27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Ólafsson:

Það fór svo sem jeg bjóst við, að þunt mundi móðureyrað í hæstv. dómsmrh., er jeg kom að óheilindunum. Jeg benti á leikaraskap hans og óheilindi í bannmálinu. Jeg var ekki að áfellast það, þótt áfengislögin gengju í gegnum þingið í fyrra. Þau voru borin fram í Ed. og afgr. hjeðan með styrk hans manna. Það voru skiftar skoðanir meðal templara um það, hvað í þeim sje gott og hverju sje ofaukið. Sumir töldu öllu því ofaukið, er miðar að því að njósna um einstaka menn, og þótti það alveg tilgangslaust. Um þetta var deilt í fyrra og um þetta er deilt enn. Þó jeg flytti, þá ekki brtt. við frv., hefi jeg enn ekki breytt skoðun minni um óhollustu laganna á ýmsum siðferðissviðum. Sumt, sem í þeim lögum stendur, hefir orðið bindindis og bannmálinu til hins mesta tjóns. En hæstv. dómsmrh. hefir sjeð það einu leiðina til að koma ýmsu í framkvæmd að skjóta sjer undir gott málefni. En þegar að því kemur að styrkja það málefni raunverulega, þá draga þeir flokksmenn hans sig í hlje þrátt fyrir dýr loforð. Þetta vítti jeg og þetta er að verða meiri leikaraskapur kringum mál þetta en holt er Hæstv. dómsmrh. taldi þessa starfsemi — njósnir um einstaka menn — vera aðhald að ofdrykkjunni. En það veit hann sjálfur, að aldrei var drukkið meira en á þeim tíma, er harðast var gengið eftir þessu. Menn fara þá einungis í skúmaskotin, en halda sig ekki á opinberum stöðum. Þetta er málefninu til tjóns. Slíkar ráðstafanir eru ekki gerðar af vitsmunum eða þekkingu á mannlegu eðli. En sumir, er þykjast þurfa að koma ýmsu öðru í framkvæmd, hafa lag á að skjóta sjer undir þessi mál. Það er eins og alt starf hæstv. dómsmrh. gufi upp í njósnarstarfsemi og útgáfu áfengisskýrslna, er kostar stórfje, en er málefninu að engu liði. Það er einungis eltingarleikur til að varpa skugga á eina vissa stjett manna, læknana.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Það stendur nokkurnveginn á sama, hvort tillagið til stórstúkunnar verður hækkað úr 8 þús. kr. upp í 10 þús. kr. Það gerir lítið til ef að öðru leyti verður farið með málið betur en gert hefir verið og sá leikaraskapur, sem viðhafður var á síðasta þingi, verður ekki endurtekinn.