26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

16. mál, fjárlög 1930

Haraldur Guðmundsson:

Jeg á hjer nokkrar brtt., er mjer þykir ástæða að mæla nokkuð fyrir. — Skal jeg þá fyrst geta þess, að jeg er þakklátur hv. fjvn. fyrir það, að hún hefir gert að sinni till. brtt. mína um styrk til kvenfjelagsins óskar á Ísafirði, og leggur til, að því verði veittar 6000 kr. Eins og hv. frsm. n. tók fram, er þessi styrkur mjög nauðsynlegur, því skólinn er nú húsnæðislaus. Eins og hv. dm. muna, var till. mín um að veita fjelaginu styrk til húsabygginga feld við 2. umr. Hefði skólinn því að líkindum orðið að hætta störfum, ef hann hefði ekki fengið styrkinn hækkaðan nokkuð.

Eins og hv. þdm. geta sjeð, er jeg riðinn við ekki allfáar brtt. Ef hv. dm. athuga þær, sjá þeir, að þær eru allar sjerstaks eðlis. Það eru sem sje mest styrkir til einstakra manna, en þeir munu ekki vera þær styrkveitingar, er best mælast fyrir utan þings eða innan.

Jeg geri ráð fyrir því, að þeir hv. þdm., er minnugir eru, minnist þess, að þegar hæstv. forsrh. flutti fjárlagaræðu sína við 1. umr. fjárl. nú í vetur, gaf hann skýrslu um, hvað mikið af hverju hundraði tekna ríkissjóðs hefði runnið til hinna ýmsu starfsþátta þjóðfjelagsins árlega síðan 1874. Kom þá í ljós, að framlögin höfðu í heild sinni hækkað stórlega. En hlutfallslega höfðu flestir liðirnir staðið í stað, sumir þó hækkað nokkuð og aðrir lækkað. Einn var sá liður, er lækkað hafði mjög mikið hlutfallslega við aðra liði og fólksfjölgunina í landinu. Þetta voru útgjöld til fræðslu- og mentamálanna í landinu.

Hvað sem nú svo sagt er um persónustyrkina yfirleitt, þá álít jeg, að því fje, er til þeirra gengur, sje yfirleitt fult eins vel varið og því fje, er gengur til ýmislegs annars. Og eins og fjárl. eru nú sniðin, þá er alveg sjerstök ástæða til að taka þá upp. Því þrátt fyrir þá yfirlýsingu hæstv. forsrh., að kenslumálin hafi orðið útundan, þá hefir engin breyting verið gerð til þess að bæta úr því og þau eru ennþá sett skör lægra en var fyrir 50 árum. Hinsvegar hafa tillög til verklegra framkvæmda margfaldast. Hefir það fje mest farið til vegabóta, brúargerða, jarðræktarframkvæmda o. þvíl. Er það vitanlega ekki nema gott, að ríflega sje lagt til þessa, ef efni leyfa. En ekki má vanrækja önnur nauðsynjamál alveg af þeim sökum. En þar sem svo mikið fje hefir runnið til þessa, mætti virðast minni ástæða til þess, að bæta þar við nýjum upphæðum, en rjettara að auka fjárframlögin á öðrum sviðum. Skal jeg í þessu sambandi geta þess, að fjárframlög til verklegra framkvæmda munu í fjárlfrv. stj. áætluð hærri en nokkru sinni áður, eða samtals talsvert hátt á 3. milj. króna. Það er vitanlega gott að geta lagt svona mikið fram til þessara mála, en það verður þó að hafa á því skynsamlega tilhögun. Ætti að leggja meira fram til slíkra framkvæmda þegar ilt útlit er fyrir atvinnu fyrir hinn vinnandi lýð, en draga heldur úr því þegar annað atvinnulíf er blómlegt. Því vinna sú, er ríkissjóður veitir, er orðin svo mikil, að hún skiftir talsverðu máli fyrir verkalýðinn. Mætti þannig jafna þessum framkvæmdum niður frá ári til árs, eftir því hvernig annað atvinnulíf væri. Opinberar framkvæmdir yrðu þá til þess jafnframt að bæta upp og jafna hina afarstopulu atvinnu, sem fyrirtæki einstaklinganna veita. Á því er full þörf, mikil nauðsyn. Þetta gleymist oft hv. Alþingi. Á þetta vildi jeg benda, enda þótt jeg hafi ekki gert neinn ágreining um það fjvn., og mun jeg ekki greiða atkv. gegn till. n. í þessum efnum.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að þeim einstöku brtt., er jeg ber hjer fram. Er það þá fyrst brtt. XLIV. á þski. 408. Hana flytja ásamt mjer hv. þm. V.-Sk. og hv. 2. þm. Rang., og er hún þess efnis, að Ingibjörgu Steinsdóttur verði veittar 2400 kr., til vara 2000, til leiknáms erlendis. Hygg jeg, að ekki þurfi að mæla mikið fyrir þessari till., því flestir hv. þm. munu hafa sjeð hana leika hjer í „Dauða Natans Ketilssonar“. Geri jeg ráð fyrir því, að allir sjeu sammála um það, að hún hafi sýnt mikla hæfileika, skap og leikþrótt. Hitt má aftur deila um, hve leikur hennar hafi verið fullkominn. En jeg veit, að hún hefir brennandi áhuga fyrir því að fullkomna sig eftir föngum í þessari list. Hún hefir leikið allmikið áður, t. d. Steinunni í Galdra-Lofti og aðalhlutverkið í Kinnarhvolssystrum og hlotið mikið lof fyrir. Hún hugsar sjer að fara fyrst til Þýskalands og síðan ef til vill til Stokkhólms. Ætlar hún að kynna sjer leiklist og leikhúsútbúnað. Vil jeg biðja hv. þm. að hugsa sig tvisvar um áður en þeir greiða atkv. gegn þessari till. minni. Því jafnframt því sem leiklist er mjög skemtileg, þá er hún og stórkostlegt menningaratriði. Og þegar þess er gætt, hve miklu er varið í þágu leiklistarinnar með því að ætla að byggja hjer nýtísku leikhús, þjóðleikhúsið, þá verður ekki gengið framhjá því, að það er jafnframt skylda fjárveitingarvaldsins að hlutast til um það, að vel mentaðir og hæfir leikarar fáist til þess að leika. Hjer er heldur ekki farið inn á neinar nýjar brautir með þessari till., því undanfarin ár hafa efnilegustu leikarar og leikkonur verið styrkt til utanferða til náms með sömu upphæð og varatill. fer fram á. Jeg þarf ekki að geta þess, að þessi kona er ekki svo efnum búin, að hún geti staðið straum af þeim kostnaði, er utanför hlyti að hafa í för með sjer, og býst reyndar við að hún þurfi að vera svo lengi erlendis, að 2 þús. kr. muni ekki nándarnærri hrökkva til.

