer ekki fyr en nokkru síðar. Þarna er ráðgert að virkja 200 hestöfl, og má bæta við að minsta kosti jafnmiklu síðar. Virkjunin kostar eftir áliti verkfræðingsins 96 þús. kr., en í brtt. nefndi jeg ekki nema 90 þús., og ætlast til þess, að hreppurinn sje einfær með það, sem umfram verður. Verðið á þessari stöð virðist eftir atvikum fremur lágt, en þó er aðstaðan ekki ákjósanleg og verður pípuleiðslan að vera mjög löng. Líkur allar benda til þess, að fyrirtækið renti sig að áliti verkfræðingsins, og allar horfur fremur góðar. Kaupfjelagið eitt hefir þörf fyrir 40 hestöfl og er það nálægt af því, sem virkja á, en íbúar þorpsins eru að vísu ekki nema 300. Verður varla gert ráð fyrir, að þeir noti meira en 80–100 hestöfl fyrst um sinn, og verður sú dreifing með lágspennu um kauptúnið sjálft. Nálægt aflsins ætti því að verða eftir til leigu um nágrennið, sem væntanlega mun alt verða notað, þegar efni leyfa að leggja háspennuleiðslu þangað, en að vísu er hún ekki með talin í áætlun verkfræðingsins. Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að skýra þetta nánar, en ef einhver af hv. þdm. vil fá nánari skýringu á þessu, þá stendur þeim til boða að sjá þessi plögg hjá mjer, áætlun verkfræðingsins og fundargerð hreppsfundar í Reyðarfirði. Jeg vona, að hv. deild taki þessari málaleitun hreppsins ekki lakar heldur en hún hefir tekið öðrum hjeruðum, sem hafa fengið miklu stórfeldari upphæðir, og þar sem búið er þó að veita mikla ríkisábyrgð áður.

Þá vil jeg víkja að 57. brtt. á þessu sama þskj., sem jeg flyt ásamt með hv. þm. N.-Ísf. Hún er um lán úr viðlagasjóði til handa tveim mönnum, 10 þús. kr., eða 5 þús. kr. til hvors, til þess að afla þeim tækja vegna starfsemi þeirrar, sem þeir stunda. Báðir þessir menn, Sigfús Vigfússon og Guðmundur Einarsson, hafa lengi fengist við rafstöðvabyggingar í sveitum, áður heima í sínu hjeraði, en nú í fjarlægum sveitum. Hafa þeir nú flutt á brautu, Sigfús til Austurlands, en Guðmundur til Vestfjarða. Ætla þeir að leggja stund á rafvirkjanir á þessum slóðum, en vantar þar smiðjur og önnur nauðsynleg tæki. Sigfús Vigfússon, sem næstl. haust og vetur vann austanlands að smíði ljósastöðva, varð ýmist að sækja smíðar og viðgerðir hingað til Reykjavíkur eða til Seyðisfjarðar, þar sem að vísu er gott verkstæði, en úthvorft að nota úr fjarlægum sveitum.

Yfirleitt er þessum rafstöðvasmiðum mikil nauðsyn á að eignast helstu áhöld til vinnu sinnar, og fyrir þá skuld er beðið um þetta lán til þeirra. Tafirnar við að sækja í fjarlæg hjeruð eftir áhöldum og smiðjum tefur verk þeirra óhæfilega. Í fjárl. fyrir yfirstandandi ár stendur 5000 kr. viðlagasjóðslán til Bjarna Runólfssonar frá Hólmi, sem er veitt í þessum sama tilgangi. Það lán á að standa vaxtalaust, en endurgreiðast á 20 árum. Hjer er farið fram á það sama fyrir þessa 2 menn, að því breyttu, að lánin eiga að endurgreiðast á 15 árum. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. sjái, að það er mjög svipuð nauðsyn á þessu fyrir þá menn, sem vinna austanlands og vestan, eins og norðan og sunnan, og sjái sjer því fært að samþ. þetta. Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að skýra þetta mál frekar.

Svo er það að síðustu ein brtt., sem er svo lítilfjörleg og sjálfsögð, að jeg geri ráð fyrir, að allir geti fallist á hana. Það er 52. brtt. á þingskjalinu, þar sem farið er fram á 100 kr. hækkun á þeim styrk, sem Steindór Hinriksson fyrv. póstur nýtur, eða hækkun úr 200 kr. upp í 300 kr. Þessi maður er nú kominn á áttræðisaldur og hefir lengi verið póstur á Austfjörðum, þar sem póstleiðir eru einna erfiðastar og víða yfir torsótt fjöll að fara. Nú er hann orðinn hrumur og sjóndapur og hefir orðið að leita hingað tvisvar vegna sjóndeprunnar til lækninga. Hann dvelur nú hjer undir læknishendi, og eru engar líkur til þess, að hann geti greitt lækninga- og ferðakostnaðinn sjálfur, en mun njóta hjálpar nokkurra góðra manna til þess.

Þessi 100 kr. hækkun er honum auðvitað engin hjálp til að standast slíkan kostnað, en aðeins glaðning og viðurkenning þess, að hann hafi ekki dugað ver í sínu starfi heldur en aðrir stjettarbræður hans, sem flestir fá 300 kr. eftirlaun eða meira.