26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

16. mál, fjárlög 1930

Sigurður Eggerz:

Það er að sjálfsögðu rjett hjá hv. frsm., að samkv. orðalaginu á aths. þeirri, sem fylgir fjárveitingunni um hinn almenna stúdentastyrk, þá megi veita fleiri stúdentum styrk af því fje en þeim, sem stunda háskólanám við erlenda háskóla. En nú er það vitanlegt, að mentamálaráðið telur sig bundið við fyrri venjur í þessu efni, en þær eru að veita einungis þeim stúdentum styrk af þessu fje, sem stunda nám við erlenda háskóla. Að fara því að vísa þessum manni, sem jeg er hjer að bera fram, á þessar 8 þús. kr., sem mentamálaráðið hefir yfir að ráða, er öldungis sama og gefa bankaávísun á innstæðu, sem engin er til, en það hefir ekki þótt og þykir ekki fínt af þeim, sem það gera. Það virðist því tæplega sæmandi fyrir hið háa Alþingi að fara þannig að. Hjer er því beinlínis verið að rjetta þessum fátæka námsmanni steina fyrir brauð. Eins og jeg tók fram áðan, er hjer um mjög efnilegan námsmann að ræða, mann, sem hefir sterka löngun til þess að komast áfram á þeirri braut, sem hann þegar hefir lagt út á. En hann skortir fje til þess. Mjer finst því, að það væri ærið hart af hv. dm., ef þeir feldu þessa litlu fjárveitingu til hans og skildu hann þannig eftir einmana á eyðiskeri fátæktarinnar í framandi landi. Jeg ber það traust til hv. dm., að þeir láti sig ekki henda slíkt.