Þá á jeg 45. brtt. ásamt hv. þm. N.-Ísf. og hv. 2. þm. Árn. Fer hún fram á það, að Jónasi Tómassyni verði veittar 2400 kr. til að kynna sjer nýjungar í hljómlist erlendis og undirbúa útgáfu tónsmíða sinna, og til vara er farið fram á 2000 kr. Jeg átti samskonar till. við 2. umr. og talaði þá fyrir henni, og get jeg því látið mjer nægja með að vísa til þess. Jeg vil þó aðeins minnast á það, að þessi maður er sem tónskáld og söngstjóri löngu orðinn alþektur um land alt, og þeir, sem til þekkja, hafa hið mesta álit á honum og álíta, að hann hafi unnið stórmikið og gagnlegt starf. Hann hefir aldrei fengið eyris styrk til þessa starfs nje opinbera viðurkenningu. Ætti því þessi hv. deild að sjá sóma sinn í að veita honum þessa upphæð.

Þá á jeg ásamt báðum hv. þm. Árn. brtt. undir XLVIII, er fer fram á 1200 kr. styrk til ungfrú Maríu Markan, til söngnáms í Þýskalandi. Þessi ungfrú er ein af þeim, sem leituðu til þingsins í fyrra að árangurslausu. Þrátt fyrir það rjeðist hún í að fara til Þýskalands til söngnáms og hefir dvalið þar síðan í fyrra vor. Jeg hefi sjeð ummæli um hana í þýskum blöðum, og ljúka þau öll lofsorði á list hennar. Í þessum skóla, sem hún er í, var sungið opinberlega í haust, og eftir aðeins 4 mánaða nám þar tók hún þátt í samsöngnum. Flestir þeirra, sem þarna sungu, höfðu dvalið í skólanum svo árum skifti, en hún aðeins 4 mán. Þrátt fyrir þessa stuttu dvöl við skólann eru blöðin sammála um, að hjer sje óvenjumikil listakona á ferðinni; fara þau mjög lofsamlegum orðum um söng hennar og dá rödd hennar og listaskilning mjög. Jeg tel vafalaust, að þessi stúlka muni gera okkur sæmd, ef hún getur haldið áfram námi sínu til fulls. Þeir, sem þekkja ætt þessarar konu, vita, að hún er öll mjög sönghneigð, og bróðir hennar einn hefir getið sjer frægð fyrir söng sinn úti í löndum. Jeg ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta, en vonast til þess, að hv. deild leggi það sjer á hjarta, sem hæstv. forsrh. sagði, og dragi ekki úr framlagi til þeirra listamanna og námsmanna, sem góðs má vænta af, svo að kraftar þeirra geti notið sín, til gagns og sæmdar þjóðinni. Aurasparnaður getur orðið bæði til vansæmdar og krónutjóns.