26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

16. mál, fjárlög 1930

Jóhann Jósefsson:

Hv. þdm. hafa tekið eftir því, að hæstv. fjmrh, hefir víst tvisvar undir þessum umr. látið í ljós óánægju sína og undrun yfir hinum mörgu og stóru hækkunartill. og brýnt fyrir mönnum gætni. Mjer þykir það ekki nema eðlilegt, að hæstv. fjmrh. líti þessum augum á þetta. En að því er mig sjálfan snertir, þá hefi jeg ekki lagt stórt til þeirra mála að hækka útgjöldin og get því ekki tekið til mín hinar þungu ákúrur hæstv. ráðh.

Jeg skal ekki fara að ræða hinar ýmsu till. Þær eru margar, og er eðlilegt, að menn hafi misjafnar skoðanir á þeim. Jeg vildi samt láta í ljós þakklæti mitt til hv. fjvn. fyrir það, að hún hefir tekið upp till. um framlag til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum. Þótt jeg hefði það helst kosið, að n. hefði fallist á mína till. um það, þá get jeg sætt mig við till. n. Hún hefir viðurkent þörfina, er jeg benti á. En það er þáttur í að fara að orðum hæstv. fjmrh. að gera ekki of svæsnar kröfur um fjárframlög, og því beygi jeg mig undir þetta, en vænti þess, að hv. deild geti þá líka fallist á það.

Þá vil jeg tjá fjvn. þakkir fyrir að hafa ljeð eyra þeim bendingum, er fram komu um vegabætur á Reykjanesi til að gera þar hægra fyrir með björgunarstarfsemi. Mjer er það ljóst, hve stórt spor þetta er í áttina til þess að verða sjóhröktum mönnum að liði.

Það kemur óneitanlega undarlega fyrir sjónir, þegar hv. 2. þm. Eyf. flytur fjárbeiðni frá Siglufirði, þessum mikla útflutningsstað, um styrk til bryggjugerðar, að þá skuli n. leggja á móti því. Mjer finst það ekkert undarlegt, þó hv. þm. felli sig illa við þá skoðun. Fjárveitingavaldið verður að gefa að því gætur, hvaða staður það er, sem hjer sækir um hjálp til bryggjugerðar. (IngB: Þetta tilheyrir fyrri hluta!). Hv. frsm. fyrri hluta minti mig á, að jeg væri farinn að slá inn á fyrri hl. umr., og með leyfi hans vil jeg gera hjer aðra örlitla aths. við fyrri kaflann. Viðvíkjandi till. hv. 1. þm. Árn. um að gera það að skilyrði þeim mönnum, er þurfa að fá sjer gervilimi, að þeir kaupi þá innanlands, þá var það alveg rjettur skilningur, er hv. frsm. fyrri hl. túlkaði. Það mun hafa verið jeg og hv. 2. þm. N.-M., er fyrst fluttum till. þessa, og var hún flutt eingöngu. í því skyni að hjálpa sjúklingunum, án tillits til, hvar þeir keyptu sjer gervilimina. Þótti mjer því vænt um ummæli hv. frsm. — Vona jeg, að hv. frsm. síðari kafla afsaki þetta aukaspor mitt.

Þá vil jeg minnast hjer á till., er jeg ber fram, brtt. XXXVII á þskj. 408, um styrk til kenslu í síldarmatreiðslu. Jeg flutti till. um þetta við 2. umr., en þær voru þá feldar, þótt margt væri samþ., er jeg fullyrði, að ekki var eins þarft og það. Vil jeg benda á t. d., að hv. deild tvöfaldaði styrk til manns, sem sagt er, að sje að safna orðum. Það mun rjett vera, að hann hafi einhvern tíma á því byrjað, en aldrei hefir nokkur skýrsla birtst um starfið og menn fullyrða, að nú sje hann bókstaflega alveg hættur við það! Hinir sömu menn, er þetta samþ., neita um nokkurn eyri til fræðslu í síldarmatreiðslu. Þetta er dæmi um það, hve einkennilega Alþingi stundum útdeilir fje.

Því hefir verið haldið fram af sumum, að hjer væri um persónulegan styrk að ræða. En jeg legg áherslu á það, að jeg ber þetta ekki fram til að hjálpa þessari stúlku, heldur til þess að fá kenslunni haldið áfram. Og jeg treysti henni til starfsins; jeg hefi bæði sjeð til hennar og hefi einnig meðmæli frá málsmetandi mönnum. Eftir 2. umr. hefi jeg átt tal við nokkra stjórnendur síldareinkasölunnar, er þekkja Björgu Sigurðardóttur og hafa ljeð henni lið til kenslu sinnar undanfarið, og sögðu þeir, að líklegt væri, að einkasalan mundi taka einhvern þátt í að styrkja hana til kenslunnar áfram, því þetta væri í rauninni markaðsleit fyrir síldina innanlands. Þær 1200 kr., er koma eiga annarsstaðar að, eiga því að koma frá einkasölunni, samkv. vilyrði, sem jeg hefi frá mönnum í útflutningsnefnd. Jeg vonast til, að hv. deild sjái sjer fært að veita þennan litla styrk í því bráðnauðsynlega augnamiði að kenna þjóðinni að neyta þessarar hollu fæðu.

Jeg gæti nú í raun rjettri lokið máli mínu. Hefi jeg ekki komið fram með stórfeldar brtt. Þó hefi jeg leyft mjer að bera hjer fram eina smátill., ásamt hæstv. forseta þessarar deildar, um að hækka styrkinn til Páls Þorkelssonar úr 800 kr. upp í 1000 kr. Hv. frsm. mintist hjer áðan á hugsjónamenn. Hjer er maður, er lifað hefir fyrir hugsjón sína, bláfátækur og nú fjörgamall. Hann elur nú þá ósk í brjósti að fá komið út þó ekki væri nema einni örk sem sýnishorni af fuglaheitaorðabók sinni fyrir 1930. Þessar 200 kr., eru varla nægilegar til að standast þann kostnað, en þær mundu létta undir með það og sætta hann betur við tilveruna. Maðurinn er orðinn gamall, hrumur og nær blindur, og held jeg, að þetta sje hans einasta ósk, að láta þetta sýnishorn af safni sínu, sem á hvergi sinn líka, koma fyrir almenningssjónir.